[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Um daginn bankaði upp á heima hjá mér ungur maður, Ægir Þór. Hann sagðist vera farandskáld og seldi mér nýjustu ljóðabókina sína, Bullið . Hún er smellin.

Um daginn bankaði upp á heima hjá mér ungur maður, Ægir Þór. Hann sagðist vera farandskáld og seldi mér nýjustu ljóðabókina sína, Bullið . Hún er smellin. Mér finnst til að mynda óborganlegt að geta ekki tekið kvíðastillandi lyf af því að þau valdi manni áhyggjum!

Ég sótti seinna upplestur hjá honum til að fá bókina áritaða og þar lásu fleiri ungskáld úr sínum ljóðabókum. Brynja Hjálmsdóttir og Harpa Rún Kristjánsdóttir hreyfðu mest við mér og ég keypti í kjölfarið bækur beggja, Okfrumuna og Eddu . Báðar fantagóðar, sérstaklega sú síðarnefnda, enda fengu þrír heppnir hana frá mér um jólin.

Ég er á leið til Buenos Aires og þess vegna hef ég gluggað í smásögur Jorges Luis Borges. Sumar þeirra eru of absúrd fyrir mig, einkum þær sem eru skrifaðar eins og bókmenntagagnrýni, en þær sem hafa einhvers konar þráð sem ég get greint og haldið í finnst mér góðar. Hugmyndaflugið er ævintýralegt.

Nýlega fengum við að hitta George Clooney við kvikmyndatökur á Vatnajökli. Það lá því beint við að lesa í kjölfarið bókina sem myndin er byggð á, Good Morning, Midnight . Hún gerist annars vegar í geimfari og hins vegar í afskekktri rannsóknarstöð út við heimskaut. Á hvorugum staðnum er nokkurt samband við umheiminn og við höfum óljósa hugmynd um að einhverjar skelfilegar hamfarir eða hörmungar hafi riðið yfir jörðina.

Talandi um hörmungar þá hef ég líka verið að lesa dálítið um áföll og mótlæti. Leitin að tilgangi lífsins eftir Viktor Frankl, sem lifði af fangabúðir nasista, er auðvitað fræg. Hann var sálfræðingur og lagði höfuðáherslu á mikilvægi tilgangs, sem hann sagði að gæti verið þrenns konar: starf eða sköpun, upplifun eða tengsl, eða að takast á við þjáningu.

Umhugsunarvert! – Einnig las ég bókina Dauðinn, sorgin og vonin eftir danskan prest um hvernig hann tókst á við að missa son sinn, tengdadóttur og tvö barnabörn í flóðbylgjunni á Taílandi.

Jólaskáldsögurnar hjá mér voru Tilfinningabyltingin, Aðferðir til að lifa af og Svínshöfuð , sem eru allar góðar en höfðuðu til mín í þeirri röð. Ég teygaði síðan Skjáskot Bergs Ebba af áfergju eins og hressandi svaladrykk; hann er frábær penni.

Klopp er svo næstur á dagskrá!