Fyrsti leikurinn Jón Eggert Hallsson, nýr formaður Hugins, þokar c-peðinu um tvo reiti fyrir Hjörvar Stein Grétarsson. Mótherji Hjörvars, Halldór Grétar Einarsson er einn af aðalskipuleggjendum mótsins ásamt Jóni Þorvaldssyni sem fylgist með.
Fyrsti leikurinn Jón Eggert Hallsson, nýr formaður Hugins, þokar c-peðinu um tvo reiti fyrir Hjörvar Stein Grétarsson. Mótherji Hjörvars, Halldór Grétar Einarsson er einn af aðalskipuleggjendum mótsins ásamt Jóni Þorvaldssyni sem fylgist með. — Ljósmynd/Pálmi R. Péturs
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eigi alls fyrir löngu sat greinarhöfundur að spjalli með nokkrum þekktum meisturum þar sem rædd var sú ályktun sem einn varpaði fram að tölvuforritið fræga, Alpha Zero, hlyti að hafa hjálpað Magnúsi Carlsen að vinna heimsmeistaratitlana í hraðskák og...

Eigi alls fyrir löngu sat greinarhöfundur að spjalli með nokkrum þekktum meisturum þar sem rædd var sú ályktun sem einn varpaði fram að tölvuforritið fræga, Alpha Zero, hlyti að hafa hjálpað Magnúsi Carlsen að vinna heimsmeistaratitlana í hraðskák og atskák. Það er athyglisvert að viðtal sem greinarhöfundur rakst á nýlega virðist styðja þessa skoðun. Þar kvaðst Magnús oft velta því fyrir þegar hann sæti að tafli hverju Alpha Zero myndi leika í hinni eða þessari stöðunni. Hann sagði ennfremur að nútímaskákmenn hlytu að reyna að bæta árangur sinn með svipuðum hætti og hann gerir.

Það kann að virðist fráleitt að halda því fram að hraðskákir með tímamörkunum 3-2 innihaldi álíka dýpt og nákvæmni og þegar eigast við öflugir skákmenn í skákum með lengri umhugsunartíma. En þegar lokaskák Norðmannsins í aukakeppni hraðskákmótsins er skoðuð má greina áhrif Alpha Zero. Frumkvæðið er greinilega mikilvægt að mati Alpha Zero sem leggur einnig mikla áherslu á virkni léttu mannanna. Magnús kærði sig kollóttan um tvö peð á drottningarvæng heldur kom riddurum sínum þannig fyrir að hrókar svarts gátu sig hvergi hrært. Fyrstu 17 leikirnir féllu þannig:

Heimsmeistaramótið í hraðskák; Moskvu 2019:

Magnús Carlsen – Hikaru Nakamura

Drottningarpeðsleikur – London

1. d4 Rf6 2. Rf3 d5 3. Bf4 c5 4. e3 e6 5. Rbd2 Bd6 6. Bxd6 Dxd6 7. dxc5 Dxc5 8. c4 dxc4 9. Bxc4 0-0 10. Hc1 De7 11. 0-0 b6 12. De2 Bb7 13. Hfd1 Rbd7 14. Ba6 Rc5 15. Bxb7 Dxb7 16. Re5 Rcd7 17. Df3

Frekar hverdagsleg taflmennska en það er eins og orðspor Magnúsar í endatöflum hafi orsakað það að Nakamura vék drottningunni undan. Hann gat jafnað taflið með 17. ... Dxf3 18. Rdxf3 Rxe5 19. Rxe5 Hfd8 20. Hxd8+ Hxd8 21. Kf1 og nú 21. ... Re8! – að hætti Karpovs – og svarta staðan er algerlega skotheld.

17. ... Da6?! 18. Rc6 Kh8 19. Rc4 Dxa2 20. g4 Rc5 21. Rd6

Hann lætur sér í léttu rúmi liggja þó að svartur geti tínt upp peðin á drottningarvæng en leggur áherslu á virkni mannanna.

21. ... Rb3?

Þetta er í raun tapleikurinn. Vélarnar telja að svartur geti haldið jafnvægi með 21. ... Dxb2 en það er langsótt.

22. Hc2 Da4 23. Hc4 Da6 24. g5 Rd7 25. Hh4 Rbc5

26. Rxf7+

Smá galli á úrvinnslunni en dugar samt. Hvítur gat mátað með 26. Hxh7+! Kxh7 27. Dh5+ Kg8 28. Re7 mát.

26. ... Hxf7 27. Dxf7 De2 28. Hxd7 Rxd7 29. Dxd7 Hf8 30. Hf4!

- og Nakamura gafst upp.

Skákþing Reykjavíkur hafið

Alls eru 59 keppendur skráðir til leiks á Skákþingi Reykjavíkur sem hófst á sunnudaginn. Teflt er tvisvar í viku, samtals níu umferðir. Stigahæstir eru Guðmundur Kjartansson, Davíð Kjartansson, Sigurbjörn Björnsson og Vignir Vatnar Stefánsson.

Skákhátíð MótX

Eins og undanfarin ár fer Skákhátíð MótX, gestamót Hugins og skákdeildar Breiðabliks, fram í Stúkunni á Kópavogsvelli. Eru keppendur 59 talsins og tefla í tveim riðlum, samtals sjö umferðir. Jóni Þorvaldssyni hefur eins og áður tekist að fá til leiks marga valinkunna meistara og má nefna Hjörvar Stein Grétarsson, Guðmund Kjartansson, Þröst Þórhallsson, Jón Viktor Gunnarsson, Björn Þorfinnsson, Dag Ragnarsson, Davíð Kjartansson, Björgvin Jónsson, Ingvar Þór Jóhannesson og Vigni Vatnar Stefánsson.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is