[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Örn Steinsen er fæddur 11. janúar 1940, vestast í Vesturbænum á Sólvallagötu 55, sem áður hét Sellandsstígur 5. Hann ólst þar upp til 21 árs aldurs. „Í minningunni eru þetta gjöful og yndisleg ár og margs að minnast frá þeim tíma.

Örn Steinsen er fæddur 11. janúar 1940, vestast í Vesturbænum á Sólvallagötu 55, sem áður hét Sellandsstígur 5. Hann ólst þar upp til 21 árs aldurs. „Í minningunni eru þetta gjöful og yndisleg ár og margs að minnast frá þeim tíma. Aðalleiksvæði okkar félaganna var Framnesvöllurinn og Selsvörin og öll óbyggð svæði þar í kring. Ég man sérstaklega vel eftir Pétri Hoffman sem bjó þar með hinni einu sönnu Hunda-Mundu. Hann var fyrir margra sakir alveg einstakur „karakter“ og þjóðþekktur. Eitt sinn fór ég með honum í róður í góðu veðri til að vitja grásleppunetja. Allt gekk glimrandi vel en ég þorði ekki fyrir mitt litla líf að segja foreldrum mínum frá þessari sjóferð því það hefði kostað sitt.

Sumarið 1953 fór ég í sveit að Furubrekku í Staðarsveit, þá 13 ára, og var þar yfir sumarið og þó að mér hafi liðið mjög vel hjá þessum yndislegu hjónum neitaði ég að fara aftur, aðallega vegna fótboltans.“

Örn lauk prófi frá Gagnfræðaskóla Vesturbæjar og stundaði síðan nám við Íþróttaskólann að Laugarvatni. Hann vann sem ungur maður við ýmis störf en fór að vinna hjá Flugfélagi Íslands í Kaupmannahöfn, sem sumarmaður árið 1961 og fékk þar í sig ferðabakteríuna. Hann hóf störf hjá „Lönd og leiðum“ ferðaskrifstofu árið 1962 og síðar hjá Flugfélagi Íslands í Lækjargötu árið 1963, þar sem hann vann við farmiðasölu í 10 ár. Árið 1974 varð hann framkvæmdastjóri hjá Ingólfi í Útsýn til ársins 1986 þegar hann stofnaði Ferðaskrifstofuna Sögu ásamt Pétri Björnssyni félaga sínum. Árið 1992 gerðist hann síðan auglýsingastjóri hjá Iceland Review en árið 2000 tók hann við starfi framkvæmdastjóra KR þar til að starfsferlinum lauk árið 2007. Aukastörfin, ef svo skyldi kalla, voru þau, að hann starfaði sem knattspyrnuþjálfari yngri flokka KR, unglingalandsliðs drengja hjá KSÍ í 4 ár, og meistaraflokks karla hjá Þrótti, Fram, Víkingi og FH. Í allt voru þetta 18 ár sem hann helgaði sig þjálfun.

„Knattspyrnan var auðvitað númer eitt, tvö og þrjú hjá okkur félögunum. Við æfðum okkur á Framnesvellinum frá morgni til kvölds og ekkert annað komst að.“ Örn var einn af þremur fyrstu gulldrengjum knattspyrnuþrauta KSÍ þá 14 ára gamall ásamt vinum sínum þeim Þórólfi Beck og Skúla B. Ólafs.

Árið 1954 fór 3. flokkur KR í keppnisferð til Danmerkur með skipinu Dronning Alexandrine. „Þetta var fyrsta ferð unglingaflokks í knattspyrnu sem farin var á erlenda grund. Ferðin var ógleymanleg og ekki síst fyrir það að árangurinn var mjög góður og við urðum landi og þjóð til sóma.“

Örn lék síðan með öllum yngri flokkum KR og meistaraflokki KR frá 1958 og varð Íslandsmeistari 4 sinnum árin 1959-1965 og 3 sinnum bikarmeistari árin 1962-1964. Alls lék hann 111 leiki með meistaraflokki KR en hætti því miður að spila aðeins 24 ára.

