Guðrún Ögmundsdóttir fæddist 19. október 1950. Hún lést 31. desember 2019.

Útför Guðrúnar fór fram 10. janúar 2020.

Þegar ég hitti Guðrúnu Ögmundsdóttur í fyrsta sinn faðmaði hún mig og kyssti eins og við værum aldagamlar vinkonur. Þetta var í matsal Alþingis og ég var tvístígandi á fyrsta degi sem þingfréttaritari Morgunblaðsins. Með faðmlagi Gunnu hvarf allt óöryggi heimsins. Hún bjó til pláss, leyfði mér að tilheyra, sem er einhver almikilvægasta tilfinning manneskjunnar.

Svona var Gunna. Mætti tilfinningum okkar áður en við vissum af þeim sjálf. Það var eins og hún skynjaði heiminn á annarri bylgjulengd, þar sem orð voru allt að því óþörf. Þetta reyndist stundum dálítil kúnst fyrir ævisöguskrásetjara. „Ég meina jiii, maður minn, þú getur rétt ímyndað þér.“ Hvað? spurði ég. Ímyndað mér hvað? Þá brosti hún og bætti aðeins við myndina. Yfir heitu súkkulaði á Mokka öðlaðist ég smám saman betri innsýn í líf og feril þessarar margbrotnu manneskju, og kom afrakstur samtala okkar út á bók á sextugsafmæli Gunnu fyrir rétt um áratug.

Skilningur Gunnu á mannlegum tilfinningum átti sér margar ólíkar rætur, sumt eflaust meðfætt, kannski nesti úr fyrri lífum, annað lært. Hún lærði á barnsaldri að fullorðnar manneskjur geta verið flóknar. Að í einni manneskju mætti finna blíðu, mannkærleika og ást, en líka reiði, ótta og sársauka, sem gæti jafnvel brotist út með ofbeldisfullum hætti. Hún lærði að skilja afbrýðisemi og sorg, en einnig heilunarmátt kærleika og ástar. Hún hvatti samferðafólk sitt stöðugt til að þvælast ekki um með löngu liðinn sársauka í bakpoka. En það var líka inngróið í Gunnu að kerfin okkar þyrftu að virka til að styðja við fólk. Hún var félagsráðgjafi, ekki aðeins að mennt, heldur af lífi og sál, í leik og starfi. Þetta tók hún með sér í stjórnmál og það gerði hana að einstökum stjórnmálamanni, einum þeim merkilegasta í okkar samtíð, þótt hefðbundnar fréttaskýringar nái ekki alltaf utan um það. Hún dró fólk upp úr skotgröfum og píndi það til samtals, því aðeins þannig geta alvörubreytingar átt sér stað. Demantskrati er orðið sem hún notaði til að lýsa föður sínum, hún var það sannarlega sjálf.

Sem tengiliður vistheimila átti Gunna samskipti við eitt þúsund einstaklinga sem allir höfðu sína sögu að segja og oft ekki fallega. Þetta var eitt viðkvæmasta uppgjörið sem íslenskt samfélag hefur staðið frammi fyrir og allflestir gengu sáttir frá borði. Gunna vissi sem var að fjárhæðirnar máttu sín lítils einar og sér. Hér þyrfti hlustun, virðingu og viðurkenningu og að skylda stjórnvalda væri að tryggja að fólk gæti gengið hnarreist frá borði, fremur en niðurbrotið úr dómsal.

Þótt Gunna hefði endalaust pláss fyrir fólk, þá var hún fljót að spyrna við fótum ef hún skynjaði óheiðarleika. Græðgi og sjálflægni þoldi hún ekki, og kannski einmitt þess vegna datt hún út af þingi á því herrans ári 2007 þegar þau gildi voru allsráðandi í samfélaginu. Að leiðarlokum var hún aftur orðin borgarfulltrúi – í návígi við nærþjónustuna – þar sem hennar stjórnmálaferill hófst á vegum Kvennalistans.

Eftir að Gunna veiktist minnti hún okkur stöðugt á að þora að taka á móti hamingjunni, ekki síst hamingjunni í hinu smáa: fyrsta kaffibolla dagsins, KK í útvarpinu, sveskjugraut með rjómablandi. Og einmitt þannig minnumst við hennar, með því að þora að vera hamingjusöm. Íslenskt samfélag er ekki fátækara núna eftir að hún er gengin, það er ríkara því við áttum hana.

Ég votta Gísla, Ögmundi, Ingibjörgu, barnabörnunum og öðrum aðstandendum mína dýpstu samúð.

