Sóley Magnúsdóttir viðskiptafræðingur fæddist á Akureyri 17. júní 1969. Hún lést á heimili sínu 26. desember 2019.

Foreldrar hennar voru Margrét Halldóra Harðardóttir, húsmóðir og fiskvinnslukona frá Akureyri, f. 26. ágúst 1947, d. 18. ágúst 1986, og Magnús Halldórsson sjómaður frá Akranesi, f. 7. desember 1942, d. 18. febrúar 1989.

Systkini Sóleyjar eru: Ottó Hörður Guðmundsson, f. 22. nóvember 1965, maki Kolbrún Erna Magnúsdóttir, f. 12. maí 1968; Halldór Magnússon, f. 8. apríl 1971; Ása Huldrún Magnúsdóttir, f. 26. nóvember 1978, maki Gunnar Björgvin Arason, f. 25. september 1981; Kristján Þór Kristjánsson, f. 7. desember 1985.

Sóley eignaðist þrjú börn með fyrrverandi eiginmanni sínum, Sævari Þorsteinssyni, f. 7. nóvember 1969. Börn Sóleyjar og Sævars eru: Aldís Freyja Sævarsdóttir, f. 10. júní 1996; Sindri Snær Sævarsson, f. 16. september 1999 og Þorsteinn Darri Sævarsson, f. 12. apríl 2001.

Útför Sóleyjar fór fram frá Akureyrarkirkju 9. janúar 2020.

Elsku Sóley, mín kæra systir sem ég elskaði svo heitt. Það var svo mikið áfall annan í jólum að fá símtal um að þú værir farin, þetta er óbærilegt og ég veit ekki hvernig verður hægt að halda áfram án þín. Þegar við vorum unglingar og Ása systir aðeins barn að aldri kom í ljós hjartalag þitt þegar áföllin dundu yfir okkur. Þá varst þú kletturinn fyrir okkur systkinin og varst kletturinn okkar alla tíð. Ég var heimalningur á þínu heimili þar sem ég bjó á köflum og alltaf tekið vel á móti mér. Mér leið alltaf svo vel á þínu heimili, þú sýndir mér svo mikinn kærleika og góðmennsku. Heimilið þitt var alltaf svo fallegt og hlýlegt og alltaf fullt af þeim góðu vinum sem þú áttir og reyndust þér svo vel. Þegar Magnús minn fæddist varstu stolt föðursystir og þegar hann stækkaði eyddi hann mörgum góðum stundum hjá þér og leið svo vel hjá þér. Þú leist eftir honum eins og hann væri þitt eigið barn og hann elskaði að vera í kringum þig.

Þú varst yndisleg mamma og svo stolt af börnunum þínum. Þú bjóst þeim gott heimili og elskaðir þau svo mikið og það sem þú varst stolt af þeim. Þau sakna þín svo mikið, elsku Sóley. Alltaf þegar erfiðleikar komu upp í lífi mínu þá varst þú sú manneskja sem ég hringdi í og leitaði til, þú varst alltaf til staðar og hjálpaðir mér ávallt. Ég reyndi að endurgjalda greiðann síðustu misseri þegar þú gekkst í gegnum erfið veikindi og mikla erfiðleika í lífi þínu. Mér finnst að mér hafi ekki gengið það nógu vel og vildi að ég hefði getað verið meira eins og þú og tekist að hjálpa þér. Mig tekur þetta svo sárt elsku Sóley mín, ég vildi að ég hefði getað hjálpað þér með sama hætti og þú hjálpaðir mér. Við vorum alltaf svo samheldin og til staðar hvort fyrir annað. Það var vegna þín, þú varst sterkust af okkur og við leituðum öll til þín. Þú varst svo klár og sterk, fórst í gegnum háskólanám og kláraðir viðskiptagráðu samhliða vinnu. Ef einhvern vantaði aðstoð með lærdóm var leitað til þín, sérstaklega með stærðfræði, ef einhvern vantaði aðstoð með skattframtalið var leitað til þín, þú varst svo klár og hjálpsöm og alltaf til staðar.

Ég elska þig mín kæra systir og mig tekur þetta svo sárt. Elsku Aldís, Sindri og Þorsteinn, ykkar missir er svo mikill. Á sama tíma og þú varst að ganga í gegnum erfið veikindi varstu að ganga í gegnum sáran skilnað sem tók mikið á þig, elsku Sóley mín. Við systkinin vorum svo náin og sterk saman með þig sem leiðtoga því þú hélst okkur saman og við leituðum öll ráða hjá þér og nú hef ég fundið svo sterkt hvað mig vantar þig og þarfnast leiðsagnar frá þér.

Ég er óendanlega þakklátur fyrir þær stundir sem við áttum saman dagana fyrir andlát þitt og sérstaklega kvöldið áður en þú kvaddir. Við vorum sátt og góðir vinir og þú baðst mig um aðstoð sem var mér gríðarlega mikilvægt.

Mín eina huggun nú er sú að þú sért hjá mömmu og pabba og hafir fundið frið í hjartanu og sért laus við allar þrautir. Ég mun alltaf muna þig og tala um þig við elsku Freyju Sóleyju Magnúsdóttir sonardóttur mína. Ég trúi því að við munum hittast síðar ásamt mömmu og pabba og eiga góðar stundir.

Þangað til þá, farðu í friði elsku systir og ég hlakka til að sjá þig aftur.

Þinn bróðir

Halldór Magnússon.

Elsku yndislegi engillinn minn, nú kveð ég þig í síðasta skiptið.

