Hrafnhildur Þórdís Pálmadóttir fæddist í Reykjavík 29. desember 1949. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 20. desember 2019.

Foreldrar hennar voru Pálmi Guðmundsson, verzlunarmaður og heildsali, f. 7. desember 1921, d. 18. október 1999, og Kristín Guðmundsdóttir, f. 8. maí 1921, d. 13. október 1972.

Systkini Hrafnhildar eru Guðmundur Yngvi Pálmason rafvirkjameistari, f. 28. júlí 1952 og Hólmfríður Aðalbjörg Pálmadóttir kennari, f. 11. apríl 1958.

Hrafnhildur giftist Einari Einarssyni rafvirkjameistara 17. maí 1969.

Börn Hrafnhildar og Einars eru: 1) Drengur Einarsson, nefndur Pálmi, f. 9. ágúst 1969, d. 10. ágúst sama ár. 2) Stúlka Einarsdóttir, nefnd Klara, f. 7. ágúst 1971, látin sama dag 1971. 3) Einar Kristinn Einarsson múrari, f. 26. september 1973. Unnusta Einars Kristins var Halldóra Anna Hafliðadóttir. Þau skildu. Dætur þeirra eru Hrafnhildur Brynja, f. 28. júní 1994 og Ásdís Birta Einarsdóttir, f. 11. maí 1998. 4) Kristín Björg Einarsdóttir hagfræðingur, f. 12. apríl 1976. Eiginmaður Kristínar er Haukur Þórðarson arkitekt, f. 29. febrúar 1972. Synir þeirra eru Alexander Einar, f. 24. desember 1999, Sólon Þórður, f. 3. september 2008 og Oliver Krummi, f. 6. júlí 2011. 5) Elín Dröfn Einarsdóttir, geislafræðingur og læknanemi, f. 12. júlí 1986. Unnusti Elínar Drafnar er Jonas Himmelev Carlsen forritari, f. 30.12. 1980.

Útför Hrafnhildar fór fram í kyrrþey 30. desember 2019.

Elsku mamma mín. Nú er baráttunni lokið og þó svo að þú sért farin máttu aldrei halda að þú hafir tapað henni. Þú ert sú mesta hetja og nagli sem ég hef á ævi minni hitt. Þú barðist og vannst, þó svo að lífið endaði. Ég er svo stolt af því að hafa fengið að styðja þig og vera til staðar þínar síðustu vikur og það er mér heiður að hafa verið þér við hlið er þú kvaddir. Söknuðurinn er sárari en orð fá lýst og nú verð ég að læra að lifa lífinu án þín. Það verður erfitt en ég skal reyna mitt besta, því þú hefðir aldrei tekið annað í mál. Sorgin er víst það sem maður borgar fyrir kærleikann. Þú varst minn aðalstuðningsmaður í öllu, hvort sem það var samkvæmisdans eða þrotlaus vinna að því markmiði að komast inn í draumanámið, og ég þakka þér fyrir það. Ég fann gömul textaskilaboð frá þér en þar varstu að hvetja mig áfram í átt að draumanáminu mínu. Í þeim stóð: „En ef það gengur ekki, þá er bara að reyna aftur. Ekki missa móðinn, þú kemst inn, trúðu mér, þú getur allt sem þú ætlar þér. Þú ert gullið mitt.“

Vá mamma, hvað ég er ánægð að eiga þessi skilaboð eftir allan þennan tíma og þú hafðir rétt fyrir þér; aldrei missti ég móðinn og ég komst inn!

Takk fyrir að hafa alltaf trú á mér. Þú reyndir heldur aldrei að stoppa mann í því sem maður vildi. Ég flutti til Danmerkur 22 ára og ég vissi að þú vildir ekki að ég færi. Þú hvattir mig samt áfram.

Þú sagðir að það væri verk foreldra að hvetja börnin sín áfram og ekki stoppa þau í að lifa lífinu. Það er skilyrðislaus ást mamma mín.

