Vilhjálmur Einarsson fæddist 5. júní 1934. Hann lést 28. desember 2019.

Útför Vilhjálms fór fram 10. janúar 2020.

Ég er æskuvinur Sigmars yngsta sonar Vilhjálms og Gerðar og var ég því oft gestkomandi á heimili þeirra hjóna og kynntist þeim vel. Í fyrstu skiptin sem ég kom inn á heimilið fylgdi því einhvers konar lotning, að fá að koma inn fyrir dyrnar hjá þessum afreksmanni sem Vilhjálmur var. En það var bara fyrsta skiptið, svo varð það hversdagslegt. Vilhjálmur var einhver umburðarlyndasti fjölskyldufaðir Egilsstaða, held ég. Hvernig hann hneykslaðist aldrei á vitleysunni í okkur drengjunum, hvernig hann hló oft með okkur og reyndi að kenna og leiðbeina frekar en að vera reiður og refsandi eins og alveg eins gat tíðkast á þeim tíma.

Ég man vel eftir mörgum stundum með Vilhjálmi þegar við horfðum á íþróttir með honum og því fylgdu oft fróðlegar sögur. Einnig þegar hann fylgdist með okkur tefla og ræða málin og kom með leiðréttandi, fræðandi og jafnvel þreytandi innskot. Stundum þegar við strákarnir spjölluðum í efri stofunni eða upp í herbergi mátti heyra leiðréttandi hnuss í Vilhjálmi neðan úr neðri stofunni eða innan úr vinnustofu ef hjal okkar var orðið of ábyrgðarlaust. Fyrir þessu hnussi bárum við virðingu, en þau eru einu ávirðingarnar sem ég man eftir að Vilhjálmur hafi veitt okkur drengjunum.

Þegar ég lít til baka þá veit ég að Villi talaði vel um fólk og aldrei í bakið á neinum og sá aldrei ástæðu til að mikla sig af neinu, þótt ærin væri ástæðan. Vilhjálms verður lengi minnst sem eins helsta afreksmanns íþrótta í Íslandssögunni, og einnig í mínum huga sem afreksmanns á svo margan annan hátt.

Gerði og aðstandendum sendi ég mínar dýpstu samúðarkveðjur. Hvíldu í friði Vilhjálmur.

Einar Ben Þorsteinsson.

Kveðja frá Íþrótta- og ólympíusambandi Íslands

Það er með söknuði sem við kveðjum Vilhjálm Einarsson, heiðursfélaga ÍSÍ. Hans verður minnst sem eins fræknasta íþróttamanns Íslands, fyrr og síðar. Vilhjálmur var fyrstur Íslendinga til að vinna til verðlauna á Ólympíuleikum er hann vann silfurverðlaun á leikunum í Melbourne árið 1956 og setti þar ólympíumet sem hann átti í tvær klukkustundir. Enginn annar Íslendingur hefur sett ólympíumet, hvorki fyrr né síðar. Vilhjálmur var fimm sinnum kjörinn íþróttamaður ársins og er sá Íslendingur sem hefur oftast hlotið þá nafnbót og hann var einnig fyrstur allra útnefndur í Heiðurshöll ÍSÍ. Afrek hans verða ekki öll tíunduð hér en engum dylst að Vilhjálmur var framúrskarandi íþróttamaður og mikilvæg fyrirmynd fyrir íþróttafólk á öllum aldri. Það er með ólíkindum að Íslandsmet sem Vilhjálmur setti árið 1960 standi enn og það vekur bæði undrun og aðdáun að ganga fram hjá vel heppnuðu listaverki við Vilhjálmsvöll á Egilsstöðum sem sýnir lengd silfurstökksins frá Ólympíuleikunum í Melbourne. Með því listaverki og öðrum heimildum sem gert hafa stökkinu og afrekum Vilhjálms góð skil, mun silfurstökk Vilhjálms halda áfram að veita íþróttafólki framtíðarinnar innblástur.

Vilhjálmur var einnig farsæll skólastjórnandi og lagði sitt af mörkum til menntunar- og uppeldismála í landinu. Hann var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 2006 fyrir framlag sitt í þágu íþrótta- og uppeldismála.

Vilhjálmur var í góðu sambandi við skrifstofu ÍSÍ og hann var duglegur að mæta á viðburði sem heiðursfélagar ÍSÍ taka þátt í. Hann sýndi starfi sambandsins og hreyfingarinnar allrar áhuga og naut þess að hitta unga sem aldna félaga í hreyfingunni við hátíðleg tækifæri, rifja upp gamla tíma og gefa góð ráð. Hans var saknað á hófi íþróttamanns ársins í desember síðastliðinn þar sem hann lét sig yfirleitt ekki vanta. Má segja að það hafi verið táknrænt að andlát hans bar að sama kvöld og sú hátíð fór fram, í ljósi þess að hann hafði hlotið titilinn íþróttamaður ársins oftar en nokkur annar.

Stjórn og starfsfólk ÍSÍ sendir innilegar samúðarkveðjur til Gerðar, eiginkonu Vilhjálms, og fjölskyldunnar allrar.

Minningin um Vilhjálm Einarsson – silfurmanninn – mun lifa.

Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ.

Mig langar að minnast Vilhjálms Einarssonar frjálsíþróttamanns og skólameistara sem lést 28. desember sl. 85 ára að aldri. Vilhjálmur var einn af okkar merkustu íþróttamönnum. Afrek hans á Ólympíuleikunum í Melbourne í Ástralíu árið 1956 skapaði honum stöðu sem þjóðhetju í augum Íslendinga og þeirri stöðu hefur hann haldið síðan. Stökk hans þar upp á 16,26 m var ólympíumet og skilaði honum silfurverðlaunum á leikunum. Hann vann einnig bronsverðlaun á Evrópumótinu í Stokkhólmi árið 1958. Þýðing þess fyrir ungt lýðveldi á þessum tíma að eiga afreksfólk í íþróttum á heimsmælikvarða var mikil og áhrif Vilhjálms og annarra íþróttamanna voru mikil og veittu þjóðinni sjálfstraust og andagift. Þýðing þessa er án vafa meiri en margir hafa gert sér grein fyrir. Vilhjálmur náði snemma að skapa viðmið sem íslenskt afreksfólk hefur horft til allar götur síðan. Vilhjálmur var fimm sinnum valinn íþróttamaður ársins, árin 1956, 1957, 1958, 1960 og 1961. Árið 2006 var Vilhjálmur sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag sitt í þágu íþrótta og uppeldismála. Hann var fyrsti íþróttamaðurinn sem var útnefndur í heiðurshöll ÍSÍ á 100 ára afmæli sambandsins árið 2012. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á sögu Ólympíuleikanna. Ég var alin upp við afrek Vilhjálms og því var það sannur heiður að hitta hann við kjör á Íþróttamanni ársins árið 2018. Vilhjálmur var einnig mikill brautryðjandi í fræðslu- og æskulýðsmálum hér á landi. Hann sýndi það svo ekki verður um villst hversu mikilvægt það er að sameina íþróttaiðkun og menntun og má segja að hann hafi verið fyrirmynd hvað þetta varðar. Vilhjálmur sinnti kennslustörfum frá 1957 áður en hann var skipaður skólastjóri Héraðsskólans í Reykholti frá 1965-1979. Frá 1979-2001 var hann fyrsti skólameistari Menntaskólans á Egilsstöðum, þar sem hann bjó með eiginkonu sinni til dánardags. Þótt margt sé hægt að rita um afrek Vilhjálms er mest um vert að minnast manneskjunnar sem hann hafði að geyma. Afrek hans stigu honum ekki til höfuðs heldur veitti hann fjölskyldu sinni og samferðafólki hvatningu, sýndi umburðarlyndi og auðmýkt í hverju því sem hann tók sér fyrir hendur.