Það er svo sorglegt þegar fólk er tekið frá okkur í blóma lífsins, svo sárt að horfa upp á börnin þín þrjú kveðja yndislega móður, systkini sem sjá á eftir systur, ömmu sem horfir á eftir yndislega barnabarninu sínu, og alla vinina sem horfa á eftir góðri vinkonu og vini. Ég var svo lánsöm að eignast þig sem frænku og mikla vinkonu í gegnum lífið, við brölluðum margt saman á okkar yngri árum, sumt prenthæft en annað ekki, já við vorum grallarar. Fyrstu minningarnar eru um hitting hjá Helgu ömmu okkar á Akranesi, svo er við heimsóttum hvor aðra.

Þegar við fórum að eignast börnin okkar urðum við mjög samstiga, við fórum saman í sumarbústaðaferðir með börnin okkar, gistum heima hjá hvor annarri, spjölluðum oft langtímum saman í síma, lengsta símtalið okkar var 8 klst., eins og heill vinnudagur, við urðum aldrei þreyttar á að spjalla, höfðum svo margt að segja hvor annarri, svo margt sem var bara okkar á milli, elskan mín, við tökum upp þráðinn er við hittumst á ný.

Þegar þú lást inni á lungnadeild og gjörgæslu á LSH heimsótti ég þig daglega, það var svo skrýtið að sjá þig svona mikið veika, þú opnaðir augun og brostir til mín.

Þú varst svo máttfarin, þú sagðir ekki orð, ég hélt fast í höndina á þér og við þögðum saman sem gerðist ekki oft á okkar lífsleið. Ég sat með þér kvöldið áður en þú fórst aftur norður, þá fyrst áttaði ég mig á hvað þessi sjúkdómur hafði gert yndislegri, uppáhaldsfrænku minni, já hann var búinn að ná henni á sitt vald. Það sem glymur í eyrunum á mér er setningin sem þú sagðir svo oft við mig að þrátt fyrir aldur okkar værum við ekki sloppnar við fjölskyldusjúkdóminn sem tekið hefur sinn toll hjá okkur. Þegar upp er staðið varð það raunin og tók hann þig frá okkur að lokum. Elskan mín, nú hef ég trú á að þér líði miklu betur, þar sem þú situr ásamt heittelskuðum foreldrum þínum, ömmu, öfum og öllum hinum sem fóru á undan þér, þú segir þeim vonandi fréttir af okkur, sem syrgjum ykkur hér á jörðu niðri. Ljúfa, góða frænka, ég kveð þig, takk fyrir tryggan góðan vinskap þinn, kveð þig með tregatárum og miklum söknuði, söknuði að heyra ekki rödd þína aftur, sjá þig ekki brosa aftur. Minningarnar um þig lifa um ókomna tíð, þær lifa í börnunum þínum. Börnunum þínum verð ég ávallt stoð í þeirra lífsins ólgusjó.

Elsku Aldís Freyja, Sindri Snær, Þorsteinn Darri, Hörður, Halldór, Ása og Sóley, hugur minn er hjá ykkur, guð styðji ykkur og styrki á þessum erfiða tíma.

Kallið er komið,

komin er nú stundin,

vinaskilnaðar viðkvæm stund.

Vinirnir kveðja

vininn sinn látna,

er sefur hér hinn síðsta blund.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(Valdimar Briem)

Góða ferð, elsku gullið mitt.

Þín frænka og vinkona

Dýrleif Ólafsdóttir.

Elsku fallega, klára, skemmtilega ljúfa og sterka vinkona mín Sóley kvaddi okkur nú á jólunum eftir erfið veikindi, eftir sitja söknuðurinn, hugsanirnar og minningarnar sem ylja. Við áttum samleið um langan tíma, búnar að vera vinkonur frá barnæsku og á þeim tíma höfum við átt svo ótal góðar stundir sem hafa skapað minningar. Ég sakna þín meira en orð fá lýst. Eina huggun mín er sú að þú sért í faðmi foreldra þinna sem þú saknaðir svo óskaplega.

Mig langar að segja svo margt, okkar tími saman var ekki búinn, andlát þitt ekki tímabært. Þú varst besta og elsta vinkona mín, við þurftum sjaldan orð til að skilja hvor aðra. Við áttum svo mörg lífsskeið saman í gleði og sorg. Það feta fáir í þín fótspor hvað varðar elju og þrautseigju og fáir hafa þurft að takast á við jafn krefjandi verkefni og þú og þín fjölskylda.

Það var aldrei lognmolla hjá okkur, alltaf fundum við okkur eitthvað að gera, misgáfulegt eins og gengur. Við fórum líka saman ógleymanlegar ferðir innan- og utanlands.

Á unglingsárum og lengi fram eftir spiluðum við heilu kvöldin og næturnar. Óli og Sævar þoldu sjaldan að spila á móti okkur – sögðu að við svindluðum - en sú var ekki raunin. Við þekktum hvor aðra svo inn og út að við gátum til að mynda með einu bogastriki á blað í Pictionary myndað bogabrúna yfir í Vaglaskóg. Eftir slíka frammistöðu neituðu þeir að spila meira við okkur.

Elsku Sóley. Ég var og er svo endalaust stolt af afrekum þínum og vegferð, ég er þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að segja þér það.

Eftir standa börnin þín þrjú sem þú varst svo stolt af, þeirra missir er mikill. Elsku Aldís, Sindri, Þorsteinn og systkini, Höddi, Halldór, Ása og aðrir aðstandendur, megi allar góðar vættir styrkja ykkur í sorginni.

Elsku vinkona, takk fyrir allt og allt.

Þín

Alda Stefánsdóttir.