Vinsæll David Bowie árið 1990 að kynna tónleikaferð um heiminn.
Vinsæll David Bowie árið 1990 að kynna tónleikaferð um heiminn. — AFP
Fjögur ár voru í gær liðin frá því breski tónlistarmaðurinn David Bowie lést aðeins 69 ára að aldri eftir stutta baráttu við lifrarkrabbamein.

Fjögur ár voru í gær liðin frá því breski tónlistarmaðurinn David Bowie lést aðeins 69 ára að aldri eftir stutta baráttu við lifrarkrabbamein. Í tilefni dagsins fengu 300 aðdáendur tónlistarmannsins í Bresku geimmiðstöðinni í Leicester að sjá áður ósýnt myndefni með Bowie sem tekið var upp 1998. Í frétt BBC um málið kemur fram að myndefnið, sem spanni um 30 mínútur, hafi legið óhreyft í geymslu De Montfort-háskólans í Leicester. Martin Richardson, vinur og samstarfsfélagi Bowies, tók efnið upp til að búa til heilmyndina af Bowie sem fylgdi um 500.000 eintökum af plötunni Hours sem út kom 1999. Á upptökunum, sem klipptar hafa verið saman, má sjá Bowie ganga í átt að myndavélinni og stilla sér upp í ýmsar stellingar.

Í vikunni bárust jafnframt fréttir af því að von væri á tveimur nýjum plötum með upptökum Bowies. Samkvæmt frétt The Guardian er annars vegar um að ræða plötuna Is It Any Wonder? sem inniheldur áður óútgefnar upptökur með Bowie og hins vegar ChangesBowieNow sem inniheldur upptökur frá 1996 af æfingu fyrir tónleika Bowies í Madison Square Garden í tilefni af 50 ára afmæli tónlistarmannsins. Ekki liggur fyrir hvaða lög verða á Is It Any Wonder? en fyrsta lagið af plötunni, „The Man Who Sold the World“, fór í spilun 8. janúar, en þann dag hefði Bowie orðið 73 ára hefði hann lifað. Báðar plötur eru gefnar út hjá Parlophone Records. Dánarbú Bowies á allar upptökurnar.

Í fréttinni kemur fram að stuttu eftir andlát Bowies hafi salan á plötum hans aukist um 5.000% í Bandaríkjunum. Í vikunni sem hann lést seldust 682.000 plötueintök og samkvæmt Spotify-streymisveitunni jókst hlustun á tónlist hans um 2.700% fyrstu klukkutímana eftir andlátsfréttina.