Með Vilhjálmi er genginn einn merkasti Íslendingur samtímans. Eftirlifandi eiginkonu Vilhjálms, Gerði Unndórsdóttur, og sonum þeirra hjóna sendi ég hugheilar samúðarkveðjur og megi minning um góðan mann lifa.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Frændi Vilhjálms Einarssonar Valgeir Guðjónsson yrkir: „Það sem þú gerir, það sem þú ert, þín verður minnst fyrir það sem er gert.“ Þessar ljóðlínur koma mér í hug þegar kvaddur er stórmerkur brautryðjandi og ein af allra skærustu íþróttastjörnum Íslendinga fyrr og síðar. Hann fór ekki alltaf hefðbundnar leiðir; ruddi braut nýrra kennsluhátta, var einn af virtustu skólamönnum landsins og listrænn heiðursmaður.

Þegar við eldumst og horfum til baka veltum við fyrir okkur hvað það er sem hefur haft áhrif á líf okkar. Auðvitað er það fjölmargt. Enda eiga margar upplifanir gildi í sjóði minninganna.

Eftir hið glæsta þrístökk í Melbourne hét Vilhjálmur íslenskri æsku því að gera eitthvað fyrir hana. Og á sjöunda áratugnum rak hann um tíu ára skeið sumaríþróttaskóla fyrir drengi og stúlkur ásamt félaga sínum Höskuldi Goða Karlssyni. Ég var einn þeirra heppnu sem fengu að fara í skólann. Það ríkti eftirvænting og spenna hjá okkur nokkrum ungum drengjum frá Hvolsvelli þegar við lögðum land undir fót á leið á íþróttaskólann. Vilhjálmur og Höskuldur tóku á móti okkur af áhuga og hlýju, þarna var jákvæður agi og skipulag. Þetta var lífsreynsla og manndómsvígsla fyrir ungan sveitamann. Þarna var á fimmta tug ungra drengja víðsvegar að af landinu. Í íþróttaskólanum hófst dagurinn á fánahyllingu og að kveldi var fánakveðja. Þátttakendur fengu sérstaka búninga. Við urðum menn að meiri þegar komið var í búningana. Hvers konar íþróttir kenndar, leikgleðin og margs konar fræðsla í fyrirrúmi, hlutverkaleikurinn í algleymingi, skipt var í lið; landslið annars vegar og pressan hins vegar, og þvílík stund og eftirvænting að komast í annað hvort liðið. Helgi Dan. kom í heimsókn og við fengum að taka vítaspyrnu og hann stóð í markinu. Gríðarleg taugaspenna og sumir skoruðu, aðrir skutu yfir eða framhjá en oftast varði landsliðsmarkvörðurinn. Þetta var svona svolítið eins og lífið sjálft er boltinn fer ekki alltaf rakleiðis í netið. Eftir kvöldsund var kvöldhressing. Gerður og Guðný, eiginkonur þeirra félaga, stýrðu okkur í eldhúsverkum. Sameiginleg þakkarkveðja var eftir matinn. Þá var komið að kvöldvökunni, þar var kvikmyndasýning en við sáum um skemmtiatriði. Vilhjálmur greip gítarinn og við sungum: „Góðir og glaðir drengir þeir gera sér allt að leik.“ Hvílík stemning! Í gegnum hátalarakerfi skólans var lesin kvöldsaga og sumir þurftu svolítið að sjúga upp í nefið á koddanum áður en sofnað var.

Íþróttaskólinn var nýlunda og þarna urðu til afreksmenn eins og Ásgeir Sigurvinsson og Einar Vilhjálmsson svo dæmi séu tekin og margir góðir leiðtogar á ýmsum sviðum.

Ég rifja þessar minningar upp nú þegar leiðir skilur. Þegar ég horfði á útnefningu íþróttamanns ársins var ég ákveðinn í að hringja í Vilhjálm daginn eftir til að tjá honum enn og aftur þakklæti mitt. Nú er það of seint en minningin lifir hjá mér og mörgum öðrum drengjum – sem eru löngu orðnir karlar.

Gerði Unndórsdóttur og fjölskyldu votta ég mína dýpstu samúð og þakklæti.

Ísólfur Gylfi Pálmason.

Kveðja frá Samtökum íþróttafréttamanna

Það var eiginlega ljóðrænt að Vilhjálmur skyldi kveðja sama kvöld og Íþróttamaður ársins var krýndur. Þá útnefningu hlaut Vilhjálmur fyrstur og oftast allra eða fimm sinnum. Það er í raun afreki hans á Ólympíuleikunum í Melbourne að þakka að Samtök íþróttafréttamanna sem voru stofnuð sama ár, 1956 komu á kjörinu um Íþróttamann ársins. Það var okkur íþróttafréttamönnum mikill heiður að Vilhjálmur skyldi svo nánast alltaf mæta á hófið og vera áfram sú fyrirmynd sem hann var öðru íþróttafólki.

Sjálfur fór ég tvær ferðir austur á Egilsstaði til að vinna sjónvarpsefni um Vilhjálm á síðustu árum. Í seinna skiptið árið 2016 fyrir þáttinn Íþróttaafrek Íslendinga þar sem mörg af helstu íþróttaafrekum Íslendinga voru rifjuð upp. Þar rifjaði Vilhjálmur enn einu sinni upp sitt frægasta afrek, silfrið í Melbourne 60 árum fyrr. Í bæði skiptin sem ég sótti Vilhjálm og Gerði heim fékk ég höfðinglega móttökur. Villi kveikti upp í arninum og Gerður bauð upp á vöfflur.

Sjálfur sagðist Vilhjálmur þó vera miklu stoltari af störfum sínum sem skólastjóri en af íþróttaafrekum sínum. Hlutverk okkar íþróttafréttamanna verður þó að halda glæstum íþróttaafrekum Vilhjálms áfram á lofti. Samtök íþróttafréttamanna færa aðstandendum hans innilegar samúðarkveðjur.

F.h. Samtaka íþróttafréttamanna,

Þorkell Gunnar

Sigurbjörnsson.

Látinn er kær vinur til margra ára. Það er alltaf söknuður þegar vinir hverfa á braut. Það er ótrúlegt hvað tíminn líður hratt. Við kynntumst í Reykholti 1967 þegar við hjónin komum í Reykholt og maðurinn minn Snorri Þór ætlaði að verða kennari þar. Seinna kom svo í ljós að ég átti líka að kenna. Þetta var góður tími á meðan hann var í Reykholti og margt gert sér til gamans. Það var farið í Húsafell, Munaðarnes og meira að segja fórum við austur til Egilsstaða með Gerði, Vilhjálmi og sonum þeirra og lentum í ýmsum ævintýrum, sáum t.d. hafís fyrir landi í Hrútafirði, þetta var sumarið 1968, og margt fleira. Þegar austur var komið fórum við t.d. í Mjóafjörð, sem er eftirminnilegt. Einnig komu þau vestur á Súgandafjörð með okkur að heimsækja tengdaforeldra mína og var það líka góð ferð. Eftir að þau hjón fluttu úr Reykholti og austur komu þau nokkrum sinnum og voru hjá okkur í nokkra daga hverju sinni. Einnig fór ég fyrir nokkrum árum austur til þess að heimsækja Gerði og Vilhjálm og áttum við góða helgi saman.

Vilhjálmur hafði gott lag á unglingum og gat fengið þá til að gera það sem hann taldi að væri þeim fyrir bestu. Hann hafði góða skipulagsgáfu. Það var töluverður húsnæðisskortur í Reykholti á fyrstu árum hans sem skólastjóra þar. Málið var leyst með því að skipuleggja alla hluti í þaula áður en nemendur komu í skólann. Það var stunduð svokölluð skiptikennsla. Það var bryddað upp á ýmsum nýjungum eins t.d. hópvinnu nemenda, þó var þess gætt að þeir skiluðu öllu því námi sem til var ætlast. Einnig var drengjum boðið upp á bifvélavirkjun. Tómstundir notuðu nemendur til íþróttaiðkunar, myndmenntar, ljósmyndagerðar og að dansa. Þeim var leiðbeint í öllum þessum greinum. Það var haldið upp á afmæli þeirra nemenda sem áttu afmæli á meðan skólinn starfaði. Það voru ýmsar veislur og skemmtanir eins og gengur í skólum.

Vilhjálmur var góður málari og notaði bæði olíu- og vatnsliti og var duglegur að mála í frístundum sínum. Ég er svo heppin að eiga nokkrar myndir eftir hann. Einnig var hann tónelskur í besta lagi og gítarinn aldrei langt undan.

