Lesið í Tarot Angela umvafin refa- og fuglahauskúpum sínum sem og kristöllum á meðan hún les úr spilunum.
Lesið í Tarot Angela umvafin refa- og fuglahauskúpum sínum sem og kristöllum á meðan hún les úr spilunum. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Við áramót velta margir fyrir sér hvað nýja árið beri í skauti sér. Þá getur verið gaman að fá vel kunnandi manneskju til að lesa í Tarot-spil. Listakonan og ljóðskáldið Angela Rawlings hefur búið á Íslandi undanfarinn áratug og er einkar flink í slíkum lestri.

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Ég ólst upp á mjög einangruðum stað í Kanada og mér fannst alltaf mjög spennandi að komast í bókabúðina sem var í bænum. Þar sá ég í fyrsta sinn Tarot-spilastokk þegar ég var sextán ára og þó að ég hafi ekki haft hugmynd hvað þetta var, þá stóðst ég ekki mátið og keypti stokkinn. Mér fannst þessi spil dásamlega dularfull með öllum sínum táknum,“ segir Angela Rawlings, listamaður og ljóðskáld, sem búið hefur á Íslandi undanfarinn áratug, en hún býður fólki að koma til sín og lesa fyrir það úr Tarot-spilum.

„Ég lærði ekki að lesa úr spilunum fyrr en tíu árum eftir að ég keypti spilastokkinn góða en þá fór ég reglulega til fundar við konur sem voru alvöru Tarot-lesarar. Við æfðum okkur með því að lesa í spilin fyrir hver aðra en við gerðum þetta líka til að skemmta okkur. Þetta var falleg samvera því þarna höfðum við tækifæri til að tala um líf okkar í gegnum spilin en með Tarot-spilum er ævinlega farið fljótt á dýptina.“

Þetta er mjög náið

Angela kom fyrst til Íslands árið 2007 þegar henni var boðið að koma fram á alþjóðlegri ljóðahátíð hjá Nýhyl og féll hún fyrir landi og þjóð. „Ég kom strax aftur sumarið eftir í boði vinar og við ferðalok gaf hann mér Gyðju-Tarot-spilastokk í afmælisgjöf. Þetta var spilastokkurinn sem ég lærði fyrst að lesa í en ég hafði hann alltaf með mér í veskinu mínu hvert sem ég fór. Þegar ég hitti óvænt vinkonu sem var í sambandserfiðleikum spurði ég hvort hún vildi að ég kíkti í spilin og hún hélt það nú. Þá komst ég að því að ég réði vel við þetta og allar götur síðan, í meira en áratug, hef ég æft mig á hverjum degi. Ég stokka og dreg nokkur spil daglega fyrir sjálfa mig, aðallega til að æfa mig og tengja myndir og tákn við það sem er í gangi hverju sinni,“ segir Angela sem býður upp á ársspá fyrir fólk við hver áramót.

„Þá legg ég spilin niður með sérstökum hætti sem er blanda úr tveimur ólíkum hefðbundnum lögnum. Þessi lögn mín, eða uppröðun spilanna, kom til mín í draumi. Ég hef í þrígang vaknað upp af draumi þar sem þessi Tarot-spilalögn kemur fyrir og hún hefur reynst mér vel. Afar margar ólíkar leiðir eru til að leggja Tarot-spil og lesa úr þeim, en fyrir mér skiptir mestu hvernig ég sjálf tengi við spilin og hvernig manneskjan sem ég les fyrir hverju sinni tengist þeim. Túlkunin ræðst af því. Ég hef starfað sem listamaður og ljóðskáld undanfarin tuttugu ár og það að lesa úr Tarot-spilum er að hluta til mjög skylt því, þetta snýst um að lesa í tákn og búa til frásögn úr því. Einnig snýst þetta um að skynja manneskjuna sem kemur til mín. Þetta er mjög náið og á sama tíma að einhverju leyti „performans“, ég þarf að halda uppi stemningu og einbeitingu því ég þarf að halda mörgum þráðum á lofti í einu og tengja saman. Ég hlusta líka á hvernig fólki líður, hvort það vill fara hratt yfir sögu eða dvelja lengi við einhver atriði. Ég þarf því ekki síður að lesa manneskjuna en spilin.“

Fékk Ísland á heilann

Angela segir ástæðu þess að hún hafi búið hér á landi svo lengi sem raun ber vitni vera þá að hún hreinlega elski Ísland.

