Sigurkarfa Terrence Motley tryggði Þórsurum sigur á lokasekúndunum.
Sigurkarfa Terrence Motley tryggði Þórsurum sigur á lokasekúndunum. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Terrence Motley reyndist hetja Þórs frá Akureyri þegar liðið vann afar dramatískan eins stigs sigur gegn Fjölni í úrvalsdeild karla í körfuknattleik, Dominos-deildinni, í Dalhúsum í Grafarvogi í þrettándu umferð í gær.

Terrence Motley reyndist hetja Þórs frá Akureyri þegar liðið vann afar dramatískan eins stigs sigur gegn Fjölni í úrvalsdeild karla í körfuknattleik, Dominos-deildinni, í Dalhúsum í Grafarvogi í þrettándu umferð í gær. Leiknum lauk með 94:93-sigri Þórsara en Motley tryggði Þórsurum sigur með tveggja stiga körfu þegar tíu sekúndur voru til leiksloka.

Leikurinn var kaflaskiptur en Þórsarar leiddu með tíu stigum eftir fyrsta leikhluta, 26:16. Fjölnismenn mættu ákveðnir til leiks í öðrum leikhluta og leiddu með fimm stigum í hálfleik, 52:47. Fjölnismenn voru sterkari í þriðja leikhluta og leiddu með sjö stigum fyrir fjórða leikhluta en þar reyndust Þórsarar sterkari og þeir fögnuðu sigri í leikslok.

Þetta var annar sigur Þórsara í röð í deildinni, en liðið vann þriggja stiga sigur gegn Haukum í síðustu umferð og er komið í ellefta sæti deildarinnar í 6 stig. Vandræði Fjölnis halda hins vegar áfram, en liðið er í neðsta sætinu með 2 stig og vann síðast leik 11. október síðastliðinn, gegn Þór á Akureyri.

Þá stöðvaði Tindastóll sigurhrinu Njarðvíkinga með 91:80-sigri á Sauðárkróki. Frábær fyrri hálfleikur reyndist lykillinn að sigri Tindastóls, en Stólarnir leiddu með sextán stigum í hálfleik, 47:31. Njarðvíkingar reyndu að koma til baka og minnkuðu forskot Tindastóls í fjögur stig fyrir fjórða leikhluta en það dugði ekki til.

Fyrir leik gærdagsins höfðu Njarðvíkingar unnið síðustu sjö leiki sína í deildinni á meðan gengi Tindastóls hafði verið óstöðugt. Í þremur síðustu leikjum sínum, fyrir leik gærdagsins, hafði liðið tapað tveimur þeirra en Stólarnir eru hins vegar ekki þekktir fyrir að tapa mörgum leikjum á heimavelli. Af sex heimaleikjum sínum á tímabilinu hafa þeir aðeins tapað einum, en það tap kom gegn Keflavík í fyrstu umferðinni. Tindastóll fer upp fyrir Njarðvík með sigrinum og í þriðja sæti deildarinnar í 18 stig. Njarðvík er hins vegar í fjórða sætinu með 16 stig. bjarnih@mbl.is