Leigubíll Blindrafélagið óttast að breytingar skerði þjónustu.
Leigubíll Blindrafélagið óttast að breytingar skerði þjónustu. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Blindrafélagið leggur til að allir rekstrarleyfishafar leigubíla verði skráðir á leigubifreiðastöð sem hefur starfsleyfi Samgöngustofu.

Blindrafélagið leggur til að allir rekstrarleyfishafar leigubíla verði skráðir á leigubifreiðastöð sem hefur starfsleyfi Samgöngustofu. Í umsögn til umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis ítrekar félagið áhyggjur sínar af fyrirhuguðum breytingum og leggur áherslu á að þær megi ekki leiða til lakara þjónustustigs.

Áhyggjurnar snúa að því að svo margir leigubílar verði á háannatímum að það leiði til mikillar fækkunar þeirra sem eru í fullu starfi sem leigubílstjórar. Það geti bitnað harkalega á framboði leigubíla á virkum dögum.

ASÍ segir ekkert liggja á

Með frumvarpinu er fyrirhugað að afnema fjöldatakmarkanir leigubíla og stöðvarskyldu, vegna athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Alþýðusamband Íslands telur í umsögn bæði rétt og skynsamlegt að bíða niðurstöðu í lagabreytingum í Noregi og sjá þróunina annars staðar á Norðurlöndum, enda séu engir sérstakir hagsmunir, kærur eða málshöfðanir sem reki á eftir íslenska ríkinu í málinu.

Blindrafélagið hefur verið með samning við Reykjavíkurborg og leigubílastöðina Hreyfil um ferðaþjónustu við lögblinda Reykvíkinga. Þetta er þjónustuúrræði sem nýtir leigubílaþjónustu sem fyrir er í samfélaginu. Fram kemur að nú eru 600 einstaklingar með þjónustusamning hjá ferðaþjónustu Blindrafélagsins og á nýliðnu ári voru farnar um 50 þúsund ferðir.

Blindrafélagið leggur í umsögn sinni áherslu á mikilvægi þess að ný lög um leigubifreiðir leiði ekki til lakara þjónustustigs og bendir á að markmið nýju laganna sé að tryggja gott aðgengi að hagkvæmri, skilvirkri og öruggri leigubílaþjónustu fyrir neytendur á Íslandi.

helgi@mbl.is