Undarlegt að þessi mikli íþróttamaður skyldi falla frá sama dag og kjör íþróttamanns ársins fór fram, en þann titil hlaut hann fimm sinnum.

Við höfum átt margar góðar samverustundir í gegnum tíðina. Starfsdagur hans hefur verið langur. Synirnir sex allir uppkomnir og hinir vænstu menn. Barnabörnin og langafabörnin voru honum mikils virði og hann hefur verið duglegur að taka þátt í lífi þeirra.

Að leiðarlokum vil ég þakka Vilhjálmi samfylgdina í lífinu. Gerði og fjölskyldunni allri sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning mæts manns, sem verður sárt saknað.

Sigríður Bjarnadóttir.

Brautskráning frá Bifröst 1. maí 1964. Hópur ungs fólks hélt út í lífið eftir athöfn í hátíðarsal skólans þar sem skólastjórinn sr. Guðmundur Sveinsson hafði flutt okkur áhrifamikla hugvekju, hvatt okkur til dáða og óskað velfarnaðar. Kennararnir auðvitað ánægðir eins og við – sumarið og sólin fram undan og áreiðanlega góð tilhugsun hjá þeim að hafa komið okkur til nokkurs þroska. Þessi góði hópur kennara hefur síðan án efa fylgst með okkur að nokkru í lífsins ólgusjó, og við að sjálfsögðu með þeim.

En nú eru tímamót. Einn af öðrum hafa þeir kvatt þennan heim þessir ágætu menn, kennararnir sem sumir hverjir voru tiltölulega lítið eldri en við, sá síðasti úr hópnum, Vilhjálmur okkar Einarsson, nú í lok desember. Táknrænt fyrir hann að taka þrístökk sitt úr þessum heimi sama kvöld og valinn var íþróttamaður ársins, verðskuldaður titill frábærra íþróttamanna þjóðar okkar, titill sem engum hafði hlotnast eins oft og Vilhjálmi.

Þegar við hófum nám okkar í Bifröst, haustið 1962, voru ekki nema tæp sex ár síðan hann vann eitt alstærsta afrek íslenskrar íþróttasögu í Melbourne, og við að sjálfsögðu afar stolt af því að slíkur afreksmaður skyldi vera með okkur í útivist og tómstundastörfum í Norðurárdalnum fagra. Villi, eins og við kölluðum hann gjarnan, var áhugasamur um okkar hag, vildi styrkja okkur líkamlega í hressandi útivist og íþróttum, ásamt því að leiðbeina okkur í klúbbastarfi og félagsstörfum. Ég minnist þess m.a. að hafa þótt merkilegt að taka þátt í þrístökkskeppni sem hann stóð fyrir, og reyndi að leiðbeina okkur eins og aðstæður leyfðu. Árangur minn ekki til þess að gorta af, náði ef ég man rétt að stökkva heilum fjórum og hálfum metra styttra en hann náði lengst, hefði líklega þurft fimm- jafnvel sexstökk til þess að ná jöfnuði við hann.

En nú er hann horfinn á braut þessi góði kennari okkar, sem ég segi að hafi eins og við farið frá Bifröst með frábært veganesti. Vilhjálmur farsæll skólastjórnandi, m.a. í Reykholti og á Egilsstöðum, við á ýmsum hillum í margbrotnum hillusamstæðum íslensks þjóðlífs, öll með það markmið að gera okkar besta, þó svo að ekkert okkar hafi náð 16,70.

Fyrir hönd skólasystkina minna frá Bifröst 1962-1964 sendi ég Gerði, strákunum þeirra öllum og stórfjölskyldunni einlægar samhryggðarkveðjur. Við minnumst Vilhjálms Einarssonar með þakklæti og virðingu, eins og kennaranna okkar allra sem horfnir eru á braut.

Óli H. Þórðarson.

Við andlát Vilhjálms Einarssonar, kærs æfinga- og keppnisfélaga og vinar til um sex áratuga, rifjast upp ljúfar endurminningar. Kynni okkar hófust austur í Laugardal árið 1957, ég þá nemandi við Héraðsskólann en hann nýráðinn kennari. Það var mikið lán fyrir mig nýbyrjaðan að æfa frjálsar íþróttir að njóta leiðsagnar slíks afreksmanns sem Vilhjálmur var og ekki lá hann á liði sínu við að segja nýliðum og öðrum til og gefa góð ráð. Segja má að staðurinn Laugarvatn hafi verið undirlagður af íþróttum af öllu tagi og við lá að menn færu hoppandi á milli húsa, annaðhvort á öðrum fæti eða báðum. Árin liðu og ég gekk í félag leiðbeinandans Vilhjálms, ÍR, og æfðum við Vilhjálmur meira og minna saman þegar því varð við komið á veturna í litla ÍR-húsinu við Túngötu (nú í Árbæ) eða á gamla Melavellinum. Á þessum árum var Guðmundur Þórarinsson þjálfari ÍR en síðar kom til sögunnar Ungverjinn Simonyi Gabor. Kom hann með ýmsar nýjungar sem reyndust okkur vel.

Margs er að minnast frá þessum árum, bæði frá æfingum og keppnum, innanlands og utan, og margir eru þeir eftirminnilegir félagarnir frá þessum árum. Vilhjálmur var um margt sérstakur, hann var sterklega byggður (átti 14,56 í kúluvarpi), æfingar hans voru mjög markvissar og segja má að hann hafi innleitt nýjan stíl í þrístökki, þ.e. löng atrenna með nokkuð sitjandi hlaupalagi. Hann var nægilega sterkur til þess að ráða við og útfæra þetta. Þá náði hann að einbeita sér vel þegar mikið lá við, einkum á stórmótum.

Ferill Vilhjálms var glæsilegur (sjá „Silfurmaðurinn“), silfurverðlaun á Ólympíuleikunum 1956 í Melbourne með 16,26 m og ólympíumet um tíma. Jöfnun á viðurkenndu heimsmeti á Meistaramóti Íslands 1960 með 16,70 m stökki sem stendur enn sem Íslandsmet eftir 60 ár. Hann náði 5. sæti á Ólympíuleikunum í Róm 1960 með því að stökkva 16,37 m og bronsverðlaun hlaut hann á Evrópumeistaramótinu 1958 með 16,00 m. Þá setti hann heimsmet í hástökki án atrennu, 1,75 m, árið 1961. Fimm sinnum var hann kjörinn íþróttamaður ársins.

Einstakur afreksmaður og ljúfmenni hefur nú kvatt. Hans er saknað.

Innilegar samúðarkveðjur sendi ég eftirlifandi eiginkonu hans, sonum þeirra og öðrum ættingjum.

Blessuð sé minning Vilhjálms Einarssonar.

Jón Þórður Ólafsson.

Frjálsíþróttahreyfingin syrgir einn af sínum allra fremstu sonum og merkustu fyrirmynd, silfurmanninn Vilhjálm Einarsson.

Afrek Vilhjálms eru einstök á íþróttasviðinu, silfur á Ólympíuleikum, brons á Evrópumóti og Íslandsmet í þrístökki sem brátt hefur staðið í sextíu ár, án þess að nokkur hafi komist með tærnar nærri því sem hælar Vilhjálms mörkuðu í sandgryfjum forðum.

Margir þurfa að láta sér nægja afrek innan vallar og hefði það verið ærið í tilfelli Vilhjálms, en það var sannarlega aðeins upphafið af löngum og farsælum ferli. Ferli þar sem Vilhjálmur vann ötullega að því að efla ungt fólk, fræða og hvetja á sviði íþrótta- og menntamála bæði austan lands og vestan.

Þó jafnvægið væri farið að daprast lét Vilhjálmur ekki sitt eftir liggja allt fram á síðustu ár við að koma á frjálsíþróttamót, s.s. á sjálfum Vilhjálmsvelli, til að hvetja yngri kynslóðir frjálsíþróttamanna til dáða.

