Týnd Robinson-fjölskyldan á villigötum.
Týnd Robinson-fjölskyldan á villigötum.
Týnd í geimnum (Lost in Space) nefndust sjónvarpsþættir sem sýndir voru í Kanasjónvarpinu á sjöunda áratugnum. Þeir fjölluðu um Robinson-fjölskylduna, sem var rammvillt í óravíddum alheimsins.

Týnd í geimnum (Lost in Space) nefndust sjónvarpsþættir sem sýndir voru í Kanasjónvarpinu á sjöunda áratugnum. Þeir fjölluðu um Robinson-fjölskylduna, sem var rammvillt í óravíddum alheimsins. Með í för var maður að nafni Smith, sem ávallt gerði illt verra, og úrræðagott vélmenni með blikkandi ljós. Þessir þættir voru iðulega í kjánalegri kantinum. Skrifari lifði sig þó inn í þá á sjöunda áratugnum, sennilega um svipað leyti og merkisbækurnar um uppfinningamanninn Tom Swift áttu hug hans allan.

Það vakti því athygli hans þegar á dagskrá efnisveitunnar Netflix birtust þættir með saman nafni, Týnd í geimnum, og sennilega kviknaði einhver þáþrá eða fortíðarfíkn því að hann stóðst ekki mátið að athuga hvað þarna væri á ferðinni. Þarna var Robinson-fjölskyldan vissulega snúin aftur og hinn fláráði Smith á sínum stað, reyndar í kvenlíki, og meira að segja vélmenni, þótt það líti út fyrir að vera úr Tortímandanum, en ekki leikfangabúð eins og það gamla. Nú er alvara þar sem áður var kjánaskapur. Í gömlu þáttunum mátti nánast sjá að klettar voru úr frauðplasti og furðuverur búnar til í sama herbergi og prúðuleikararnir. Nýju þættirnir ná aldrei slíkum hæðum og verða fyrir vikið of raunverulegir. Best hefði verið að geyma Týnd í geimnum í minningunni.

Karl Blöndal

Höf.: Karl Blöndal