Gunna, elsku vinkona mín, takk fyrir búa til pláss fyrir mig, takk fyrir allt sem þú gafst af þér. Sjáumst í henni næstu veröld.

Halla Gunnarsdóttir.

Ég var svo lánsamur að kynnast Guðrúnu Ögmundsdóttur fyrir um áratug, þegar leiðir okkar lágu saman við lausn á bótauppgjöri ríkisins við þá sem máttu þola illa meðferð sem börn á stofnunum á vegum hins opinbera. Ég vissi fátt um Guðrúnu á þeim tíma og lítt grunaði mig hvílík áhrif hún myndi hafa á mig þegar fram liðu stundir. Ég býst við að flestir sem kynntust henni geti sagt það sama. Samstarf okkar stóð á níunda ár og lauk í raun aldrei að fullu, því eftir að hún hætti formlega störfum leitaði ég oft til hennar til að fá ráð og stundum bara til þess að fá dómgreind hennar og visku að láni. Verkefnið sem okkur hafði verið falið var svo vaxið að það tók stundum bæði hugann og sálina í gíslingu. Því var ómetanlegt að hafa slíkan einstakling til samstarfs og ráða. Ég vissi í upphafi ekki hvert samstarf okkar myndi leiða, enda var um að ræða verkefni sem átti sér engin fordæmi í íslenskri sögu. Guðrún var ráðin sem tengiliður þeirra sem áttu um sárt að binda og var verkefni hennar að veita þeim aðstoð við framsetningu bótakrafna í orðanna hljóðan. Þetta er þó aðeins brot af starfi hennar því hún leysti verkefni sem voru langt umfram það sem lagalegar starfsskyldur hennar gerðu ráð fyrir, enda leit hún svo á að skyldur hennar við þá sem í hlut áttu væru miklu víðtækari en svo. Þetta flókna verkefni leystist á endanum farsællega og í þeirri lausn lék Guðrún aðalhlutverkið. Fljótlega varð mér ljóst að hún væri eini rétti einstaklingurinn í starfið, því hún var vakandi yfir því mikilvægasta af öllu; að allir hefðu eyra sem hlýddi á þá, gaf ómetanleg ráð og veitti öllum þá reisn og virðingu sem þeir áttu skilda. Það var nefnilega sérstakur hæfileiki hennar að koma fram við alla, hvaða stétt sem þeir tilheyrðu eða í hvaða stöðu sem þeir voru, af sömu virðingu og oft sá maður fólk vaxa við það eitt að tala við hana. Það var jafnan mjög sérstakt að vera með Guðrúnu, húmorinn engu líkur og hún hafði lag á að sjá margar hliðar á málunum og ekki síst þær grátbroslegu. Eftir að hafa lokið fundum gengum við stundum frá dómsmálaráðuneytinu og niður Bankastrætið. Þessi stutta ganga tók samt gjarnan um klukkustund, því á leiðinni hitti Guðrún ótrúlegan fjölda fólks sem vildi eiga við hana orð og stundum að því er virtist aðeins fá faðmlag og hlýju frá henni, því þrátt fyrir að vera hvorki stór né mikil vexti átti hún svo stóran faðm að hann rúmaði alla. Hún átti líka rödd sem hún var tilbúin að lána þeim sem litla eða enga áttu og tala fyrir þeirra hönd og þvílík rödd það var sem hún léði þeim. Eftir kynni af henni stendur fyrst og fremst eftir orðið þakklæti. Þakka þér elsku vinkona mín fyrir það sem þú gerðir fyrir mig. Þakka þér þegar þú hringdir í mig á föstudögum til að gæta þess að ég tæki starfið ekki með mér heim yfir helgina, þakka þér fyrir að fá að kynnast þér og umfram allt þakka þér fyrir allt það sem þú gerðir fyrir aðra og hvernig þú lagðir þig alla fram um að bæta líf þeirra sem ekki gátu sjálfir. Hvíldu í friði eftir ótrúlegt ferðalag þitt.

Halldór Þormar

Halldórsson.

Það var mikill kraftur í þessari góðu konu þegar hún kom inn í líf mitt í gegnum Vistheimilasamtökin með símtali sem varði í meira en klukkustund. Þrátt fyrir að ég væri öll til baka - full vantrausts og efasemda um raunverulega góðmennsku hennar - reyndist hún mér með eindæmum úrræðagóð enda forvitin og þolinmóð kona sem lá ekki á liði sínu að aðstoða fólk eins og mig með því að benda á leiðir til að afla alls konar gagna fyrir bótanefnd og finna ásættanleg úrræði á þeirri erfiðu göngu sem það var að standa upp eftir áralanga þögn og leita réttlætis um þann nöturlega aðbúnað sem okkur vistheimilabörnum var boðið upp á þegar við vorum börn og unglingar í hremmingum, vistuð á stofnunum og heimilum á Íslandi.