Að leiðarlokum minnist FRÍ Vilhjálms og hans einstöku afreka og framgöngu af virðingu og þakklæti. Afrek sem lifa og munu halda áfram að hvetja ungmenni til dáða líkt og þau hafa gert með einstökum hætti undanfarna áratugi. Mikil er gæfa landsins að hafa eignast slíkan son.

Fyrir hönd FRÍ vil ég færa Gerði, eftirlifandi eiginkonu Vilhjálms, sonum þeirra og fjölskyldum öllum innilegar samúðarkveðjur.

Freyr Ólafsson,

formaður FRÍ.

Á íþróttavellinum hittumst við Vilhjálmur fyrst sumarið 1956. Þar hófst vinátta okkar sem hefur varað í 53 ár. Margs er að minnast. Í upphafi var það þátttaka í íþróttamótum bæði hérlendis og erlendis í nafni Frjálsíþróttasambands Íslands og Íþróttafélags Reykjavíkur sem leiddi okkur saman. Þetta sumar vann hann það afrek að verða Norðurlandameistari og methafi í þrístökki. Með þeim sigri ávann hann sér rétt til þátttöku á Ólympíuleikum sem fram fóru í nóvember 1956. Með glæsilegum árangri þar ávann hann sér frægð um heim allan og frægðarsól hans skein skært, ekki síst í föðurlandi hans. Meðan á keppninni stóð hugsaði Vilhjálmur margt og meðal annars segir hann eftirfarandi í bók sinni Silfurmaðurinn: „Eins og oft þegar mannssálin ráfar í myrkum örvæntingarinnar er bænin eina leiðin og þar sem ég sat þarna í íþróttagallanum þá baðst ég innilega fyrir. Ég bað samt ekki um gull eða silfur heldur það að mér mætti heppnast að sýna ávöxt erfiðis sem undirbúningurinn hefði haft í för með sér, að mér mætti heppnast vel. Einnig bað ég þess, að ef mér heppnaðist vel, þá mætti mér auðnast að nota áhrif mín, ef einhver yrðu, til góðs fyrir Ísland og íslenska æsku.“ Heppnin var með honum og honum auðnaðist að vinna með æskunni í nær 50 ár.

Í júlímánuði 1957 var undirrituðum boðin þátttaka í keppnisferð ÍR-inga til Svíþjóðar. Þangað barst boð frá Ráðstjórnarríkjunum til þátttöku í svonefndum Vináttuleikum sem áttu að fara fram í Moskvu. Stjórnendur leikanna óskuðu þó aðeins eftir afreksmanninum Vilhjálmi Einarssyni. Svarskeyti var sent af Jakobi Hafstein formanni ÍR og fararstjóra hópsins: Allur hópurinn, 15 manns, eða enginn. Svar barst um hæl: Hópurinn verður allur sóttur. Sjö dagar í Moskvu voru ánægjulegir og við Vilhjálmur ræddum drauma okkar og þrá til samstarfs á komandi árum. Sumarið 1960 héldum við fyrstu íþróttanámskeiðin í Hveragerði í gamla Garðyrkjuskólanum. Þau tókust vel þótt aðstæður væru ekki góðar. Árið 1962 héldum við nokkur námskeið í Reykjadal í Mosfellsdal. Við vorum heldur bjartsýnir er við festum kaup á Mosfellskirkju á góðri jörð með góðri húseign. Með döprum huga urðum við að selja staðinn og draumurinn um Íþróttaskóla Höskuldar og Vilhjálms dó þar með og vinirnir gengu snauðir frá borði en sáttir. Allt til 1970 héldum við þó námskeið sem flest fóru fram í Reykholti í Borgarfirði og í Varmalandi.

Þáttaskil verða í lífi Vilhjálms haustið 1959 er hann er ráðinn kennari við Samvinnuskólann á Bifröst. Þar fær hann ró og næði með ört vaxandi fjölskyldu sinni. Keppnisskapið knýr hann áfram er hann kveður Bifröst og flytur í Reykholt og stjórnar þar skólastarfi með öflugum kennurum og skilar þar árangri svo eftir er tekið. Hann verður síðan sá áhrifavaldur að ég tek við starfi hans á Bifröst. Urðum við þá samstarfsmenn í því að efla íþróttastarfsemi héraðsins í fjögur ár.

Elsku Gerður. Ég bið almættið að vernda þig og fjölskyldu þína. Ég veit að synir ykkar munu annast þig með þeim kærleik er þeir fengu að njóta í æsku sinni.

Kær kveðja,

Höskuldur Goði Karlsson.

Þá er hann stokkinn yfir fljót eilífðarinnar, íþróttakappinn og skólamaðurinn Vilhjálmur Einarsson. Hann tókst á við það metnaðarfulla og krefjandi verkefni að byggja upp nýjan framhaldsskóla á Austurlandi þegar hann var skipaður fyrsti skólameistari Menntaskólans á Egilsstöðum. Vilhjálmur setti ME í fyrsta sinn fyrir 40 árum, í október 1979, og stýrði honum sem skólameistari allt til ársins 1994, að undanskildum þremur árum þegar hann stundaði nám í Svíþjóð. Eftir að hann lét af störfum sem skólameistari starfaði hann áfram sem stundakennari við skólann í nokkur ár og fylgdist síðan grannt með skólastarfi í ME allt til æviloka.

Vilhjálmur var vinsæll skólameistari og átti auðvelt með að laða að sér jafnt kennara sem nemendur. Haustið 1979 fylgdi honum t.a.m. dágóður nemendahópur frá Héraðsskólanum í Reykholti, sem hann stýrði árin áður en hann flutti austur á Fljótsdalshérað, á sínar gömlu æskuslóðir.

Sem skólameistari og síðar kennari var hann viðræðugóður, heiðarlegur og réttsýnn og mátti ekkert aumt sjá. Hann var alla tíð talsmaður nýjunga og þróunar í skólastarfi og að því býr ME í dag sem skóli í fararbroddi breytinga þrátt fyrir smæð sína. Starfsfólk og skólanefnd Menntaskólans á Egilsstöðum senda aðstandendum Vilhjálms samúðarkveðjur og kveðja hinn mæta skólameistara með orðum sem Björn Vigfússon, fyrrverandi sögukennari við ME, lét falla við síðustu útskriftina sem hann stýrði: „Þarna fer Silfurmaðurinn með gullhjartað.“ Blessuð sé minning hans.

F.h. starfsfólks og skólanefndar Menntaskólans á Egilsstöðum,

Árni Ólason.

Í dag fylgjum við Vilhjálmi Einarssyni síðasta spölinn. Vilhjálmur bar ungmennafélagsandann í hjarta sér alla tíð, alveg frá barnæsku og fram á síðasta dag. Vilhjálmur, eins og reyndar við öll í ungmennafélagshreyfingunni, hvatti til heilbrigðs lífsstíls og þátttöku í samfélaginu.

Vilhjálmur var ungmennafélagi fram í fingurgóma og vann stöðugt að því að bæta bæði sig og samfélagið á sama tíma. Honum var jafnframt umhugað um að allir væru með og var duglegur að virkja allt fólk í kringum sig við skipulagningu stórra viðburða.

Vilhjálmur var mikill leiðtogi og kom víða við á löngum ferli sínum þó svo að flest hafi það tengst íþróttum og menntun. Mörgum innan UMFÍ er mjög minnisstætt þegar Vilhjálmur var formaður Ungmennasambands Borgarfjarðar (UMSB), sambandsaðila UMFÍ, árin 1967-1970 en samtímis því var hann skólastjóri Héraðsskólans í Reykholti. Innan UMSB var Vilhjálmur hvatamaðurinn að sumarhátíð UMSB í Húsafellsskógi sem margir þekkja sem Húsafellsmótin. Þetta voru geysilega stórir áfengislausir viðburðir ætlaðir allri fjölskyldunni. Þar stigu á svið þekktustu skemmtikraftar og tónlistarfólk þess tíma. Þetta voru einstakar samkomur á sínum tíma sem stór hluti landsmanna sótti og muna margir sem komu á hátíðina sem unglingar enn eftir þeim. Vinsældir Húsafellsmótanna skýrast ekki síst af því að Vilhjálmur var í hlutverki leiðtogans, dró vagninn áfram og átti stóran þátt í að koma þá lítt þekktum Húsafellsskógi á kortið sem útivistarparadís.