Við vorum samt ekki alltaf sammála, því þú vildir hafa mig fína og sæta í kjólum þegar ég vildi vera í buxum og peysu. Manstu eftir fjólubláa kjólnum sem stakk mig? Ég fékk bara nærbol undir því í kjólnum átti ég að vera. Líka þegar ég var í dansinum, þá vorum við ósammála um ýmislegt, en það varst þú sem hrópaðir manna hæst þegar við unnum gullið. Ég heyrði í þér alla leið út á dansgólf þegar nöfnin okkar voru lesin síðust. Ég náði aldrei að segja þér það, en þetta er falleg minning að eiga nú þegar þú ert ekki lengur hér.

Við áttum erfiða tíma saman og góða og ég þakka fyrir þá alla, því að þeir voru með þér. Núna fá hin systkini mín að njóta þín á himnum, það var kominn tími til að þau fengju að kynnast þér. Mamma, ég elska þig og aldrei gleyma því. Eins og ég sagði við þig: ég er hér og ég fer ekki neitt, ég vil hvergi annars staðar vera. Þar til við sjáumst á ný.

Þín dóttir,

Elín Dröfn.

Elsku mamma.

Fimmtudagurinn 12. desember 2019 mun mér seint úr minni hverfa.

Við áttum dásamlega stund á líknardeildinni þar sem kór Kársnesskóla söng og það var svo fallegt að upplifa þessa jólastund með þér. Ég átti flug heim sama dag, kom upp í flugstöð nokkrum mínútum fyrir brottför og hljóp hraðar en ég hef nokkurn tíma gert til þess að ná fluginu.

Ég vissi að þú vildir að ég kæmist heim til strákanna okkar til að eyða með þeim aðventunni.

Ég vissi að þú vildir að ég næði heim til að aðstoða pabba þegar hann kæmi.

Ég vissi að þú vildir að ég virti ákvörðun ykkar pabba.

Og á meðan beiðst þú í sterkum örmum Ellu og þeirra sem hana studdu.

Takk Ella, fyrir að hafa passað upp á mömmu.

Ég passaði upp á pabba. Því það var það sem þú vildir, mamma.

Elsku mamma.

Mínar æskuminningar um þig eru öll lögin sem þú kenndir mér að syngja sem barni. Þau ótal skipti sem þú kenndir mér að valhoppa á mismunandi vegu vítt og breitt um götur Reykjavíkur. Þau ótal skipti þegar við fórum saman í dótabúðir og skoðuðum allar fínu dúkkurnar og létum okkur dreyma. Þegar vondi kallinn í Miðtúninu reyndi að stela mér og þú hélst mér í faðmi þínum og passaðir mig í lögreglubílnum. Þegar þú sannfærðir mig um að það væri nauðsynlegt að klippa hárið reglulega til að fá fallegt og heilbrigt hár eftir að ég missti mikinn hluta hársins eftir atvikið með vonda kallinum. Þau ótal skipti þegar við gengum Laugaveginn saman og ég fékk að hoppa niður af öllum þrepum sem á vegi mínum urðu. Þegar þú útskýrðir fyrir mér öskupoka sem hengdur var á húfuna mína í bæjarferð á öskudag. Þegar þú hvattir mig áfram í öllu því sem ég tók mér fyrir hendur.

Elsku mamma.

Á seinni árum eru minningar mínar um þig svo margar. Og þær eiga það flestar sameiginlegt að vera litaðar af minningu um stuðning og traust. Það var sama hvað maður leitaði til þín með; þú hafðir svör og ráð við öllu. Svör og ráð sem fengu mann til að hugsa sjálfstætt og finna lausnina.

Þú varst einstök manneskja, manneskja fárra en hnitmiðaðra orða.

Orða sem alltaf leiddu mig áfram að markmiðinu, hvöttu mig og studdu.

