Mikail Akar, sjö ára, stillir sér upp fyrr framan málverk sitt „Champi“ sem er prentað í takmörkuðu upplagi á sýningu í Berlín um miðjan desember.
Mikail Akar, sjö ára, stillir sér upp fyrr framan málverk sitt „Champi“ sem er prentað í takmörkuðu upplagi á sýningu í Berlín um miðjan desember. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Berlín. AFP. | Mikail Akar lætur sér ekki bregða við kliðinn frá ljósmyndavélum allt í kringum sig. Akar er undrabarn í listum, fæddur í Þýskalandi 2012 og hefur hálfa ævina verið í sviðsljósinu.

Berlín. AFP. | Mikail Akar lætur sér ekki bregða við kliðinn frá ljósmyndavélum allt í kringum sig. Akar er undrabarn í listum, fæddur í Þýskalandi 2012 og hefur hálfa ævina verið í sviðsljósinu.

Hann lítur út eins og hver annar sjö ára drengur, klæddur röndóttri peysu með strákslegt bros og drauma um að verða atvinnumaður í knattspyrnu og ber ekki með sér að hafa komið eins og stormsveipur inn í alþjóðlegt listalíf. Verk hans seljast á þúsundir evra um allan heim.

„Nóg af ofurhetjudúkkum“

„Þótt hann sé aðeins sjö ára gamall hefur hann haslað sér völl í listheiminum. Það er áhugi í Þýskalandi, Frakklandi og Bandaríkjunum,“ sagði faðir hans og umboðsmaður, Kerem Akar. Akar eldri áttaði sig fyrir tilviljun á hæfileikum drengsins unga þegar hann gaf syni sínum striga og liti til að mála með höndunum á fjögurra ára afmæli hans.

„Við höfðum gefið honum nóg af bílum og ofurhetjudúkkum þannig að við fengum þá hugmynd að gefa honum striga,“ sagði Kerem Akar. „Fyrsta myndin leit stórkostlega út og fyrst hélt ég að konan mín hefði málað hana. Svo taldi ég að þetta hlyti að vera tilviljun, en eftir aðra og þriðju mynd var ljóst að hann hefði hæfileika.“

Hæfileikar Akars skína í gegn í nýjustu verkum hans, sem hann gerði í samstarfi við fótboltastjörnuna Manuel Neuer, leikmann Bayern München og þýska landsliðsins. Eitt af nýju verkunum seldist nýlega fyrir 11 þúsund evrur (1,5 milljónir króna) og rennur ágóðinn til góðgerðarstofnunar Neuers fyrir börn.

Litasprengjur, sem minna á Jackson Pollock, eru einkennandi fyrir stíl Akars, sem sagði við AFP að Pollock, Michael Jackson og Jean-Michel Basquiat væru í uppáhaldi.

Hann hefur einnig þróað eigin tækni, þar á meðal að setja málningu á strigann með því að kýla hann með boxhönskum föður síns.

Á kynningu á nýjum verkum Akars í einkagalleríi í Berlín í liðnum mánuði kvaðst einn gestanna hafa orðið „orðlaus“ við að komast að því að listamaðurinn væri barn og nýbyrjaður í barnaskóla.

„Jafnvægið og samhljómurinn í samsetningunni – ég myndi ekki búast við þessu hjá barni,“ sagði Arina Daehnick, ljósmyndari frá Berlín.

Diana Acthzig, stjórnandi Achtzig-nútímalistagallerísins í Berlín, kvaðst hrifin af „ímyndunarafli og fjölbreytni“ Akars. „Hann á mikla framtíð fyrir sér ef hann nýtur stuðnings og ekki verður reynt að græða á honum,“ sagði hún.

Knattspyrnudraumar

Metnaður Akars liggur þó annars staðar. „Þegar ég verð eldri vil ég verða fótboltamaður,“ segir hann og lætur gamminn geisa um 8-0-sigur, sem hann vann nýlega með skólaliðinu sínu. „Það getur verið þreytandi fyrir mig að mála. Stundum tekur það langan tíma... sérstaklega með boxhönskunum,“ sagði hann.

Faðir hans ítrekar að hann og kona hans gæti þess að ganga ekki of hart að syninum. „Við skerumst í leikinn þegar þetta verður of mikið og höfnum mörgum beiðnum,“ sagði Akar eldri. „Hann málar bara þegar hann vill, stundum einu sinni í viku, stundum einu sinni í mánuði.“

Næsta sýning Akars verður í Köln og eftir það liggur leiðin til Parísar.