Við undirbúning hátíðarinnar virkjaði Vilhjálmur fólk til þátttöku og fékk aðra með sér í verkefnið. Það var auðvitað ekki sjálfgefið. En Vilhjálmur var ætíð úrræðagóður, hugmyndaríkur og dugmikill hópeflismaður, hann hafði þá sjaldgæfu útgeislun sem þurfti til að höfða til fólks og hafði auk þess kraftinn til að vinna að stórum verkefnum frá upphafi til enda. Hann gaf ætíð mikið af sér, var ætíð drjúgur til að hvetja menn til þátttöku í fjölmörgum verkefnum, hvort heldur var íþróttaiðkun eða í menningar- og menntastarfi fyrir utan eigin afrek á íþróttavellinum sem eru stór þáttur af íþróttasögu landsins.

Við munum ætíð standa í þakkarskuld við Vilhjálm Einarsson, fyrirmynd og leiðtoga, fyrir framlag hans.

Ungmennafélag Íslands sendir fjölskyldu Vilhjálms Einarssonar innilegar samúðarkveðjur.

Fyrir hönd UMFÍ,

Haukur Valtýsson,

formaður.

Það stekkur enginn lengra en hann hugsar kvað Vilhjálmur að sagt hefði verið við sig eitt sinn. Hvort það var áður eða eftir að hann valdi þrístökkið, þríeitt stökk, sem sína íþróttagrein veit ég ekki en vel má færa að því rök að hann hafi bæði hugsað og stokkið öðrum lengra í margvíslegum skilningi um sína daga. Vilhjálmur Einarsson gerðist Borgfirðingur haustið 1960 þegar hann varð kennari við Samvinnuskólann í Bifröst, þá landsþekktur og víðkunnur ólympíufari, silfurmaður í þrístökki. Án frekari málalenginga skal það sagt að sú forsjón átti eftir að reynast Borgfirðingum mikið lán. Skólastjóri Héraðsskólans í Reykholti varð hann svo haustið 1965 þar til hann var kallaður til síns heimahéraðs haustið 1978 sem rektor við nýstofnaðan menntaskóla á Egilsstöðum. Hér verður ekki dvalið við skólamanninn Vilhjálm en það var hann að farsælu ævistarfi. Á Bifrastarárunum hafði hann átt í samstarfi við Æskulýðsnefnd Borgarfjarðar, m.a. í tengslum við sumarbúðastarfsemi fyrir ungmenni sem þeir félagarnir hann og Höskuldur Goði Karlsson starfræktu á þeim árum. En á öðrum vetri Vilhjálms í Reykholti var hann kjörinn sambandsstjóri/stjórnarformaður á ársþingi Ungmennasambands Borgarfjarðar (UMSB) 1967. Á þeim vettvangi lágu leiðir okkar saman; undirritaður reynslulítill en var um svipað leyti kominn í forystusveit síns ungmennafélags innan UMSB. Vilhjálmur var sambandsstjóri UMSB til ársbyrjunar 1973. Ég átti því láni að fagna að deila tveimur síðustu árunum með honum við það stjórnarborð. Var þó ekki íþróttamaður að talist gæti umfram það sem skólaskylda bauð.

Ekki er ofsagt að það hafi orðið þáttaskil í starfsemi UMSB með komu Vilhjálms. Skilyrði var af hans hálfu að ráða mætti framkvæmdastjóra til sambandsins. Slíkt var nýlunda en þykir sjálfsagt æ síðan. Einnig lagði Vilhjálmur til hvernig fjármagna mætti slíkt tiltæki. Allt gekk þetta eftir. Félags- og íþróttastarf efldist. Það gerðist m.a. með samstarfi við stjórnendur grunnskólanna í héraðinu. Þar náðist best til uppvaxandi kynslóðar héraðsins. Þó voru skólarnir flestir vanbúnir með ýmsa aðstöðu í þeim efnum enda nýlegir þá og enn í uppbyggingu; sannast sagna vart nema áratugur frá lokum síðasta farskólans. En allt var á fleygiferð, það sést þegar horft er til baka. Borðtennisborðin sem UMSB færði skólunum var frábær hugmynd við þessar aðstæður.

Fyrsta Húsafellsmótið var haldið strax sumarið 1967 og tókst vel til. Það var fjáröflunarhugmynd Vilhjálms í þágu UMSB en einnig hugsjónamál hans að halda menningarlega fjölskylduhátíð í fallegu umhverfi með fjölbreyttri dagskrá en án áfengis. Mörgum er það hins vegar óljúft að virða slíkar takmarkanir og kostaði ærna fyrirhöfn að hafa hendur í hári slíkra. En sumarhátíðirnar í Húsafelli voru veglegar, fjölsóttar og ekki síst eftirminnilegar þeim sem þær sóttu.

Innilegar samúðarkveðjur til konu Vilhjálms til meira en 60 ára, Gerðar Unndórsdóttur, sona þeirra hjóna og fjölskyldna. Vilhjálms Einarssonar er minnst með virðingu og þökk. Blessuð sé minning hans.

Jón G. Guðbjörnsson.

Haustið 1951 bættist fámennum fjórða bekk Menntaskólans á Akureyri, sem stundum var nefndur Undri, góður liðsauki. Þar á meðal var Vilhjálmur, sem við kölluðum ávallt Villa. Hann hafði lesið námsefni þriðja bekkjar heima á Egilsstöðum. Alltaf var líf og fjör í kringum Villa. Eftir að hann bættist við aðra góða íþróttamenn bekkjarins unnu lið hans nánast allar hópíþróttakeppnir skólans næstu þrjú árin. Við Villi urðum brátt góðir vinir, þrátt fyrir að hann væri afburðaíþróttamaður en ég enginn.

Vorið eftir fjórða bekk bauð Villi mér vinnu með sér við r-steinasteypu, sem faðir hans rak, og unnum við tveir saman þar í nokkrar vikur. En r-steinar voru talsvert notaðir á þeim tíma í veggi bygginga. Naut ég þar fádæma gestrisni foreldra Villa, Sigríðar og Einars. Þau voru meðal frumbyggja í hinu nýstofnaða þorpi Egilsstöðum. Minnisstætt er mér, að Landsmót UMFÍ var haldið á Eiðum á meðan ég dvaldi á Egilsstöðum og vann Villi þar þrístökkið (14,13 m).

Næstu tvo vetur vorum við Villi herbergisfélagar. Margt bar á góma, enda var hann hugmyndaríkur með afbrigðum og voru áhugamál hans mörg. Samvinnuhugsjónin var honum ofarlega í huga ásamt hugsjónum ungmennafélagshreyfingarinnar, sem voru ofarlega á baugi á fyrri hluta tuttugustu aldar. Villi var mjög félagslyndur og hafði brennandi áhuga á uppeldi æskulýðsins. Var hann oft í sambandi við yngstu nemendur skólans og komu þeir stundum í heimsókn á herbergi okkar. Í þessu sambandi má nefna, að seinna sagði hann mér, að þegar hann var að undirbúa sig fyrir keppnina á Ólympíuleikunum í Melbourne 1956 hafi hann heitið því með sjálfum sér, að tækist honum vel upp fyrir land sitt skyldi hann helga líf sitt æskulýð Íslands. Hann stóð svo sannarlega við heit sitt, þar sem hann stýrði seinna bæði mínum gamla skóla í Reykholti og Menntaskólanum á Egilsstöðum frá byrjun.

Villa var mjög annt um bekkinn sinn og var tvisvar fulltrúi hans á stúdentsafmælum. Í fyrra skiptið á 10 ára afmælinu, þá var ég fjarverandi. Hins vegar hitti ég mann á 50 ára afmælinu, sem þá átti 40 ára stúdentsafmæli, og minntist hann þess sérstaklega, hversu glæsilegur fulltrúi okkar hefði verið og góð fyrirmynd, en hann var þá nýstúdent. Í seinna skiptið, á 60 ára afmælinu, flutti Villi frumsamið ljóð til skólans.