Fyrir mér varð hún eins og góður vinur eða gömul frænka. Hún hringdi í mig mörgum sinnum til að ræða viðkvæm tilfinningamál og eins leitaði hún stundum ráða hjá mér um hvernig best væri að haga hlutunum því hún hafði þá alvarlegu skyldu á herðunum að vera klettur fyrir ólíkar þarfir og óskir hvers og eins. Kynferðislegt ofbeldi kom mest til tals millum okkar og var hún mjög skilningsrík og opinhuga, fannst eiginlega sorglegast hvað langtímaafleiðingar slíks ofbeldis voru afdrifaríkar fyrir líf mitt og óafturkræfar. Hún var Vistheimilasamtökunum mikill stuðningur, eins og góð móðir með ungahópinn sinn, þar sem við höfðum öll mismunandi persónuleika, reynslu, sögu og bakgrunn. Og þrátt fyrir að geta ekki hjálpað okkur öllum á þann hátt sem hún kannski helst hefði kosið fór hún ekki í manngreinarálit og gagnvart mér fann ég aðeins hlýju og umhyggju fyrir að mér myndi farnast sem best í lífinu.

Ég vil þakka henni fyrir að láta mér finnast ég vera sérstök kona, að segja mér að ég væri hugrökk og að saga mín væri ljós í myrkrinu. Það þótti mér vænt um. Hún gaf mér bæði styrk og trú á framtíðina þegar ég var full efasemda yfir að það væri aldrei hægt að bæta mér þann miska sem ég varð fyrir sem barn og unglingur. Ég veit að þetta var erfitt starf sem hún tók að sér og hún reyndi að gera sitt besta þótt það tækist ekki alltaf enda við vistheimilabörnin bæði með misjafna og ólíka reynslu mörg hver og baggar fortíðarinnar oft þungir að burðast með og sligandi.

Megi algóður guð launa henni fyrir hennar góðu verk. Ég mun aldrei gleyma hennar ljúfu en ákveðnu persónu þegar hún reyndi að velta við mosavöxnum steinum með misjafnlega góðum árangri enda á brattann að sækja í mörgum tilfellum og samfélagið að vakna um hvað raunverulega átti sér stað fyrir okkur vistheimilabörn.

Ég kveð Guðrúnu með virðingu.

Andi hennar lifir í verkum hennar og í minningum mínum.

Hellen Linda Drake.

Það er alltaf sorg að kveðja góðan vin. Guðrún Ögmundsdóttir var einstaklega vinmörg, framtakssöm, rösk, skjót að greina lausnir, ná sáttum og skila af sér ánægðum skjólstæðingum, svo vingarður hennar varð svo víður að vandi er að fella í skörðin.

Guðrúnu kynntist ég strax sem samstarfskonu á Kvennadeild Landspítala, og enn nánar er við Þuríður og hún vorum skipuð í opinbera úrskurðarnefnd skv. 28. gr. laga no. 25/1975. Samstarf okkar þar stóð á þriðja áratug og þrátt fyrir mikið annríki hennar á mörgum vígstöðvum tókst okkur alltaf að afgreiða öll erindi á örskotsstund og náðum alltaf sátt þótt oft væru flókin og viðkvæm trúnaðarmál lögð fyrir nefndina. Þar nutum við djúpstæðrar þekkingar Guðrúnar á flóknum félagslegum aðstæðum.

Það fer ekki hjá því að svo langvinn samvinna myndi vinatengsl og þannig kynntumst við einnig fjölskyldu hennar, þó sérstaklega Gísla, sem ávallt stóð sem klettur við hlið hennar og sér nú á bak ástvini og besta félaga.

Hjá honum, Ingibjörgu og Ögmundi er hugur okkar á þessum tímamótum, þegar við kveðjum Guðrúnu, okkar góðu vinkonu. Við biðjum Hann sem öllu ræður að blessa minningu Guðrúnar og styðja Gísla og fjölskyldu við þessi kaflaskil í lífi þeirra. Megi sá kraftur sem einkenndi Guðrúnu verða þeim styrkur um komandi ár.

Þuríður Árnadóttir,

Arnar Hauksson.

