Fagnaðarlæti Portúgalar fögnuðu vel og innilega í leikslok í Þrándheimi eftir afar óvæntan þriggja marka sigur gegn Frakklandi í D-riðli EM.
Fagnaðarlæti Portúgalar fögnuðu vel og innilega í leikslok í Þrándheimi eftir afar óvæntan þriggja marka sigur gegn Frakklandi í D-riðli EM. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
EM 2020 Bjarni Helgason bjarnih@mbl.

EM 2020

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Afar óvænt úrslit áttu sér stað á Evrópumeistaramótinu í handknattleik sem fram fer í Austurríki, Noregi og Svíþjóð þegar Portúgal gerði sér lítið fyrir og vann þriggja marka sigur gegn Frakklandi í D-riðli keppninnar í Þrándheimi í gær. Leiknum lauk með 28:25-sigri Portúgals, sem leiddi með einu marki í hálfleik, 12:11.

Frakkar hafa þrívegis fagnað sigri á EM, árin 2006, 2010 og 2014. Þá hefur Frakkland sex sinnum orðið heimsmeistari, 1995, 2001, 2009, 2011, 2015 og 2017. Frakkar hafa tvívegis fagnað sigri á Ólympíuleikunum, 2008 og 2012 en Portúgal er hins vegar með á stórmóti í fyrsta sinn síðan árið 2006. Besti árangur Portúgala á Evrópumeistaramóti er 7. sætið á EM 2000 þegar mótið var haldið í Króatíu.

Markaskorun dreifðist vel hjá Portúgölum í leiknum en Diogo Branquinho skoraði fimm mörk úr fimm skotum og þeir Miguel Ferraz og Andre Gomes fjögur mörk hvor. Þá varði Alfredo Quintana níu skot í markinu og var með 31% markvörslu. Mem Dika var markahæstur Frakkanna með fimm mörk en markmenn franska liðsins náðu sér ekki á strik og vörðu aðeins sjö af skotum Portúgala.

Þá fara Noregur og Svíþjóð bæði vel af stað á heimavelli, en Svíar, undir stjórn Kristjáns Andréssonar, unnu stórsigur gegn Sviss í Gautaborg, 34:21, í F-riðli. Sigur Svía var aldrei í hættu, en sænska liðið leiddi með sjö mörkum í hálfleik, 20:13.

Þrír leikmenn Svía skoruðu sex mörk, þeir Jerry Tollbrings, Andreas Nilsson og Kim Ekdahl og þá átti Andreas Palicka stórleik í marki Svía með 18 skot varin og 47% markvörslu. Andre Schmid var markahæstur í liði Sviss með fjögur mörk.

Svíar hafa fjórum sinnum fagnað sigri á EM í handknattleik en liðið vann síðast til gullverðlauna á mótinu árið 2002. Sænska liðið vann síðast til verðlauna á stórmóti árið 2012 á Ólympíuleikunum í London en þar tapaði liðið í úrslitaleik gegn Frakklandi.

Sander Sagosen fór á kostum fyrir Noreg þegar liðið vann sex marka sigur gegn Bosníu í D-riðli, 32:26. Sagosen skoraði tólf mörk úr fjórtán skotum en Norðmenn leiddu með fimm mörkum í hálfleik, 17:12, og þeir slökuðu aðeins á bensíngjöfinni í síðari hálfleik.

Petter Øverby skoraði fimm mörk fyrir Norðmenn og Kristian Sæverås var með 38% markvörslu í markinu. Nikola Prce var markahæstur í liði Bosníu með sjö mörk.

Norðmenn hafa aldrei unnið til verðlauna á EM en tvívegis hafa þeir fengið silfur á HM, 2017 og 2019. Biðin eftir gullverðlaunum er því orðin ansi löng í Noregi en Norðmenn vonast til þess að liðið geti gert alvöru atlögu að Evrópumeistaratitlinum á heimavelli í ár.