Ekki gerðu Villi og foreldrar hans endasleppt í velgjörðum við mig, því að hann bauð mér að dvelja hjá þeim um jólin 1953 í afargóðu yfirlæti.

Að leiðarlokum vil ég fyrir mína hönd og bekkjarins lýsa yfir þakklæti fyrir allt það, sem Villi var okkur. Við vottum Gerði, sonum þeirra og stórfjölskyldunni allri innilega samúð.

Helgi Óskar Sigvaldason.

Látinn er hinn þjóðkunni maður Vilhjálmur Einarsson, fyrrverandi skólastjóri og skólameistari. Þó að hann hafi verið einna kunnastur vegna íþróttaafreka kynntist undirritaður honum ekki á þeim vettvangi. Árið 1979 tókum við báðir við störfum skólameistara, annar austan lands en hinn vestan. Þá fórum við að sitja saman ýmsa fundi, einatt á vegum menntamálaráðuneytis, og varð fljótlega vel til vina. Stundum fannst mér hann, sem var nokkru eldri maður, nánast vilja taka mig undir sinn verndarvæng.

Minnisstæðir eru fundir um málefni heimavistarskóla á landsbyggðinni sem haldnir voru 1982-88, á Laugarvatni, Ísafirði, Sauðárkróki og Egilsstöðum. Eftir Sauðárkróksfund í júní 1986 fékk Vilhjálmur bílfar með mér sem oftar, við héldum þá til Borgarfjarðar og heimsóttum hið ágæta leikritaskáld og þingmann Jónas Árnason. Þar var okkur strax boðið til stofu að horfa á fótbolta í sjónvarpi, og við sáum Maradona hinn argentínska skora frægt mark „með hönd Guðs“ að eigin sögn. Eftir fundinn 1988 á Egilsstöðum ók Vilhjálmur okkur fundarmönnum á gildum jeppa niður í Mjóafjörð og frændi hans og nafni Vilhjálmur Hjálmarsson alþingismaður tók á móti okkur og veitti eftirminnilega leiðsögn um fjörðinn sinn.

Um þetta leyti hafði Skólameistarafélagið verið stofnað, þar var fundað og jafnvel farið í utanlandsferðir. Fundir einkenndust nokkuð af gamanmálum og vísnagerð, en þar var Vilhjálmur mjög liðtækur, einnig fengu menn sér í nefið.

Snemma á 9. áratugnum var undirritaður einn að þvælast á bíl sem bilaði á Austfjörðum. Vilhjálmur liðsinnti mér þá mjög fúslega og við fórum á Rótarý-fund á Egilsstöðum, enda báðir í þeirri hreyfingu.

Í lok mars 1991 komu þau hjónin Vilhjálmur og Gerður í heimsókn til mín í París, en þar var ég í ársleyfi við nám. Ég gat hýst þau og m.a. fórum við lengst upp í Eiffel-turninn og á söfn. Þau höfðu lítt komið til Parísar áður. Um vorið heimsótti ég þau svo í Svíþjóð, við Gautaborg, en þau bjuggu þá þar um tíma.

Það var svo í júlí 1997 að við Anna kona mín vorum í sumardvöl á Austurlandi og hittum Vilhjálm og Gerði fyrir tilviljun í sundlauginni á Egilsstöðum. Þau drifu okkur heim með sér í vöfflur og kjötsúpu og hann gaf okkur að skilnaði fallega mynd eftir sjálfan sig, af þremur rjúpum í vetrarbúningi, og hangir hún síðan uppi hjá okkur. Færni Vilhjálms í myndlist var mjög mikil og alkunn. Eftir þetta hittumst við a.m.k. einu sinni, í október 2012, þá á Eyjafjarðarsvæðinu, og gistum úti á Árskógsströnd ásamt fleirum í skjóli Sveins frá Kálfskinni.

Vilhjálmur Einarsson var einstakt ljúfmenni, frábærlega hjartahlýr og vinur vina sinna. Hæfni hans lá á mörgum sviðum eins og vikið hefur verið að. Gerði, sonum þeirra og öðrum vandamönnum eru hér með sendar einlægar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Vilhjálms Einarssonar.

Björn Teitsson.

Vilhjálmur Einarsson er allur.

Aðrir munu verða til að skrifa um hann sem afreksmann í íþróttum, kennslumálum, uppeldismálum, félagsmálum og sem listamann og glæsimenni.

Ég kenndi undir honum við Menntaskólann á Egilsstöðum, veturinn 1980-1981, félagsfræði, sögu og ensku, er ég var nýkominn heim frá mannfræðinámi í Kanada.

Nú, um starfsævi síðar, sé ég gleggra, við vinnu mína við umönnun á dvalar- og hjúkrunarheimili, að hann hefði ekki getað gert allt þetta án þess að vera að eðlisfari sérlegt góðmenni, víðsýnn, umburðarlyndur, velviljaður, menntaður og hæfileikaríkur.

Ég vil að lokum kveðja hann með dæmigerðum vísum frá mér sem kennara og skáldi. Eru þær opnunarorðin í kvæði sem heitir Bæjarferð frændsystkinanna, og er látið gerast í Grikklandi hinu forna; á gullöld Aþenuborgar. Þar eru heimasæta og ungur hermaður að ræða framtíðarhorfur sínar. Ferst þeim þar svo í byrjun:

Létt í spori, sem um vor

sentust frændkyn ungu:

hún með glettum hafði þor,

saman kvæðin sungu.

Frækinn kappinn tók til máls:

Þetta vil ég sverja:

þótt ég falli senn til stáls,

minning þín mun verja.

Tryggvi V. Líndal.

Vilhjálmi Einarssyni var margt og mikið gefið. Hann var afreksmaður í íþróttum og fyrstur Íslendinga til að komast á verðlaunapall á Ólympíuleikunum. Hann málaði myndir og samdi lög á gítarinn sinn. En mestu varðaði þó að hann var búinn flestum þeim kostum sem prýða bestu manneskjur; vandaður til orðs og æðis, hlýr í viðmóti, umhyggjusamur og umburðarlyndur.

Vilhjálm sá ég í fyrsta sinn á haustdögum 1977 þegar ég hóf nám í Héraðsskólanum í Reykholti. Hann heilsaði öllum nemendum skólaársins með handabandi og bauð okkur velkomin. Hvorugur okkar vissi þá að hann yrði senn ráðinn fyrsti skólameistari Menntaskólans á Egilsstöðum og að við, 11 nemendur úr Reykholti, myndum tveimur árum seinna fylgja honum þangað og verða í hópi fyrstu stúdentanna sem þar voru brautskráðir.

Ég kynntist Vilhjálmi vel á þessum námsárum mínum því ég sat í ýmsum ráðum og nefndum sem kölluðu á samskipti við skólameistara. Það var gott að eiga við hann. Tók hann öllum hugmyndum vel og var ævinlega reiðubúinn að styðja nemendur sína til góðra verka, jákvæður og hjálpfús.

Vilhjálmur átti mestan þátt í að gera Héraðsskólann í Reykholti að virðulegri og vinsælli menntastofnun þar sem manngildi voru í hávegum höfð. Það tókst honum með fulltingi góðs starfsfólks. Vilhjálmi var ekki einungis annt um að skólinn menntaði nemendur sína vel heldur skilaði einnig góðum og heilbrigðum einstaklingum út í lífið aftur. Íþróttauppeldi og annað félagsstarf fékk af þessum sökum mikið vægi.

Á föstudögum kallaði skólastjóri nemendur og kennara á sal. Þaðan eigum við mörg bestu svipmyndina af Vilhjálmi. Þar situr hann með gítarinn sinn og syngur kvæði Davíðs Stefánssonar: Hvaðan komu fuglarnir? við lag eftir sjálfan sig. Hann lék fleiri lög og fékk okkur til að syngja með á milli þess sem hann talaði við okkur um lífsins gagn og nauðsynjar og kom ýmsum skilaboðum á framfæri. Hann var ekki bara skólastjóri heldur einnig góður prédikari.