Margar af mínu bestu minningum um þig eru þau ótal ferðalög við fórum í saman og ég nú nýt þeirra forréttinda að rifja upp. Og ekki síst hversu góð amma þú varst ömmustrákunum þínum. Það sem þú gast lesið með þeim og sungið með þeim. Leiðbeint þeim og kennt á uppbyggilegan hátt. Það var ekki af engu að þeir grétu sig í svefn og söknuðu ömmu og afa í þau ótal skipti sem þið ferðuðust heim aftur eftir samverustund með okkur í Kaupmannahöfn og þegar við snerum heim eftir heimsókn til Íslands.

Elsku mamma.

Hetjulegri og óvæginni baráttu þinni er lokið og fyrir mér stendur þú uppi sem sigurvegari.

Elsku mamma.

Nú er sá tími sem við ræddum stundum um að einhvern tíma myndi koma orðinn að veruleika.

Tíminn þegar þú hittir börnin þín tvö sem þú misstir sem ung kona.

Systkin mín sem ég aldrei hitti, sem þú kenndir mér að elska frá því ég man eftir mér.

Við ræddum um hve þessir endurfundir yrðu litaðir blendnum tilfinningum, gleði og missi.

Ég hefði gjarnan viljað hafa þig lengur. En á sama tíma er ég svo glöð að systkini mín fái nú að kynnast þér og njóta.

Ég sé þig fyrir mér, umvafin englum.

Og veistu hvað, þú átt það skilið, svo njóttu.

Virðing og ást að eilífu.

Þín

Kristín. mbl.is/andlat

Yndislega amma mín, þú ert farin.

Á þessum erfiðu tímum veit ég að þú ert nú á mun betri stað þar sem þú lítur niður til okkar allra og brosir með kærleika. Fyrir það er ég þakklátur.

Ég elska þig endalaust og það vita mínir nánustu, alveg eins og þau vita öll hvað þú varst einstök og frábær.

Það besta við brotthvarf þitt er að nú getur þú meira en bara hugsað til okkar.

Nú getur þú líka horft á okkur frá himnum, fylgst með okkur og verið með okkur í okkar lífi.

Það er það besta við að vita að þú nú hvílir á himninum.

Ég gleymi aldrei ferðunum okkar saman.

Sama hvort um var að ræða skrepp út í búð eða ferð til útlanda, þinn félagsskapur var alltaf skemmtun fyrir mér. Ég gleymi heldur aldrei stoltinu sem ég fann fyrir þegar ég gat kynnt mig sem barnabarnið þitt í skólanum þar sem þú varst að kenna.

Þú varst sá kennari sem allir virtu mest og elskuðu. Þess naut ég að verða vitni að sem lítill drengur. Í þeim ótal ferðum sem þú tókst mig með í skólann leið mér alltaf eins og ég væri mesti töffarinn á svæðinu því ég var strákurinn hennar ömmu.

Á ákveðnu tímabili þegar sjúkdómur þinn hafði tekið yfir vissi ég innst inni að þú áttir ekki mikið eftir.

En ég neitaði að viðurkenna það. Ég vildi ekki viðurkenna það.

Í mínu síðasta símtali við þig þegar ég var nýfarinn til Asíu sagðirðu: „Alexander minn, við sjáumst bráðum.“ Og ég svaraði keikur: „Já amma, það gerum við sko.“

Að þessi draumur okkar beggja yrði að veruleika vissum við bæði innst inni að væri tæpt.

En við vildum ekki viðurkenna það því við steingeitur viljum jú fá okkar fram.

Þú varst tilbúin að fara. Ég trúi því, því ég sá og upplifði hvað þú hafðir náð miklu í þínu lífi.

Á tímum sem þessum eru mér efst í huga síðastliðin ár og þeir aðfangadagar sem við áttum saman. Þegar ég sá þakklætið í brosinu þínu þegar þú leist yfir hópinn þinn við jólaborðið.

Þá vissi ég og sá, amma, að þú varst sátt með þitt.

Ég segi takk. Takk fyrir að gefa mér ömmu eins og Hrafnhildi. Takk fyrir að leyfa mér að upplifa þig, þessa einstöku konu.

Og að endingu, takk amma, takk fyrir að vera þú.

