Bjarney Sigurðardóttir fæddist 28. september 1926. Hún lést 19. desember 2019.

Útför Bjarneyjar fór fram 10. janúar 2020.

Baddý amma var alveg einstök kona, trygg og umburðarlynd, jákvæð og brosmild, hlý og góð og hugsandi til baka þá man ég ekki eftir því að amma hafi nokkurn tímann talað illa um annan mann. Þennan eiginleika tel ég vera mikinn mannkost og hef tileinkað mér í leik og starfi. Amma hafði margar skemmtilegar sögur að segja og þær sem að voru í uppáhaldi hjá mér voru sagan af því hvernig hún og afi kynntust og sögurnar af konunum í hverfinu, Smáíbúðahverfinu. Amma og afi áttu eina bestu ástarsögu sem að ég hef heyrt, ástarsagan þeirra spannaði um 60 ár. Sagan segir að afi hafi hitt ömmu á myndlistarsýningu í Reykjavík. Hann hafi gengið upp að henni og tekið undir arm hennar og sagt, „þú átt eftir að verða konan mín“. Amma sagði mér að hún hefði litið á hann og hugsað, „hvaða uppáþrengjandi drengur er þetta“. En gefið honum séns og farið á stefnumót með honum. Afi var heillandi með eindæmum og það leið ekki á löngu þar til að þau giftust og áttu hamingjuríkt hjónaband. Þau bjuggu í Grundargerði stóran part af sínum hjúskaparárum og ólu upp fjögur börn. Amma var heimavinnandi eins og flestar konurnar í hverfinu á þessum tíma. Hún sagði mér alls ekki fyrir löngu að það hafi verið ofsalega skemmtilegur tími, þar var Helga á horninu, Inga við hliðina, Guðrún systir og fleiri skemmtilegar konur sem hittust með börnin sín. Þetta minnir pínu á svona Astrid Lindgren-bók, Smáíbúðahverfið, á þessum tíma. Hjá þeim dvaldi ég oft sem barn. Grundargerði var í mínum huga ævintýrahús. Það var rautt með hvítri steyptri girðingu og ofurfallegt. Garðurinn var guðdómlegur, með styttum og fallegum blómum og ég gat eytt mörgum klukkustundum í gróðurhúsinu þeirra innan um rósirnar sem að afi lagði mikla natni við að rækta. Inni í húsinu voru líka alls konar skemmtileg skúmaskot, það var til dæmis hægt að skríða inn í fataskápinn niðri því að það var leynihólf innan í honum og uppi á lofti var líka annað leyniherbergi þar sem afi geymdi plastendurnar sínar. Amma átti snyrtiborð sem var fullt af gersemum, þar sem ég sat með gullburstana hennar og skartgripina og lék mér í prinsessuleikjum. Ég elskaði að vera hjá þeim. Eitt skipti þegar að við mamma vorum í göngutúr í hverfinu þá á ég að hafa sagt við mömmu, „mamma, getum við ekki farið til ömmu núna“. Mamma sagði við mig að amma þyrfti nú kannski smá frí frá mér en þá á ég að hafa sagt „amma veit að ég er ömmusjúk“. Það átti ekki eftir að breytast eða eldast af mér. Enda ekki skrítið þar sem amma var birtingarmynd góðrar ömmu. Á seinni árum höfðum við gaman af því að fara í leikhús, skiptast á bókum til að lesa eða spjalla yfir kaffibolla. Amma hafði alltaf áhuga á því hvað ég eða börnin mín vorum að fást við á hverjum tíma, hún fylgdist vel með okkur öllum. Börnin mín hafa notið góðs af því að hafa alist upp með langömmu sér við hlið og ég er svo innilega þakklát fyrir allan þann tíma sem ég hef átt með ömmu minni, hún skilur eftir sig hlýju í mínu hjarta, uppfullt af þakklæti í hennar garð. Takk fyrir allt elsku amma mín.

Hrönn Stefánsdóttir.