Það var enginn ósnortinn af því að kynnast Guðrúnu Ögmundsdóttur því þar var á ferð einstök kona. Það er erfitt að lýsa Gunnu; hún var lítil og nett en um leið stór á allan þann hátt sem maður finnur í samskiptum, lífi og starfi. Hún var orkumikil og snögg en gaf sér samt alltaf tíma fyrir alla, sá alltaf heildina og stóru línurnar um leið og hún hugaði að minnstu atriðum. Þessir hæfileikar gerðu henni kleift að eiga auðvelt með að lesa póltíkina, verkefnin og samfélagið. Gunna sá fólk og það skipti hana máli þannig að öllum í kringum hana fannst eins og akkúrat þeir væru henni mikilvægir, enda nálgaðist hún alla sem jafninga, sama hver átti í hlut. Við Gunna vorum staddar saman fyrir nokkrum árum á Írlandi í vinnuferð þar sem við gengum mikið á milli staða og skoðuðum, hún var þarna ítrekað stoppuð og spurð til vegar. Við samferðafólk hennar hlógum mikið að þessu en Gunna bara brosti og sagðist oft lenda í þessu hér og þar um heiminn og í raun var þetta enn ein staðfestingin á því hvað hún smellpassaði alls staðar inn.

Það var ómetanlegt lán fyrir mig að kynnast Gunnu og hún reyndist mér bæði mikilvægur pólitískur ráðgjafi og kær vinkona. Við tókum öðru hvoru einn kaffi eða hádegismat og töluðum alveg stanslaust í hringi um alls konar hluti, persónulega og pólitík, og í lok samtals vorum við komnar með línu í fjölmörg mál og skildum hvor aðra alveg, þótt ég efi að nokkur annar hefði haldið þræði hefði hann hlustað á samtalið. Þessar minningar þykir mér óendanlega vænt um og einnig hve afgerandi Gunna var í sínum skoðunum og hve óhrædd hún var að láta þær skoðanir í ljós. Þá var sama hvort hún var hrifin af einhverju eða vildi benda á það sem betur mætti fara hjá okkur einstaklingum eða bara í hugarfari þjóðarinnar. Allt sagt af heiðarleika og vissunni um að það væri alltaf best að segja sannleikann. „Taka allt upp á borðið,“ eins og hún sagði stundum þegar við vorum að ræða flókin samskipti í einum af þeim hópum þar sem okkar leiðir lágu saman.

Gunna lét sannarlega hjartað ráða för í lífi og starfi. Mannréttindi voru henni hjartfólgin en líka að fólk vandaði til verka í stjórnsýslu og pólitík og gerði hlutina faglega og vel. Fyrir konu eins og mig, sem hef verið örfá ár í stjórnmálum, var ómetanlegt að eiga Gunnu og fyrir það verð ég ævinlega þakklát. Gunna elskaði fólkið sitt og talaði mikið um Gilla og Ingibjörgu, Ögmund og hans fjölskyldu og hve lánsöm hún væri, ég samhryggist þeim innilega á þessum erfiðu tímum.

Heiða Björg Hilmisdóttir,

varaformaður Samfylkingarinnar og borgarfulltrúi.

Árið hófst með þeirri harmafregn að Guðrún Ögmundsdóttir, ein ötulasta baráttumanneskja fyrir mannréttindum sem Ísland hefur alið, hefði kvatt okkur hinsta sinn. Að hennar stóra ljós, hennar mikli logi væri nú slokknaður. En í sorg og söknuði má senn finna þakklæti. Þakklæti fyrir að hafa fengið að vera henni samferða um stund. Það er tilfinningin sem við, starfsfólk og stjórn UNICEF á Íslandi, ætlum að taka með okkur inn í framtíðina.

Gunna, eins og hún var iðulega kölluð, var stór hluti af starfsemi UNICEF á Íslandi og ræktaði hún það hlutverk sitt sem stjórnarmaður og síðar stjórnarformaður samtakanna um árabil af slíkum eldmóði, drifkraft, hlýju og manngæsku að hún kveikti sama loga innra með öllum sem að málefninu komu með henni. Það var eins með réttindi og velferð barna og annað sem hún tók sér fyrir hendur. Allt gerði hún af alúð, einurð og krafti.

Við hjá UNICEF á Íslandi erum þakklát fyrir að hafa fengið að njóta krafta hennar Gunnu og á hún stóran þátt í þeim árangri sem samtökin hafa náð og sýn hennar mun lifa áfram í verkum okkar.

Við eigum henni margt að þakka eins og ótalmargir Íslendingar. UNICEF á Íslandi sendir fjölskyldu og ástvinum Gunnu hugheilar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning hennar.

Fyrir hönd starfsfólks og stjórnar UNICEF á Íslandi,

Bergsteinn Jónsson framkvæmdastjóri.