Harry Kane kennir sér meins aftan í læri gegn Southampton. Áhyggjurnar leyna sér ekki í svip Deles Allis.
Harry Kane kennir sér meins aftan í læri gegn Southampton. Áhyggjurnar leyna sér ekki í svip Deles Allis. — AFP
Enska úrvalsdeildarfélagið Tottenham varð fyrir miklu áfalli á dögunum þegar í ljós kom að Harry Kane verður lengi frá æfingum og keppni.

Frá árinu 2014 hefur enski landsliðsmiðherjinn Harry Kane skorað 133 mörk fyrir Tottenham Hotspur í ensku úrvalsdeildinni; 85 fleiri en næsti maður á listanum, landi hans Dele Alli. Það segir sig því sjálft að möguleikar liðsins á því ná einu af fjórum efstu sætum deildarinnar og þar með tryggja sér þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð hafa laskast eftir að upplýst var að miðherjinn yrði frá í allt að þrjá mánuði vegna meiðsla aftan í læri sem hann varð fyrir í leik gegn Southampton á nýársdag. Tottenham er nú í sjötta sæti. Ef marka má tölfræði sem Sky Sports tíndi til í vikunni minnka sigurlíkur Tottenham í leikjum um heil 9% ef Kanes nýtur ekki við.

Kane mun missa af fjölda stórleikja fram á vorið; þeim fyrsta strax um helgina, þegar Tottenham tekur á móti meistaraefnunum í Liverpool. Hann mun einnig missa af heimaleikjum gegn Manchester-liðunum tveimur og útileik gegn Chelsea. Þá verður Kane fjarri góðu gamni þegar Tottenham glímir við þýska liðið RB Leipzig í sextán-liða úrslitum Meistaradeildarinnar í febrúar og mars. Hann ætti að verða klár í slaginn fyrir EM í sumar.