Magnús Grétar Filippusson fæddist á Seyðisfirði 25. mars 1950. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Fossahlíð, Seyðisfirði, 31. desember 2019.

Hann var sonur hjónanna Filippusar Sigurðssonar, f. 16.11. 1912, d. 17.11. 2002, og Ólínu Jónsdóttur, f. 6.6. 1914, d. 21.3. 1995.

Systkini Magnúsar eru Sigurður, f. 1942, Geirlaug, f. 1943, d. 6. ágúst 2011. Andrés, f. 1945, Stefán tvíburabróðir Magnúsar, f. 1950, d. 13. október 2012. Sunneva, f. 1953, og Ragnhildur, f. 1956.

Magnús bjó hjá foreldrum sínum, fyrst á Dvergasteini og seinna á heimili þeirra á Brekkuvegi 3, Seyðisfirði. Árið 1993 fluttist hann ásamt Stefáni bróður sínum í íbúð Öryrkjabandalagsins á Múlavegi 26 sem þeir leigðu, þar til þeir vistuðust á Sjúkrahúsi Seyðisfjarðar og seinna á Hjúkrunarheimilinu Fossahlíð. Á þeim tíma sem hann bjó á Múlaveginum starfaði hann hjá Ullarvinnslu Frú Láru á Seyðisfirði og á leikskólanum Sólvöllum.

Útför Magnúsar fer fram frá Seyðisfjarðarkirkju í dag, 11. janúar 2020, klukkan 14.

Í dag kveðjum við Magnús bróður okkar. Hann var einstaklega geðgóður einstaklingur með góða nærveru eins og sagt er. Okkur þótti öllum ósköp vænt um hann.

Hann var glaðlyndur og hafði gott skopskyn, ekki síst ef verið var að rifja upp eitthvað sem hafði ekki alveg gengið upp hjá honum sjálfum. Hann hló hjartanlega þegar hann var minntur á ýmislegt sem gerst hafði í gamla daga og kannski ekki endað alveg eins og til var ætlast.

Maggi var mjög duglegur og gat unnið nánast hvað sem var af líkamlegri vinnu, þegar hann var einu sinni búinn að læra hvernig átti að gera hlutina þá var hægt að treysta því að það væri gert, alltaf eins.

Vinna hans við búskapinn var ómetanleg árum saman þótt kaupið væri ekki annað en þakklæti, fæði og húsnæði þegar hann var hjá okkur í sveitinni.

Peningar voru bara eitthvað til að kaupa fyrir í búðinni eftir að hann og Stefán tvíburabróðir hans fluttu í eigin íbúð, en skiptu annars ekki máli. Þeir bræður Stefán og hann voru þannig gerðir að þeir báðu aldrei um neitt en voru alltaf ánægðir með allt það sem þeir fengu.

Maggi var mikið jólabarn allt sitt líf. Ógleymanlegt er þegar stundum þurfti að aðstoða við að koma seríum í lag til að hægt væri að kveikja á jólatrénu á Brekkugötunni, oftast svona seinnipartinn á aðfangadag, kannski milli fjögur og fimm. Gleðin var mikil þegar þessu var lokið og jólunum var bjargað.

Maggi hlustaði mikið á tónlist, helst var það harmonikkumúsík sem hann hlustaði á, kannski var það vegna þess að Árni Jón spilaði oft á nikkuna heima á Dvergasteini þegar hann var barn og fram eftir árum. Það var samt stundum frekar þreytandi á Brekkugötunni þegar hlustað var á harmonikkumúsík, horft á sjónvarpið og útvarpið allt saman í bland, oftast hátt stillt.

Magnús fékk blóðtappa í febrúar 2012 og var eftir það lamaður hægra megin í líkamanum og missti um leið að miklu leyti það litla tal sem hann hafði áður. Á næstu árum slitnuðu að nokkru leyti tengsl hans við fjölskylduna en í staðinn kom einstök umönnun á Sjúkrahúsi Seyðisfjarðar og seinna Hjúkrunarheimilinu Fossahlíð eftir að sjúkrahúsið var lagt niður sem slíkt.

Starfsfólki Fossahlíðar viljum við færa hugheilar þakkir fyrir umönnun Magnúsar, einnig þökkum við Árna Jóni og Gissuri frændum okkar fyrir einstaka umhyggju og hlýju í garð Magga gegnum árin.

Minningin um Magga og Stebba tvíburabróður hans, sem lést 2012, mun lengi lifa með okkur sem kveðjum hann nú.

Þín systkini,

Andrés, Sigurður,

Ragnhildur og Sunneva.