Tæki Í eigu Krabbameinsfélagsins er margvíslegur sérhæfður búnaður.
Tæki Í eigu Krabbameinsfélagsins er margvíslegur sérhæfður búnaður. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðmundur Magnússon gudmundur@mbl.

Guðmundur Magnússon

gudmundur@mbl.is

„Við hjá Krabbameinsfélaginu höfum hvorki heyrt frá Sjúkrahúsinu á Akureyri né Landspítala um áform þeirra varðandi tækjabúnað, hugbúnað eða starfsfólk í tengslum við þetta nýja verkefni stofnananna,“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins, en eins og fram kom hér í blaðinu í gær undirbýr nú verkefnastjórn á vegum heilbrigðisráðuneytisins flutning á skimun fyrir brjósta- og leghálsakrabbamein frá Leitarstöð félagsins til Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri í byrjun næsta árs.

„Félagið á allan þann búnað sem er nýttur til skimunar fyrir brjóstakrabbameinum, tvö tæki til brjóstamyndatöku í Skógarhlíð, tvö tæki til sérskoðana brjósta, annað í Skógarhlíð og hitt á Akureyri, eitt farandtæki sem notað er í myndatökum úti á landi og annan sérhæfðan búnað, til að mynda ómtæki og skjái til úrlestrar röntgenmynda,“ segir Halla. Hún segir að fulltrúar félagsins muni eiga fund með fulltrúum Landspítala á mánudaginn þar sem þetta komi mögulega til umfjöllunar. Halla segir að Krabbameinsfélagið hafi margsinnis ítrekað mikilvægi þess að þeim stofnunum sem munu sjá um skimunina, bæði klíníska hluta hennar og skipulag, boð, eftirlit og uppgjör, verði tryggt nauðsynlegt fjármagn, þekking og mannauður til að hvorki aðgengi né árangur af skimununum minnki frá því sem nú er.

Mjög sérhæft verkefni

„Skimunarráð og landlæknir hafa lýst yfir sömu skoðun í áliti og minnisblaði til ráðuneytisins. Skimun er sérhæft verkefni og sérfræðiþekkingin í landinu liggur fyrst og fremst hjá starfsfólki Krabbameinsfélagsins. Það ætti því að vera sjálfsagt mál að störfin fylgi verkefnunum við yfirfærslu til nýrra aðila, annars er hætta á að mikilvæg þekking glatist. Starfsmenn hafa hins vegar enga tryggingu fengið fyrir því,“ segir Halla. Að sama skapi sé nauðsynlegt að stofnununum verði tryggt fjármagn til undirbúnings verkefnisins, á þessu ári, því breytingar sem þessar séu kostnaðarsamar.

„Mér er ekki kunnugt um að metið hafi verið hvað verkefnið sjálft muni kosta í framtíðinni en við hjá félaginu teljum líklegt að það verði dýrara þegar því verður skipt á margar hendur. Félagið hefur margsinnis lýst þeirri skoðun sinni að æskilegt væri að halda skimun fyrir krabbameinum áfram í einni einingu, þó að henni væri fyrirkomið annars staðar en hjá Krabbameinsfélaginu. Vegna smæðar okkar er það mögulegt á Íslandi, frekar en annars staðar. Þannig telur félagið að áfram væri hægt að tryggja mesta samlegð bæði fjárhagslega og þekkingarlega,“ segir Halla.

Ánægja með þjónustuna

Halla segir að í þjónustukönnun sem Maskína gerði fyrir félagið hafi komið fram að yfirgnæfandi meirihluta kvenna sé ánægður með þjónustu Leitarstöðvarinnar.

„Í sömu könnun kom í ljós að konur töldu að það að skimun væri gjaldfrjáls skipti mestu máli varðandi þátttöku í skimun, yngri konur í meira mæli en þær eldri,“ segir hún.

Halla segir að fjárhagsleg áhrif flutnings verkefnisins verði veruleg hjá Krabbameinsfélaginu, þar sem fjárveitingar ríkisins hafi ekki dugað til rekstrar leitarstarfsins og félagið hafi þurft að kosta miklu til verkefnisins í fjölda ára. „Vonandi skapast því svigrúm hjá félaginu til að sinna öðrum verkefnum enn betur en hingað til. Nýjar áskoranir blasa sífellt við. Mikilvægt er að muna að krabbameinstilvikum fjölgar mjög ört, fyrst og fremst vegna þess að þjóðin stækkar og hún eldist og félagið þarf sífellt að finna nýjar leiðir,“ segir Halla.