Ég er, líkt og margir nemendur Vilhjálms, þakklátur fyrir að hafa kynnst honum og átt með honum samleið um árabil. Ég minnist hans með mikilli virðingu og hlýju. Þar fór vandaður og góður drengur sem öllum vildi vel og var fljótur að koma auga á hið besta í hverri manneskju.

Íslensk þjóð hefur nú misst einn af sínum bestu sonum. En mestur er þó missir fjölskyldunnar. Megi allar góðar minningar hugga og styrkja. Vilhjálmur hefur nú haldið til Sumarlandsins fagra þar sem aldrei bregður himneskri birtu. Héðan fylgja honum allar þær fegurstu hugsanir og hið dýpsta þakklæti sem mannlegur hugur getur tjáð!

Eðvarð Ingólfsson.

Kveðja frá Samtökum íslenskra ólympíufara

Vilhjálmur Einarsson er einn mesti afreksmaður Íslands í frjálsum íþróttum. Íslandsmet Vilhjálms í þrístökki, 16,70 m, sett 1960 stendur enn 60 árum síðar en þá jafnaði Vilhjálmur heimsmetið í þrístökki! Fimm sinnum var Vilhjálmur valinn íþróttamaður ársins!

Á Ólympíuleikunum 1956 í Melbourne í Ástralíu gerði Vilhjálmur sér lítið fyrir og setti ólympíumet í þrístökki, 16,26 m, en Brasilíumaðurinn da Silva sló það í sínu síðasta stökki með 16,35 m. Silfurverðlaun Vilhjálms fylltu okkur Íslendinga miklu stolti 12 árum eftir sjálfstæði okkar og hvöttu íþróttafólk okkar til dáða. Þess skal getið að Vilhjálmur fór til Melbourne án þjálfara síns. Þeir voru bara þrír í hópnum. Ásamt Vilhjálmi fóru spretthlauparinn Hilmar Þorbjörnsson og fararstjórinn Ólafur Sveinsson. Vilhjálmur keppti einnig á Ólympíuleikunum í Róm 1960 og varð í fimmta sæti með stökkinu 16,37 m. Seinna sama ár kom svo risastökk Vilhjáms á Laugardalsvellinum, 16,70 m, sem jafnaði heimsmetið!

Ljóst er að Vilhjálmur var með ótrúlegan stökkkraft. Hvernig náði hann þessum stökkkrafti? Var hann með hóp velmenntaðra þjálfara og sjúkraliða og flotta íþróttaaðstöðu. Ekki er hægt að segja það. Sagt er að kraft sinn hafi hann fengið sem ungur maður í erfiðri byggingarvinnu með því að keyra hjólbörur með blautri steypu allan daginn og bera þunga sementpoka. En að sjálfsögðu æfði hann einnig hlaup, stökk og lyftingar. Einn af okkar tugþrautarmönnum, Elías Sveinsson, var spurður af blaðamönnum á Ólympíuleikunum 1976 í Montreal hvort Íslendingar styddu ekki vel við sína afreksíþróttarmenn. Hann svaraði kurteislega að svo væri nú ekki en honum væri reddað plássi á togara öðru hvoru!

Nú er öldin önnur. Afreksíþróttafólk okkar fær ekki líkamsstyrk sinn með erfiðisvinnu á togara, byggingar- eða vegavinnu! Heldur með þrotlausum styrktar- og tækniæfingum undir stjórn hæfra þjálfara. Afreksfólk okkar í sundi og fimleikum æfir fjóra tíma á dag sex daga vikunnar.

Við Íslendingar erum stoltir af íþróttaafrekum Vilhjálms og ættum að minnast hans á veglegan hátt með því að stuðla að bættri aðstöðu ungs afreksfólks til að stunda íþróttir af krafti og án áhyggja af fjármálum sínum og fjölskyldunnar meðan á keppnisferli þeirra stendur og þegar þau hætta keppni. Vonandi munu einhver þeirra standa á verðlaunapalli á Ólympíuleikum eins og Vilhjálmur Einarsson og fylla okkur ánægjulegu þjóðarstolti!

Íþróttaleiðtoginn Benedikt G. Waage sagði að eitt af markmiðum íþróttahreyfingarinnar væri að gera drengi að mönnum og menn að góðum drengjum. Vilhjálmur Einarsson var heiðursmaður og svo sannarlega drengur góður. Vilhjálmur var óumdeildur leiðtogi á sviði íþrótta- og skólamála.

Við í Samtökum íslenskra ólympíufara kveðjum félaga okkar Vilhjálm Einarsson með virðingu og vottum eiginkonu hans Gerði Unndórsdóttur og sonum þeirra hjóna; Rúnari, Einari, Garðari, Hjálmari og Sigmari svo og fjölskyldum þeirra og vinum okkar innilegustu samúð. Minningin um ólympíufarann og afreksmanninn Vilhjálm Einarsson lifir!

Jón Hjaltalín Magnússon.

Það er skrýtið að hugsa til þess að fyrir fáum vikum sat ég hjá afa að skrifa niður lögin hans en nú sé hann horfinn.

Það var alltaf gaman að vera með afa og fylgjast með því sem hann gerði og ævintýralegt að koma í hús afa og ömmu í Útgarði 2 á Egilsstöðum, inni á milli trjánna sem þau ræktuðu sjálf, með kjallarann með risastóra heita pottinum beint á álfaklöppinni og hömrunum fyrir ofan húsið. Afi gaf sig að okkur barnabörnunum og talaði mikið við okkur, lék, söng og spann sögur. Bollurnar hans voru líka ljúffengar.

Afi málaði mikið og það var fastur liður að prófa að mála hjá honum. Hann vildi sýna mér alvörutækni, enda hafði hann lært af Kjarval og í háskóla. Afi var mjög listfengur og spilaði líka á gítar og samdi lög við mörg ljóð. Hann var rómantískur í hugsun og hafði smekk fyrir list sem dró fram fegurð náttúrunnar og tilfinningar og kjör mannanna. Hann hafði líka djúpa ást á landinu sem sést á myndefni hans og ljóðavali.

Hann hreykti sér aldrei af listinni, en fyrir honum átti hún að auðga daglegt líf og hvetja til dáða. Hann flutti lög sín, eða, eins og hann hugsaði það e.t.v. frekar, ljóð skáldanna, og andi skáldsins var þá fluttur inn í stofuna eins og fjöllin á veggina. Lögin eru mörg þekkt í fjölskyldunni og hafa oft verið sungin á mannamótum. Amma söng stundum með afa, t.d. lagið Uppi á brekkubrún við texta afa. Undanfarið hef ég skráð lög afa eftir honum, sum kunnugleg, önnur óflutt. Því miður náðist ekki að klára verkið áður en afi dó, en afi var feginn að ná að rifja upp með mér lög sem annars hefðu gleymst.

Við afi fórum saman í sund, í bústaðinn sem afi byggði við Skrugguvatn og að Haugatjörnum að veiða með augu fyrir beitu! Afi var nýtinn, brenndi t.d. mjólkurfernur í arninum og lét það ekki á sig fá þótt matur væri gamall og ókræsilegur og virtist ekki hljóta illt af heldur. Bústaðurinn á Skrugguvatni var einfaldur í sniðum, enda hefur afa fundist þar vera lúxus hjá því sem var í kofanum hjá Kjarval forðum.

Eitt sinn fórum við að kaupa bíl og ég fann Mitsubishi L300 útbúinn sem húsbíl, mjög spennandi að mér fannst. Afi var efins en sannfærðist þar sem ég sótti það fast og keypti bílinn! Ég undrast að afi hafi látið mig ráða þessu, en bíllinn reyndist vel.

Það var dýrmætur tími þegar við afi gistum í Hveragerði er hann hélt sýningu í Eden sumarið 1998 og sváfum í tjaldvagninum, sem afi hafði notað til að flytja málverkin að heiman. Fyrir svefninn var afi auðvitað tilbúinn með langa loftnetssnúru til að ná heimsfréttum á stuttbylgjunni, sem hann sofnaði gjarnan við. Hann fylgdist vel með heimsmálum og hafði oft áhyggjur af þeim.

Afi lét sig okkur varða, þótti vænt um sitt fólk, land og þjóð og heiminn sinn og sýndi það með umhyggju fyrir fjölskyldunni og ötulu starfi í þágu samfélagsins, einkum uppbyggingu ungmenna.

