Konungsfjölskyldan Meghan Markle, Harry prins, Vilhjálmur prins og Katrín, kona hans, á svölum Buckingham-hallar sumarið 2018. Sagt er að togstreita og allnokkrir samskiptaerfiðleikar séu innan fjölskyldunnar.
Konungsfjölskyldan Meghan Markle, Harry prins, Vilhjálmur prins og Katrín, kona hans, á svölum Buckingham-hallar sumarið 2018. Sagt er að togstreita og allnokkrir samskiptaerfiðleikar séu innan fjölskyldunnar. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Guðmundur Magnússon gudmundu@mbl.

Fréttaskýring

Guðmundur Magnússon

gudmundu@mbl.is

Vart er um annað meira talað í Bretlandi þessa dagana en hina óvæntu tilkynningu hertogahjónanna af Sussex, Harry prins og Meghan Markle, fyrr í þessari viku, að þau hafi ákveðið að draga sig út úr opinberum embættisskyldum í þágu konungsfjölskyldunnar og ætli sér að verða fjárhagslega sjálfstæð. Jafnframt muni þau framvegis verja tíma sínum jafnt í Kanada sem Bretlandi.

Harry prins er bróðir Vilhjálms prins, báðir synir Karls Bretaprins og Díönu heitinnar prinsessu, sonarsynir Elísabetar núverandi drottningar Breta. Það er Karl sem tekur við konungstign þegar Elísabet fellur frá, nema annað verði ákveðið, og Vilhjálmur er síðan fyrstur í röð arftaka hans. Harry er aftur á móti sjöundi í röðinni til að taka við konungsembætti svo heita má óhugsandi að til þess muni nokkru sinni koma. Aftur á móti eru þau Harry og Meghan, hin bandaríska eiginkona hans, sem er ekki af aðalsættum, skilgreind sem „heldri meðlimir“ konungsfjölskyldunnar. Þau hafa í samræmi við það gegnt margvíslegum opinberum skyldum í bresku þjóðlífi eins og hefðin býður.

BBC segir að svo virðist sem hjónin hafi tekið þessa ákvörðun án samráðs við aðra í fjölskyldunni og tilkynningin komið jafnt Elísabetu drottningu, Karli Bretaprins sem Vilhjálmi og Katrínu konu hans mjög á óvart. Örstuttu eftir að hún var birt á vefsíðu hertogahjónanna sendu embættismenn drottningar í Buckinghamhöll frá sér yfirlýsingu um að málið væri á byrjunarstigi og margt ætti eftir að ræða og fara yfir, sumt flókið, áður en það væri til lykta leitt.

Málið hefur reynst breskum fjölmiðlum, ekki síst götublöðunum, „gott fóður“ enda óhætt að segja að hér sé talsvert drama á ferð. Tala fjölmiðlar um ákvörðun hertogahjónanna sem „Megxit“ og líkja þannig ákvörðun þeirra við útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, Brexit. Reyndar munu fjölmiðlar og umfjöllun þeirra um hjónin allt frá því að þau gengu í hjónaband vorið 2018, vera ein meginástæðan fyrir ákvörðuninni. Munu þau Harry og Meghan telja að sumir fjölmiðlar hafi hreinlega lagt þau í einelti og fjallað með svo ágengum hætti um einkalíf þeirra að ekki sé við það búandi. Sérstaklega hefur Meghan Markle þótt kastljósið á sig úr öllu hófi og er hermt að hún telji sig gjalda fordóma vegna borgaralegs uppruna síns og litarháttar, en hún er dökk á hörund.

Guðný Ósk Laxdal, sem er sérfróð um bresku konungsfjölskylduna og er með umfjöllun um konungleg mál á Instagram (@royalicelander), segir að með ákvörðun sinni séu Harry og Meghan að gera konunglega hlutverkið að hlutastarfi. „Við munum enn þá sjá töluvert af þeim, en í allt öðruvísi hlutverki og minna í verkefnum sem tengjast konungsfjölskyldunni,“ segir hún. Þau séu bæði mjög þekkt og muni ávallt vera í sviðsljósinu að einhverju leyti. Hertogahjónin séu með ýmis verkefni á prjónunu, t.d. sé Harry prins að undirbúa sjónvarpsþætti með Oprah Winfrey um andlega heilsu.

Guðný telur að hjónin muni halda konunglegum titlum sínum og bendir á að fordæmi séu fyrir því að meðlimir konungsfjölskyldunnar vinni fullt launað starf og haldi konunglegum titli, t.d. prinsessurnar Beatrice og Eugenie. „Þessi breyting á hlutverki þeirra mun gefa hertogahjónunum meira vald og meira sjálfstæði til að taka ákvarðanir og höllin mun hafa minna svigrúm til þess að stjórna því hvað þau gera,“ segir Guðný Ósk.