— Morgunblaðið/Hari
Álagningar- og breytingarseðlar fasteignagjalda í Reykjavík 2020 verða aðeins birtir á vefsíðunum island.is og Rafrænni Reykjavík. Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu borgarinnar.

Álagningar- og breytingarseðlar fasteignagjalda í Reykjavík 2020 verða aðeins birtir á vefsíðunum island.is og Rafrænni Reykjavík. Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu borgarinnar.

Því verða álagningaseðlar ekki sendir í pósti eins og tíðkast hefur í áraraðir. Er þetta í samræmi við lög sem tóku gildi í fyrra.

Á vef Reykjavíkurborgar undir Mínar síður munu fasteignaeigendur geta skoðað álagningarseðil fasteignagjalda eftir 27. janúar 2020 og alla breytingarseðla þar á eftir. Þar geta þeir einnig skráð sig í boðgreiðslu fasteignagjalda og gefið upp reikningsnúmer ef til endurgreiðslu kemur, óskað eftir að fá senda greiðsluseðla fyrir fasteignagjöldum þar sem þeir verða, líkt og áður, ekki sendir til greiðenda, 18-77 ára. Einnig er hægt að senda þar inn erindi vegna fasteignagjalda.

Fasteignagjöld ársins 2020, yfir 25.000 kr., greiðast með níu jöfnum greiðslum. Sú fyrsta er 1. febrúar og sú síðasta verður 3. október. Gjalddagi fasteignagjalda undir 25.000 kr. er 1. febrúar. Fasteignagjöld í Reykjavík verða innheimt í netbönkum, segir í fréttinni.

sisi@mbl.is