[ Smellið til að sjá stærri mynd ]

Angantýr Einarsson fæddist 28. apríl 1938. Hann lést 24. desember 2019.

Útför Angantýs var gerð 6. janúar 2020.

Angantýr Einarsson, elskulegur móðurbróðir minn, er nú fallinn frá. Hann hafði háð erfiða baráttu við parkinsonsjúkdóminn síðustu árin og bar þess greinileg merki þar sem nokkuð mikið var af honum dregið síðustu ár. Síðustu fundir okkar voru síðastliðið sumar á dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri. Honum lá lágt rómur, var smár og hokinn og átti erfitt með gang. Það er harla einkennilegt ævikvöld manns sem var svo kraftmikill og öflugur í öllu því sem hann tók sér fyrir hendur alla tíð.

Fyrst og fremst átti ég saman við Agga að sælda í æsku minni þegar ég dvaldi löngum í sumarvist á Raufarhöfn eða í Holti í Þistilfirði þar sem við tókum um nokkurra ára skeið töluverðan þátt í sauðburði og stundum heyskap. Þá fórum við þrír saman ég, Aggi og sonur hans Ásgrímur og dvöldum saman yfir háannatímann. Að hafa átt svona mann að fyrirmynd er ómetanlegt. Hann var einstaklega réttsýnn og í minningunni er hann alltaf glaðlegur og brosandi. Hann var tón- og listelskur, leikinn á píanó og harmonikku og gott ef ekki gítar. Hann var góður skák- og briddsmaður og ekki man ég eftir því að hafa hitt hraðlæsari mann. Ég á minningu um að hafa horft í undrun á hann með bók í hendi og flett blaðsíðunum eins og á þeim stæðu ekki meira en 5-10 setningar. Hann var afburðagreindur og næmur á umhverfi sitt. Hann bar virðingu fyrir öllu lifandi og tók hlutina hæfilega alvarlega eins og er sómamanna siður.

Sterkasta minning mín af honum er þó þegar hann kom í Holt til að vera með mér þegar fregnir bárust af andláti móður minnar fyrir vel rúmlega 30 árum. Hann hafði beðið eftir símtalinu en ég hafði vaknað snemma og stokkið til og svarað. Þegar ég hafði áttað mig á fregnunum tók hann mig í fangið og huggaði. Orðin sem hann sagði komu frá manni sem hafði einstakt hjartalag og djúpan mannskilning og gerðu þessa stund bærilega í minningu minni. Kannski þess vegna græt ég andlát Angantýs Einarssonar sárar en ég hef vana til. Hann mun alltaf eiga sérstakan stað í hjarta mínu.

Þór Steinarsson.

Þegar okkur berst andlátsfregn vinar eða samferðamanns um jól eða áramót er því líkast að lifendur skynji næmari hlustum en endranær þau orð Predikarans að „allt hefur sinn tíma“.

Svo fór mér þegar Bergþóra, systir Angantýs Einarssonar sem nú er ein eftir fimm systkina sem ég kynntist fyrst og átti samleið með á æskudögum og löngum síðan með ýmsum hætti, hringdi til mín og sagði mér lát hans aðfaranótt aðfangadags.

Við Óttar bróðir þeirra vorum aldavinir og höfðum fylgst að alla okkar skólagöngu í barnaskóla á Akureyri til stúdentsprófs í MA 1961. Því kynntist ég snemma heimili systkinanna og foreldra þeirra, heiðurshjónanna Einars og Guðrúnar, í barnaskólanum þar sem Einar varð húsvörður 1947. Yngst barnanna voru Hildigunnur og Einar Kristján en Kristján afi þeirra var einnig heimilismaður í horninu hjá þeim. Til Akureyrar höfðu hjónin flust með eldri börnin þrjú eftir níu ára búskap á Hermundarfelli og Hagalandi í Þistilfirði. Engum duldist að þar voru átthagar þeirra allra, „sveitin ljúfa í austurátt“. Og henni og nágrannabyggðum Norður-Þingeyjarsýslu áttu þeir bræður eftir að helga drjúgan skerf tíma síns og og starfskrafta í fósturlaun á fullorðinsárum.

Bragur mennta og menningar ríkti á nýja heimilinu og hafði mótandi uppeldisáhrif. Húsbóndinn var skáld og rithöfundur, söngur og tónlist voru í hávegum höfð, stökur látnar fjúka og síst af verri endanum. Harmónikuspil létti lund og í pólitískum umræðum lá róttækni í loftinu en lagðist þó aldrei yfir sem farg, því húmorblandin náðargáfa og léttleiki virtist ættarfylgja flestra þar á bæ.

Minningar sækja að þegar ég hugsa til þeirra ára sem ég var þar tíðastur gestur og get naumast nefnt annan elstu bræðranna án þess að geta hins. Skaplyndi þeirra var þó ólíkt. Angantýr virtist ungur ganga að hverju verkefni af brennandi óþolinmæði, með eld í augum. Óttar var íhugulli, hæglátari, mjúkmótaðri.

Fyrsti vetur okkar í MA var síðasti vetur Angantýs þar. Hann var skarpur námsmaður og lauk kennaraprófi 1962. Eftir það varð kennsla og skólastjórn aðalstarf hans á heimaslóðum í Norður-Þingeyjarsýslu auk fjölþættra trúnaðarstarfa í stjórn- og félagsmálum, sýslu- og sveitarstjórnarmálum. Óttar gerði kennslu og skólastjórn einnig að ævistarfi en víðar um land og sum börn beggja hafa fetað sömu slóð um starfsval. Ótalin eru þó enn ýmis áhugamál og störf Angantýs því hann var líka orgel- og harmónikuleikari, trillukarl á Raufarhöfn, grenjaskytta á Langanesi. Saman unnum við að vatnsveitulögn í Hlíðarfjalli eitt sumar og vorum samtímis í síld á Raufarhöfn, hann í verksmiðjunni, ég á plani.

Og ég man hann með tónkvísl á lofti eitt vorkvöld í árabát á blælygnum Eyjafirði með sól í fjarðarmynni þegar tekið var háa c-ið! Það er einstök æskuminning.

Svo liðu árin, fundum fækkaði. Ég frétti af heilsubresti Angantýs og vissi að hann var ekki sami eldhuginn og forðum, skuggar sestir að og ástríðuloginn daufari. Þá er hvíldin góð.

Ástvinum hans öllum sendum við Steinunn samúðarkveðjur.

Hjörtur Pálsson.