Fyrir allar þær yndislegu stundir sem ég hef átt með afa þakka ég Guði og bið að minning afa vaki meðal okkar sem þekktum hann og barna okkar og að við megum um síðir hitta hann aftur og syngja með honum í eilífðarríkinu.

Kristján Rúnarsson.

Villi Einars frændi hefur verið í lífi mínu frá því ég man eftir mér. Ég var fjögurra ára þegar hann heimsótti frænku sína og okkur pabba á Njálsgötuna, nýkominn frá Melbourne. Hávaxinn og bjartur færði þjóðhetjan litlu fjölskyldunni minjagrip – bláan ólympíuöskubakka sem fylgdi búslóðinni lengi og ég stúderaði af kostgæfni. Svo leið tíminn.

Leiðir okkar Villa lágu þétt saman næstu árin; á Egilsstöðum, í sumarbúðum hans í Hveragerði og Reykholti. Frændi minn treysti mér fyrir stóru hlutverki í kynningarkvikmynd sinni um sumarbúðirnar, sem var meira að segja sýnd í Tjarnarbíói.

Það var á Egilsstöðum sem Villi varð minn fyrsti vinnuveitandi, þegar hann réð okkur Baldur frænda okkar sem hjólböruekla fyrir sand í rörasteypu sem Villi stýrði. Við frændur, þá sjö og átta ára, vorum í akkorði og fengum 25 aura á hverjar börur, sem okkur þótti töluverð uppgrip.

Það var alltaf kraftur í lofti þar sem Villi var og hann og Gerður höfðu mikil og langvarandi áhrif á ungan frænda. Ófáar heimsóknir í fallega húsið á Egilsstöðum, þar sem bæði var rætt og sungið, ylja mér enn um hjartaræturnar.

Ein heimsóknin skar sig þó frá hinum. Hinn íslenski Þursaflokkur var á hljómleikaferðalagi í febrúarmánuði 1982. Á Egilsstöðum bættust í hópinn Ágúst Guðmundsson kvikmyndaleikstjóri og undirritaður, til að skeggræða gerð kvikmyndar í burðarliðnum. Veður voru válynd og ófært á tónleikabæinn Seyðisfjörð þennan dag. Ákveðið var að aka rakleiðis um Fagradal og svo ströndina, suður í Hornafjörð, í Skógaskóla og svo til Reykjavíkur. Skyndilega varð ljóst að enginn kassagítar var með í för. Ég fór beint til Villa og Gerðar og falaði heimilisgítarinn í nokkra daga og svo flygi hann austur aftur. Villi var ekki heima og Gerður fól mér gítarinn, sem alla jafna var óspart notaður á heimilinu. Þetta hefðu ekki allir gert.

Það skipti engum togum að um leið og rútan rann úr hlaði var tekið til óspilltra málanna að gera atlögu að tónlist fyrir kvikmyndina sem til stóð að gera á sumri komanda. Ég greip gítar frænda míns í fang um leið og ákveðið var að semja lag og texta um franskar kartöflur og kokteilsósu. Til að gera langa sögu stutta slitnaði strengur í gítarnum þegar ekið var framhjá Rauðavatni þremur dögum síðar. Villagítarinn skilaði einum fimm eða sex lögum sem urðu hluti af tónlistarhryggstykki Með allt á hreinu. Það síðasta var samið á Mýrdalssandi og heitir Slá í gegn. Takk Gerður og Villi!

Þessi lög hefðu ekki orðið til eins og þau urðu, nema fyrir gítarinn góða sem mér var treyst fyrir þennan svala febrúardag. Við Ásta Kristrún hittum Villa og Gerði á síðasta vori í Hveragerði þegar sonur þeirra Garðar Vilhjálmsson kom þangað á tónleika hjá okkur.

Eins og alltaf urðu fagnaðarfundir og við minntumst upphafs skólunar minnar hjá honum sem var einmitt í Hveragerði. Á tónleikunum söng ég „Vorið kemur, heimur hlýnar hjartað mitt“ fyrir minn góða frænda og grunaði ekki að ég ætti eftir að syngja það fyrir hann síðasta sinn í Hallgrímskirkju.

Valgeir Guðjónsson.

Það er sérkennilegt að missa föður sinn. Sorgin er mikil. En sorg við missi á öldruðum föður getur ekki verið slæm. Maður syrgir af því maður saknar. Og maður saknar aðeins þeirra sem reynst hafa manni vel. „Það jákvæða við að missa sinn föður er að maður gerir það bara einu sinni gæskur.“ Eitthvað þessu líkt hefði pabbi sagt mér nú til huggunar. Pabbi var einstaklega ráðagóður og sá tvær hliðar á flestu. Ráðagóður án þess að vera ráðríkur.

Þegar ég kom í heiminn var pabbi 39 ára skólastjóri, hættur í keppnisíþróttum rúmum áratug fyrr og ekki man ég eftir pabba oft í íþróttagalla. Þrátt fyrir glæstan íþróttaferil og að hafa sjálfur gengið menntaveginn var ekki lagt að mér að feta í þau fótspor.

Manni voru lagðar lífsreglurnar á mjög svo almennum nótum. Þessi skilyrðislausa ást og væntumþykja pabba er ein mín verðmætasta gjöf.

Myndlist var pabba hugleikin og eftir hann liggja falleg verk. Hann lék á gítar og samdi lög, og þá aðallega við þekkt ljóð annarra en hann skilur einnig eftir sig ágætar vísur. Í allmörg ár upp úr 1980 sá hann um fastan viðtalsþátt í Ríkisútvarpinu, „Úr Austfjarðaþokunni“. Hann skrifaði nokkrar bækur og gaf m.a. út „Silfurmanninn“ sem er eigin saga af íþróttaferlinum. Og einhvern veginn tókst honum að baka heimsins bestu heilhveitibollur án þess að fara eftir uppskrift.

Eftir stendur minning sonar um listmálara, bakara o.fl., fremur en minning um íþróttahetju. Í seinni tíð er sterkasta minningin hve mikla natni hann sýndi sonum mínum.

Fáa hef ég hitt sem eru jafn vel inni í heimsmálum líðandi stundar og pabbi var. Hann nálgaðist álita- og hitamál af mikilli yfirvegun. „Það eru tvær hliðar á öllum málum gæskur,“ sagði hann gjarnan þegar ég varð uppvís að sleggjudómum. Pabbi var maður rökhyggju, hann leitaði að kjarna máls og niðurstaðan sjaldnast kippt og skorin.

Árið 1954 heldur pabbi til náms í Dartmouth College í New Hampshire-ríki í Bandaríkjunum, þá tvítugur að aldri, og lauk þaðan BA-prófi í listasögu tveimur árum síðar. Þessi ár voru tími umróts í Bandaríkjunum; pólitískar ofsóknir McCarthyismans í hámarki og aðskilnaðarstefnu kynþáttanna framfylgt af hörku.

Það var ekki fyrr en hin síðari ár að ég fór að velta því fyrir mér að hve miklu leyti lífssýn pabba hefði mótast af námsárum hans í Bandaríkjunum. Pabbi jánkaði því nýverið að námsárin ytra hefðu mótað hans sýn á tilveruna, en bætti við að keppnisferðirnar sem fylgdu í kjölfarið, m.a. til A-Evrópu á tímum kalda stríðsins, hefðu einnig haft áhrif á hann. Þegar Bandaríkin bar á góma nefndi hann stundum að þar væri það besta í heimi að finna á mörgum sviðum, en einnig margt af því versta. Pabbi var víðsýnn og stökk ekki á vagn síbyljunnar.

Pabbi var trúaður maður á sinn hátt. Mikið langar mig að trúa á líf eftir dauðann. Ég veit hvað rökhyggjan segir elsku pabbi minn, en mundu að fátt er klippt og skorið gæskur.

Mig styrk í stríði nauða,

æ styrk þú mig í dauða.

Þitt lífsins ljósið bjarta

þá ljómi' í mínu hjarta.

(Páll Jónsson)

Hjálmar Vilhjálmsson.