[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
EM 2020 Víðir Sigurðsson vs@mbl.is Fimm ár eru liðin síðan Íslendingar og Danir hafa mæst á stórmóti karla í handknattleik. Það var í Doha í Katar í janúarmánuði 2015 þegar liðin áttust við í sextán liða úrslitum og Danir höfðu betur, 30:25.

EM 2020

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Fimm ár eru liðin síðan Íslendingar og Danir hafa mæst á stórmóti karla í handknattleik. Það var í Doha í Katar í janúarmánuði 2015 þegar liðin áttust við í sextán liða úrslitum og Danir höfðu betur, 30:25.

Með þeim leik lauk þátttöku íslenska liðsins á mótinu en Danir héldu áfram og höfnuðu að lokum í fimmta sæti eftir að hafa fallið naumlega út gegn Spánverjum í átta liða úrslitum.

Frá þeim tíma hefur dregið í sundur með liðunum. Danir hafa verið nær ósigrandi síðustu ár. Þeir eru ríkjandi heims- og ólympíumeistarar, unnu einmitt síðarnefnda titilinn undir stjórn Guðmundar Guðmundssonar árið 2016 og eru eitt þeirra liða sem eru líklegust til að fara alla leið á mótinu.

Á meðan hefur Ísland endað í ellefta og fjórtánda sæti á tveimur heimsmeistaramótum og ekki komist í milliriðil á tveimur Evrópumótum.

Danir hafa því líklega sjaldan eða aldrei þótt sigurstranglegri í leik gegn Íslendingum á stórmóti en fyrir leikinn í Malmö í dag, sem hefst klukkan 17.15 að íslenskum tíma.

Þegar flautað verður til leiks verður viðureign Ungverja og Rússa, hinna tveggja liðanna í riðlinum, nýlokið í sömu höll. Sá leikur hefur að sjálfsögðu gríðarlegt vægi en Ísland mætir Rússlandi á mánudag og Ungverjalandi á miðvikudag. Aðeins tvö liðanna komast áfram í milliriðil og því verður nánast hvert einasta mark mikilvægt í öllum sex viðureignunum þeirra á milli í riðlinum.

Ef allt fer eftir bókinni vinna Danir þægilegan sigur í E-riðlinum en innbyrðis leikir Íslendinga, Rússa og Ungverja ráða úrslitum um annað sætið. Takist hinsvegar íslenska liðinu að koma Dönum í opna skjöldu í dag mun sú staða gjörbreytast. Það er vel þekkt frá stórmótum að sterku liðin hiksti í byrjun en séu síðan illviðráðanleg, rétt eins og þegar Króatar urðu heimsmeistarar árið 2003 eftir að hafa tapað fyrir Argentínu í fyrstu umferðinni.

Þetta er í fimmtánda sinn sem Ísland og Danmörk mætast á EM, HM eða Ólympíuleikum frá árinu 1961 en Danir hafa unnið níu af fjórtán viðureignum til þessa. Ísland hafði síðast betur í mótsleik á EM í Austurríki árið 2010, sigraði 27:22 í leik sem kom liðinu heldur betur á sigurbraut og það stóð að lokum uppi með bronsið. Danir unnu hinsvegar stórsigra í leikjum þjóðanna á HM 2013 (36:28) og EM 2014 (32:23), auk áðurnefnds leiks í Katar 2015.

Ísland hefur aðeins unnið Dani þrisvar í þessum fimmtán mótsleikjum. Árið 2010, og svo var það stórsigurinn, 25:16, á HM í Sviss 1986 og 27:22 á HM í Svíþjóð 1993. Liðin skildu jöfn í tveimur gríðarlegum spennuleikjum, 28:28 á EM 2006 í Sviss og 32:32 á Ólympíuleikunum í Peking. Þá er ónefndur magnaður leikur liðanna í átta liða úrslitum HM í Þýskalandi árið 2007 þegar Danir sigruðu 42:41 eftir framlengingu og Ísland missti á grátlegan hátt af sæti í undanúrslitum.