Berglind Rósa Jósepsdóttir, Begga Jobba, fæddist 28. janúar 1986. Hún lést 30. desember 2019 á krabbameinsdeild Landspítalans, 33 ára að aldri.

Foreldrar Berglindar eru Anna Guðrún Aðalsteinsdóttir matráður, f. 13. júlí 1956, og Jósep Magnússon vélstjóri, f. 13. maí 1955.

Systkini Berglindar eru:

1) Aðalsteinn Jósepsson, umsjónarmaður íþróttamannvirkja hjá Grundarfjarðarbæ, f. 12. desember 1978. Maki: Heiðrún Hallgrímsdóttir. Börn: Anna Bryndís, f. 25. ágúst 2009, og Hallgrímur Örn, fæddur 16. mars 2011.

2) Guðrún Jóna Jósepsdóttir, fjármála- og skrifstofustjóri hjá Fjölbrautaskóla Snæfellinga, f. 19. maí 1981. Maki: Tómas Freyr Kristjánsson. Börn: Kristján Freyr, f. 20. maí 2005, Ellen Alexandra, f. 16. júlí 2013, og Breki Berg, f. 17. september 2019.

3) Magnús Jósepsson smiður, f. 9. október 1982. Maki: Dagný Ósk Guðlaugsdóttir. Börn: Jósep Dagur, f. 30. október 2008, Róbert Torfi, f. 2. ágúst 2011, og Kristín María, f. 22. júlí 2015.

4) Júlíus Arnar Jósepsson sjómaður, f. 19. júní 1984.

5) Arndís Jenný Jósepsdóttir nuddari, f. 2. júlí 1992. Börn: Hrafntinna Valdís, f. 10. apríl 2019.

Eiginmaður Berglindar er Sigurbjörn Z. Hansson vélstjóri, f. 9. júní 1984. Foreldrar Sigurbjörns eru Hans Bjarni Sigurbjörnsson, vélstjóri, f. 16. desember 1963, og Sigr. Fjóla Jóhannsdóttir, 25. október 1965, heimavinnandi húsmóðir. Synir Berglindar og Sigurbjörns eru Hans Bjarni, f. 5. maí 2011, og Magni Rúnar, f. 11. júlí 2014. Begga og Sigurbjörn gengu í hjónaband 28. desember 2019.

Berglind ólst upp í Grundarfirði og gekk þar í grunnskóla, sótti framhaldsnám við Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi og útskrifaðist sem klæðskeri frá Tækniskólanum í Reykjavík. Berglind bjó nánast alla tíð í Grundarfirði þar sem flestir úr fjölskyldu hennar eru búsettir. Hún vann ýmis störf, lengst af á veitingahúsinu Kaffi 59, átti staðinn og rak ásamt móður sinni undir það síðasta.

Berglind tók virkan þátt í félagslífi Grundarfjarðar, naut þess að stunda skíði, jaðarsport og útivist hvers konar með fjölskyldu sinni og vinum, ferðaðist mikið með fjölskyldu sinni og hafði áhuga á ýmsu handverki og saumaskap.

Útför Berglindar fer fram frá Grundarfjarðarkirkju í dag, 11. janúar 2020, klukkan 13.

Það er mér nánast óbærilegt að setjast niður og setja niður á blað einhver orð um elsku systur mína. Það eru ekki til orð sem ná utan um það hvernig mér líður. Þetta er svo sárt. Það er hola inni í mér, hola sem kemur til með að vera. Það mun enginn feta í fótspor Beggu systur minnar. Hún var yngri systir mín og gat allt. Begga bjó yfir dásamlegum eiginleika að redda alltaf öllu og öllum. Hún óð í öll verk og leysti þau vel af hendi. Ég man ekki eftir neinu sem Begga gat ekki. Á dánarbeðinum grét ég utan í henni og spurði, hvað á ég að gera núna en áfram stappaði hún í mig stálinu og sagði mér að ég gæti allt sem ég ætlaði mér! Hún reyndi að undirbúa okkur vel, það er ótrúlegt töfraraunsæi sem hún fékk þegar ljóst var í hvað stefndi. Setti okkur öllum fyrir verkefni, hver og einn átti að passa hinn og þennan, þá sem henni voru kærastir. Á tilfinningaþrungnum og erfiðum fundi á Þorláksmessu með lækninum hennar sagði hann að tilgangur lífsins væri að elska og vera elskaður. Það verður sko ekki tekið af henni systur minni, hún elskaði mikið og var svo sannarlega mikið elskuð. Harmur hennar var þó óbærilegur, tilhugsunin um strákana sína móðurlausa var svo sársaukafull að engin orð fá því lýst. Harmur yfir því að fá ekki að taka þátt í framtíðinni, að sjá þá vaxa og dafna.

