— Morgunblaðið/Eggert
Nú ert þú að fara að tala um hamingju og árangur í Hörpu. Hvað ætlar þú að fjalla um? Ég ætla að segja frá vegferð minni síðustu átta ár. Ég hef unnið sem ævintýrakona og því fylgja bæði sorgir og sigrar.
Nú ert þú að fara að tala um hamingju og árangur í Hörpu. Hvað ætlar þú að fjalla um?

Ég ætla að segja frá vegferð minni síðustu átta ár. Ég hef unnið sem ævintýrakona og því fylgja bæði sorgir og sigrar. Oft og tíðum koma djúpir dalir inni á milli, eins og þegar ég lenti í slysunum á Everest.

Er leiðin að árangri oft þyrnum stráð?

Já, hún er það. Ég þekki engan sem hefur gengið á rauðum dregli alla leið. Erfiðast er að taka ákvörðunina og leggja af stað en ef maður trúir ekki á sig nær maður aldrei árangri. Fólk þarf að trúa á sig, alveg sama hvað öðrum finnst.

Kemur hamingja í kjölfarið á góðum árangri?

Já og nei. Maður þarf líka að þora að vera hamingjusamur. Stundum kemur hamingjan til manns en ef maður finnur sig í aðstæðum sem maður er óhamingjusamur í þarf hugrekki til þess að þora að brjóta það upp og fara í átt að hamingjunni.

Nú hefur þú sett þér mörg markmið og náð þeim. Hvert er næsta markmið þitt?

Nú ætla ég að hlúa að fyrirtækinu mínu, Tindar Travel, og sinna vel því fólki sem treystir okkur fyrir sínum markmiðum. Svo ætla ég að njóta lífsins, en ég verð fertug á árinu.

Ertu hamingjusöm?

Já, ég held það bara!

Sunnudaginn 12. janúar fer fram í Hörpu fyrirlestradagurinn Hamingja og árangur sem ráðgjafarfyrirtækið Meðbyr stendur fyrir. Þar mun íslenskt afreksfólk ræða leið sína að árangri og er Vilborg Arna Gissurardóttir þar í hópi. Miðar fást á tix.is.