[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Vottunarstofur sem sjá um MSC-vottun á norsk-íslenskri hafa tilkynnt að verði ekki gripið til úrbóta hvað varðar stjórnun veiðanna verði vottun á síldinni afturkölluð í árslok.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Vottunarstofur sem sjá um MSC-vottun á norsk-íslenskri hafa tilkynnt að verði ekki gripið til úrbóta hvað varðar stjórnun veiðanna verði vottun á síldinni afturkölluð í árslok. Frá þeim tíma hafa þjóðirnar þrjá mánuði til að kynna áætlun um breytingar svo vottunin taki aftur gildi.

Auk Íslendinga eru Norðmenn, Færeyingar og Evrópusambandið atkvæðamest í þessum veiðum og hafa þær verið MSC-vottaðar. Afturköllunin mun gilda jafnt fyrir allar þjóðirnar. Ekki hafa verið gerðir heildarsamningar um veiðar á síldinni frekar en öðrum uppsjávarstofnum í Norður-Atlantshafi. Veiðar hafa verið umfram ráðgjöf.

Vottun veitir greiðari aðgang

Gísli Gíslason, svæðisstjóri MSC fyrir Ísland, Fræeyjar og Grænland, segir að þessi ákvörðun eigi sér nokkurn aðdraganda, en veiði umfram ráðgjöf sé meginástæðan fyrir ákvörðun vottunarstofanna. Brýnt sé að gert verði samkomulag um stjórnun þessara veiða og að koma böndum á þær svo tryggt verði að heildarveiði verði í samræmi við ráðgjöf. Það séu meginatriðin í sameiginlegri yfirlýsingum vottunarstofa.

MSC (Marine Stewardship Council) er stærst alþjóðlegra vottunarkerfa og viðurkennt um allan heim. Slík vottun veitir greiðari aðgang að mörkuðum, en óháðar vottunarstofur meta m.a. sjálfbærni fiskstofna og veiða.

Afturköllun í makríl

Makríll veiddur við Ísland fékk MSC-vottun haustið 2017, en vottunin var háð skilyrðum um að samkomulag næðist um aflahámark úr stofninum. Vottun makrílveiða í Norðaustur-Atlantshafi var síðan felld niður í byrjun mars á síðasta ári. Óljóst er hvað verður um vottun á kolmunna í framhaldi af árlegri úttekt á þessu ári.

Grásleppuveiðar við Ísland fengu vottun samkvæmt stöðlum MSC í árslok 2014. Vottunin var afturkölluð í byrjun árs 2018 vegna meðafla við veiðar, m.a. á sel og fugli.