Það gustaði af Beggu, hún læddist svo sannarlega ekki með veggjum. Mikið mun ég sakna hnyttinna tilsvara Beggu minnar. Hún hafði skoðun á svo mörgu og sagði sína meiningu. Ég leitaði oft til hennar varðandi börnin, barnauppeldið og bara daginn og veginn og gat alltaf treyst því að fá heiðarlegt svar.

Óheiðarlegt og ósanngjarnt fólk átti ekki upp á pallborðið hjá henni Beggu og fannst henni lítið til svoleiðis fávita koma. Það var oft hressilegt að heyra skoðanir hennar á svoleiðis fávitum.

Ég kann ekki að lifa í heimi án Beggu. Sársaukinn að hugsa til þess sem hún og strákarnir þrír (þessi stóri líka) fá ekki að upplifa. Við þurfum að lifa áfram og lífið heldur víst áfram en það er svo miklu tómlegra án Beggu.

Það er erfitt að sætta sig við að þú skulir vera farin. Það verður erfitt að lifa með holunni og þetta mun alltaf vera sárt. Vonandi verður það bærilega sárt fljótlega. Það er það ekki núna.

Sjáumst í næsta stríði.

Þín elskandi systir,

Guðrún (Rúna).

Það er þyngra en tárum taki að þurfa að setjast niður og skrifa niður þessi orð. Elskuleg mágkona mín fallin frá langt fyrir aldur fram. Beggu kynntist ég þegar við Rúna fórum að stinga saman nefjum seint á síðustu öld. Þá var hún 12 ára gömul, kraftmikil ung stúlka sem fór sínar eigin leiðir. Svo sá maður hana þroskast og dafna og verða að þeirri konu og móður sem hún svo varð. Alltaf var stutt í brosið hjá Beggu enda hafði hún gaman af lífinu. Þegar við Rúna eignuðumst okkar fyrsta barn var Begga frænka mætt um leið til að knúsa þetta fyrsta systkinabarn sitt. Hún og Kristján Freyr áttu fallegt samband alla tíð og var hún gott mótvægi við móður hans í uppeldinu sem hún tók smá þátt í. Begga var líka röggsöm og dugleg og gekk ákveðið til verks þegar eitthvað þurfti að gera. Stundum var orðið „brussa“ jafnvel notað í slíkum tilfellum en hvað er ein og ein málningarsletta eða brotinn diskur á milli vina. Í seinni tíð, er Begga og Sigurbjörn maður hennar, hófu búskap og eignuðust börn var gaman að sjá hana dafna í móðurhlutverkinu. Ekki munaði hana um að hengja drengina tvo á sig (með þar til gerðum græjum pöntuðum af veraldarvefnum) og halda í göngutúr. Lausnamiðuð var hún og oft leitaði ég til hennar með fataleppa sem þurfti að betrumbæta og laga. Eitt skipti er ég eignaðist forláta buxur, sem mér þótti með heldur grunna vasa sem varla héldu stóru snjalltæki mínu, leitaði ég til Beggu með betrumbætur. Það var ekki mikið tiltökumál að græja nýjan, dýpri og teygjanlegri vasa sem hentaði fullkomlega. Þetta var bara lítið dæmi um útsjónarsemi og velvild hennar. Mikið hvað ég á eftir að sakna þessarar fallegu mágkonu minnar um ókomna tíð en ansi stórt skarð er nú í stórfjölskyldunni eftir fráfall hennar. Við sem eftir lifum höfum ekkert nema fallegar minningar af samverustundum liðinna tíma. Hvort sem það voru ferðalög um Vestfirði, rúntur um auðnir Melrakkasléttu, samverustundir í Bárðardal eða bara kaffibolli á Hellnafelli 2. Það var afskaplega gaman að ferðast með þeim Beggu og Sigurbirni enda voru ferðalög og útilegur hvers konar stór hluti af þeirra lífi. Elsku Sigurbjörn, Hans Bjarni og Magni Rúnar. Mínar dýpstu samúðarkveðjur til ykkar fallegu feðga og eins og þið vitið þá eru dyrnar alltaf opnar hjá okkur fyrir neðan Hellnafellið.