„Sambandi mínu við landið er best lýst sem ástarsambandi. Ég hafði ákveðnar hugmyndir og væntingar um Ísland áður en ég kom hingað í fyrsta sinn 2007. Ég hlakkaði til að koma til lands þar sem gróður væri lágvaxinn og sæist vítt til allra átta, en raunin varð sú að allt var betra og áhugaverðara en ég hafði gert mér í hugarlund. Allt fór fram úr mínum björtustu vonum. Þegar ég sneri aftur heim til Kanada var ég sífellt að skoða á netinu eitthvað sem tengdist náttúru Íslands, ég fékk það nánast á heilann. Ég gat ekki hamið mig,“ segir Angela og hlær. „Næst þegar ég kom var ég viss um að búbblan myndi springa, en það batnaði bara! Ég fann mig alltaf knúna til að koma aftur. Ég varð ástfangin af vistkerfinu hér, Ísland er svo jarðfræðilega ungt og mér leið eins og þegar ég er í nýju ástarsambandi, ég varð að fá að vita allt um landið, svo ég skellti mér í meistaranám í umhverfisfræði við Háskóla Íslands. Það lá beint við því listsköpun mín tengist mjög inn á jarðfræði og hlýnun jarðar. Ég fór í þetta nám til að skilja allt betur,“ segir Angela og bætir við að hana langi mjög mikið til að starfa sem landvörður hér á landi. „Vonandi rætist sá draumur einn daginn.“

Íslensku orðin á spítalanum

Fyrir sjö árum, þegar Angela var 34 ára og í miðju meistaranámi við Háskóla Íslands, greindist hún með brjóstakrabbamein.

„Ég fór í skurðaðgerð og lyfjameðferð á Landspítala Íslands og þá lærði ég ótrúlega mörg sérhæfð íslensk orð sem tengjast krabbameini og heilbrigðiskerfinu. Þetta var afar merkileg reynsla fyrir mig því á einhvern hátt var léttara fyrir mig að fara í gegnum þessa meðferð „á íslensku“ heldur en ef það hefði verið „á ensku“, móðurmáli mínu. Það dró úr ótta mínum að vera á „krabbameinsdeild“, sem er framandi íslenskt orð fyrir mig, en orðið „cancer“, vekur mér meiri ótta og leggst með meiri þunga á mig,“ segir Angela, sem lítur á Ísland sem annað heimili sitt eftir að hafa búið hér í rúman áratug og verið á tímabili gift íslenskum manni.

„Fjölskyldan hans er alveg yndisleg og ég á afar góða vini hér. Ég var umvafin góðu fólki á meðan ég fór í gegnum krabbameinsmeðferðina hér á Íslandi og vinir mínir að utan komu líka hingað til lands til að styðja mig í meðferðinni.“

Jörðin og mannslíkaminn

Angela vinnur nú að doktorsverkefni í umhverfisfræðum sem hún tengir við listsköpun sína.

„Þegar ég var í meistaranámi mínu á Íslandi í umhverfisfræðum einbeitti ég mér að ástandi íslenskra jökla, bráðnun þeirra og væntanlegum breytingum næstu 200 árin. Ég tengdi það með listsköpun minni við mannslíkama sem gengur í gegnum áfall, eins og til dæmis brjóstakrabbameinsmeðferð. Að meistaranámi loknu sótti ég um styrk til doktorsverkefnis sem ég sá auglýst við Háskólann í Glasgow, og passaði fullkomlega við mínar hugmyndir. Ég fékk styrkinn og þetta verkefni er fallegt áframhald á því sem ég hafði verið að gera í Háskóla Íslands. Doktorsverkefnið gengur út á að finna út hvernig við mannfólkið getum tengt líkama okkar í gegnum gjörðir okkar við aðra líkama, ekki mannslíkama, heldur „líkama“ sem eiga eitthvað skylt við jarðfræði.“

Þeir sem hafa áhuga á að láta Angelu lesa fyrir sig í Tarot-spil geta haft samband við hana á netfanginu: anarcheologia@gmail.com Angela ætlar að vera með vinnusmiðju í Tarot-lestri á næsta nýja tungli og við upphaf þorra, 24. janúar, þar sem hún kennir fólki grunnaðferðir við að lesa í spilin. Nauðsynlegt er að skrá sig á anarcheologia@gmail.com, því pláss er takmarkað. Nánar á facebook: Tarot Reading Workshop Vefsíða Angelu: arawlings.is