Ég kveð þig með reisn.

Þinn alltaf,

Alexander Einar.

Þegar einhver fellur frá

fyllist hjartað tómi

en margur síðan mikið á

í minninganna hljómi.

Á meðan hjörtun mild og góð

minning örmum vefur

þá fær að hljóma lífsins ljóð

og lag sem tilgang hefur.

Ef minning geymir ást og yl

hún yfir sorgum gnæfir

því alltaf verða tónar til

sem tíminn ekki svæfir.

(Kristján Hreinsson)

Þegar ég kveð þig, kæra Habba systir, er þakklæti efst í huga mér. Ég var heppin að eiga þig að sem systur, þú stóðst með mér í blíðu og stríðu. Fljótlega fórstu, níu árum eldri en ég, að gæta mín og sinna mér með ýmsum hætti. Þú vildir t.d. að ég færi að læra að dansa rúmlega þriggja ára gömul. Foreldrum okkar þótti ég þá fullung til þess, en þú hafðir þitt fram. Á hverjum laugardegi fórstu því með mig í strætó hvernig sem viðraði niður á Hlemm og gengum þaðan upp á Snorrabraut í Dansskóla Hermanns Ragnars. Í byrjun var ég smeyk við að stíga út á stóra dansgólfið, en þú hjálpaðir mér þá að taka mín fyrstu dansspor.

Við deildum herbergi saman þar til þú fluttir að heiman. Þér fannst einhvern tímann að dúkkudótið mitt væri óþarflega fyrirferðarmikið. Þú sannfærðir mig þá um það að sumar dúkkurnar væru puntudúkkur og ættu því að vera áfram í umbúðunum – best geymdar á efstu hillunum. Nokkrar þeirra eru enn óhreyfðar í kössunum!

Þegar fermingardagur minn nálgaðist var móðir okkar orðin mikið veik. Þú tókst þá að þér að fara í bæinn með mér að kaupa fermingarföt. Ég vildi að kjóllinn minn væri blár, en þú vildir hafa hann rauðan. Eftir samninga varð niðurstaðan sú að kjóllinn og kápan yrðu blá, en skórnir bláir og rauðir. Þú varst útlærð hárgreiðslukona. Fermingargreiðsluna sást þú um okkur báðum til ánægju.

Mikið var lagt á þig á skömmum tíma um þetta leyti. Á fjórum árum og innan við 23 ára aldur misstir þú tvö börn, tengdaföður og síðan móður okkar, meira en margur reynir á lengri ævi. Síðar eignuðust þið Einsi mágur þrjú yndisleg börn auk tengdabarna og barnabarna, sem öll hafa staðið sig með sóma.

Eftir fæðingu yngri dóttur minnar veiktist ég illilega. Þú komst heim til mín og áttaðir þig á ástandi mínu áður en ég eða nokkur annar gerði það. Með þrautseigju tókst þér að koma mér á sjúkrahús til að fá læknishjálp. Á meðan ég lá þar og eftir að ég kom heim sinntir þú börnum mínum þremur. Það er þér og þinni hjálp að þakka að ég er lifandi nú og er til frásagnar um viðbrögð þín.

Við vorum ekki alltaf sammála, en þá vorum við sammála um að vera ekki sammála. Sumir skildu ekki alveg samband okkar en á milli okkar var sterkt og ósýnilegt band. Við þurftum oft engin orð til að tala saman. Í þögn og með augnsambandi gátum við skilið hvor aðra. Því kom það iðulega fyrir að eiginmenn okkar horfðu á okkur spurnaraugum og veltu fyrir sér um hvað samtal okkar Höbbu snerist. Þeir vissu ekki neitt, en við allt og hlógum þá dátt.

Við kvöddumst alltaf með því að hvísla kveðju hvor að annarri. Nú kveð ég, Adda syss, þig þannig í síðasta sinn með hlýjum hug og þökk í hjarta: „Bless Habba syss – systur alltaf og að eilífu.“

Hólmfríður Aðalbjörg Pálmadóttir.