Lífið er núna!

Tómas Freyr Kristjánsson.

Elsku Begga. Það er erfitt að setjast niður og skrifa minningarorð um þig því ég trúi því ekki enn að þú sért farin. Það sem er mér efst í huga er þakklæti. Þakklæti fyrir að fá að kynnast þér og fyrir allar skemmtilegu samverustundirnar með þér.

Við höfum þekkt hvor aðra síðan við vorum saman á leikskóla.

Alla tíð varst þú stelpan sem var alltaf brosandi og breyttir leiðinlegum stundum í skemmtilegar. Dökkhærða stelpuskottan í kjólnum, stígvélunum og með fallegu spékoppana.

Við umgengumst hvor aðra ekki mikið á yngri árum en síðustu 10 ár höfum við eytt mörgum stundum saman. Í saumaklúbbum, skíðaferðum, sumarbústaðaferðum, útilegum, matarboðum og í útlöndum. Þessar samverustundir eru mér svo mikils virði í dag.

Alls staðar sem þú varst nálæg var gaman. Bros þitt og hlýja var alltaf til staðar. Þú varst með svo einstaklega fallegt bros. Þú varst alltaf hrein og bein og varst óhrædd við að segja þínar skoðanir. Þú framkvæmdir það sem þér datt í hug og hikaðir ekki við það.

Þú varst dásamleg mamma og gerðir allt fyrir prinsana þína. Og það hvernig þið Sigurbjörn tókust á við veikindin var aðdáunarvert. Alltaf var gleðin til staðar og þið ætluðuð að tækla þetta “skíta job“ eins og þú orðaðir það og halda svo áfram á ykkar braut. Því miður hafði skíta jobbið betur og missirinn er gríðarlegur. Fyrir lítið samfélag eins og Grundarfjörð er missir sem þessi mikill. Ung kona, móðir, eiginkona, dóttir, systir, mágkona og vinkona í blóma lífsins, sem alltaf var boðin og búin til að aðstoða aðra og lét sitt ekki eftir liggja, er fallin frá.

Þú varst mjög hæfileikarík og fengu margir að njóta þeirra hæfileika. T.d. með góðu bakkelsi, mat, saumaskap og fleiru. Einnig tókstu góðar ljósmyndir. Þú munt svo sannarlega skilja eftir stórt skarð í hjörtum fjölskyldu og vina, en þú verður alltaf í huga okkar hvert sem við förum.

Ferðafélagið Lúsmýið verður ekki eins án þín en við munum halda áfram að ferðast og þú verður að sjálfsögðu með okkur í anda.

Takk fyrir allar samverustundirnar, elsku vinkona, minning þín lifir að eilífu.

Ég vil að lokum senda innilegar samúðarkveðjur til Sigurbjarnar, Hansa, Magna, Önnu, Jobba, Steina, Rúnu, Magga, Júlla, Arndísar og fjölskyldu. Megi guð styrkja ykkur á þessum erfiðu tímum.

Þín vinkona,

Ingibjörg Eyrún.

Elsku Begga mín.

Þú, með fallega brosið þitt, djúpa spékoppa og smitandi hlátur, ert komin í aðra vídd þar sem þú ert ljós sem skín skært og aldrei deyr.