Örn var valinn í landslið Íslands 19 ára gamall og lék 8 landsleiki og skoraði eitt mark gegn Noregi, í leik sem tapaðist 2:1 árið 1959. Ein af fyrstu símsendu myndunum til Íslands var þegar hann heilsaði Friðriki IX. Danakonungi fyrir landsleik Íslands og Danmerkur það sama ár þar sem Danir gerðu jafntefli við Ísland 1:1. Þetta ár var gullaldartímabil KR-inga því þeir unnu mótið með fullu húsi stiga, og það sem meira var, að í landsliðinu þetta ár voru 7 KR-ingar. „Ég gleymi því seint, þegar ég var sóttur til Kaupmannahafnar, þar sem ég starfaði, til þess að spila leik í Íslandsmótinu fyrir KR 1961, sem skar úr um það hvort við yrðum Íslandsmeistarar það sumar. Við unnum lokaleikinn á móti Akurnesingum og þar með mótið. Þetta eru allt frábærar minningar sem gleymast seint.“

Örn hefur hlotið gullmerki KR ásamt gullmerki með lárviðarsveig og Stjörnu KR. Hann hefur einnig hlotið gullmerki ÍBR, KSÍ og KÞÍ. Hann er einn af stofnendum Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands 1970 og Golfklúbbsins Odds í Urriðalandi. Hann hefur setið í stjórn hinna ýmsu deilda KR, verið formaður hússtjórnar KR 1996-2003, í stjórn Kynnisferða og Félags ísl. ferðaskrifstofa og formaður hússtjórnar húsfélagsins Sléttuvegur 19,21 og 23 frá 2007 og fram á þennan dag. Hann hefur starfað fyrir Oddfellowregluna frá árinu 1977 og verið í stjórn sinnar stúku. Einnig var hann einn af stofnendum Arnarklúbbsins 1992 sem er enn starfræktur og með eigin kennitölu.

Helztu áhugamál Arnar í dag eru sund, golf, ferðalög og stórfjölskyldan.

Fjölskylda

Eiginkona Arnar er Erna Guðrún Franklín, f. 31.5. 1941, fv. fjármálastjóri. Foreldrar hennar voru hjónin Stefán Benjamín Franklín, f. 23.3. 1907, 2.4. 1970, útgerðarmaður og Guðrún Sigríður Guðmundsdóttir Franklín, f. 4.12. 1912, d. 12.4. 2008, hjúkrunarkona.

Börn Arnar og Ernu eru: 1) Arna Katrín Steinsen, f. 27.12. 1962, íþróttakennari, maki: Magnús Pálsson, f. 17.5. 1964, íþróttakennari og tölvunarfræðingur. Börn: Örn Rúnar, f. 1990, nemi í íþróttafræðum í HR, Andri, f. 1992, þjónustustjóri hjá DK og Erna Guðrún, f. 1997, nemi í viðskiptafræði í HR. 2) Stefán Þór, f. 9.3. 1967, viðskipta- og markaðsfræðingur, er með meistaragráðu í lögum og viðskiptum Evrópusambandsins frá Viðskiptaháskólanum í Árósum, maki: Edda Björk Guðmundsdóttir, f. 2.5. 1967, MBA. Börn: Saga, f. 9.4. 1988, flugfreyja, maki: Hans Kristjánsson arkitekt, börn þeirra Magdalena Björk, f. 2012, og Móeiður María, f. 2018, Sjöfn, f. 5.5. 1991, uppeldis- og menntunarfræðingur, maki: Árni Traustason sölumaður, þeirra börn eru Trausti, f. 2011, Viktor Bjarki, f. 2012, Atli, f. 2014, og Sigurborg Alba, f. 2019, Stefán, f. 4.1. 2002, nemi í MS. 3) Anna Guðrún Steinsen, tómstunda- og félagsmálafræðingur, f. 15.5. 1974, maki: Jón Halldórsson, f. 9.3. 1970, framkvæmdastjóri KVAN. Börn: Agnar Smári, f. 11.10. 1993, handboltamaður og þjálfari, Emma, f. 5.5. 2003, nemi í MS, Aron, f. 2.6. 2005, nemi og Eva, f. 14.9. 2008, nemi. 4) Brynja Dögg Steinsen, f. 4.8. 1976, viðskiptafræðingur, rekstrarstjóri Klakka, maki: Arnar Friðgeirsson, f. 31.1. 1981, viðskiptafræðingur. Börn: Andrea, f. 9.6. 2004, nemi, Bjarki, f. 22.12. 2005 nemi, Arnór, f. 7.3. 2011, nemi og Aníta, f. 26.7. 2014.

Systkini: Guðrún Steinsen, f. 9.5 1929, d. 27.4. 1953, húsmóðir, Garðar Steinsen, fv. bókari, f. 19.11. 1931, Anna Katrín Steinsen f. 17.2. 1935, d. 9.6. 1965, húsmóðir.

Foreldrar Arnar voru hjónin Vilhelm Steinsen, bankafulltrúi hjá Landsbanka Íslands f. 28.7. 1903, d. 6.6. 1992, og Kristensa Marta Sigurgeirsdóttir, f. 11.9. 1906, d. 19.12. 1982, húsfreyja.