Þegar ég kynntist Rúnu, systur þinni, gerði ég mér ekki grein fyrir því hvað ég myndi tengjast fjölskyldunni ykkar sterkum böndum.

Það er í gegnum gleðistundir, sorgarstundir og hversdagsleika Rúnu og Tomma sem ég deili minningum með þér og nú um þig.

Með þér, í gegnum Rúnu, hef ég fylgst með gleðistundum þínum, hversdagsleika þínum, baráttu þinni og nú síðast ósigri þínum.

Á stundu sem þessari stendur tíminn í stað, hjartað grætur og yfir dimmir. Með tíð og tíma mun á sinn hátt birta til á ný og fólkið þitt mun ylja sér yfir minningum um þig og sjá þig í strákunum þínum tveimur.

Þó að kali heitur hver,

hylji dali og jökul ber,

steinar tali og allt, hvað er,

aldrei skal ég gleyma þér.

(Vatnsenda-Rósa)

Takk fyrir samveruna elskuleg og þangað til við hittumst næst vona ég að þú hafir það gott, elsku Begga mín.

Kærleikskveðja til þín,

Ellen.

Ég man alltaf eftir því þegar pabbi lýsti nýjasta afkvæmi vina sinna, þeirra Önnu og Jobba. Hann hafði bara aldrei séð stærra barn, „það var svo mikið af því,“ útskýrði hann forviða. Og það var rétt, allt frá byrjun var mjög mikið af Beggu. Hún fyllti út í herbergi með nærveru sinni, maður heyrði í henni á milli húsa, hláturinn hennar hafði þann eiginleika að það klingdi ekki aðeins í hlustunum á fólki heldur innri líffærunum öllum.

Begga var skynug og það var ekki til í henni meðvirkni. Hún rauk beint í að segja hlutina berum orðum. Það var oft skemmtilegt en líka erfitt þegar það beindist að manni sjálfum, fúlt að láta litlu systur Rúnu vinkonu berstrípa mann algerlega þegar maður var í óðaönn að klæða sig í keisaraleg föt unglingsáranna.

Á dansleik á Kaffi 59 fyrir allmörgum árum uppgötvaði ég að þyngdarafl Beggu hafði dregið að sér vörpulegan fylgihnött. Þetta var erfið staða fyrir Sigurbjörn, sögulega eru aðkomumenn sem gera sér dælt við heimastúlkur lamdir í klessu. Því óð hann um danssalinn óárennilegur á að líta með útþanda bringu en reyndi um leið að vera sjarmerandi og missa viðfangið ekki úr augsýn. Í dyrunum stóð Jobbi og bannaði allt kjaftæði en Anna vann við barinn og leyfði náttúrlega allt. Og á öllum borðum sátu svo bræður og systur hinnar eftirsóttu snótar og fylgdust grannt með framvindu mála.

Þótt örugglega séu til auðveldari fjölskylduinnvígslur stóðst Sigurbjörn prófið með glans, fékk prinsessunnar og þar með inngöngu í konungsríki Jobbanna, skemmtilegustu og bestu fjölskyldu landsins. Þetta var mikill samruni og stækkaði svo enn við fæðingu tveggja myndarlegra drengja.

Nú er Begga farin og um leið hefur heimurinn minnkað. Þrátt fyrir allt of stutta ævi er skarðið sem hún skilur eftir sig vægast sagt stórt. Meiriháttar manneskjur stækka nefnilega fólkið í kringum sig, gera meira úr umhverfi sínu. Hláturinn hennar Beggu gleymist engum og hann mun örugglega óma um ókomna hríð í fjallahring Grundarfjarðar, sem er stórbrotinn eins og Begga sjálf var. Smitandi kærleikurinn sem af henni stafaði býr áfram í fólkinu hennar og okkur öllum sem fengum að vera henni samferða. Það er okkar að hlúa að honum og rækta og halda minningu elsku Beggu þannig á lofti.

Elsku fjölskylda, vinir okkar, innilegar samúðarkveðjur.

Þórhildur Ólafsdóttir

og fjölskylda.