Orðið mannskaðaveður er ekki í málinu að ástæðulausu

Á Íslandi getur verið allra veðra von og það ber að taka bókstaflega. Undanfarið hefur verið sérstaklega umhleypingasamt og veðrið verið þannig að rétt er að fara að öllu með gát.

Þótt sagt sé að veðrið sé óútreiknanlegt hafa vísindin dregið nokkuð úr óvissunni þannig að hægt er að segja fyrir um óveður með nokkurri vissu. Fyrir kemur að veðrið er verra í spám en raunveruleikanum, en það gildir einu þegar taka þarf mark á næstu spá.

Það er engin tilviljun að orðið mannskaðaveður er í málinu. Hér er veðrið stundum þannig að það getur beinlínis verið hættulegt að vera á ferli, ekki síst fjarri byggð, og er jafnvel ekki hættulaust um hávetur þótt ekkert sé að veðri.

Á þetta ætti reyndar ekki að þurfa að minna, svo augljóst er það. Dæmin sýna hins vegar að ekki ræður skynsemin alltaf för og það er full ástæða til þess að hamra á því að ekki sé ráðlegt að bjóða óblíðum náttúruöflunum byrginn þegar þau eru í ham.

Í vikunni lenti hópur 39 ferðamanna í hrakningum við rætur Langjökuls og var hætt kominn. Ferðalangarnir voru á vegum ferðaþjónustufyrirtækisins Mountaineers of Iceland og var lagt með þá í ferð að jöklinum þrátt fyrir að spáð væri illskuveðri.

Í gær lentu fjórar rútur í hremmingum vegna óveðurs og illrar færðar. Alvarlegasta slysið var við Blönduós. Þar hvolfdi rútu með námsmönnum um borð. Verður að vona að þar hafi ekki farið illa.

Ekki hefur verið farið ofan í saumana á því sem gerðist í ferðinni að Langjökli en ljóst er að teflt var á tæpasta vað. Fólkið í hópnum var skelfingu lostið og margir óttuðust hreinlega um líf sitt. „Við teljum að fyrirtækið hafi sýnt af sér vanrækslu og að það hefði aldrei átt að fara í þessa ferð,“ sagði einn ferðamannanna í hópnum í samtali við mbl.is.

Annar úr hópnum, Richard Gonsalves, skrifaði mbl.is bréf þar sem hann sagði að hann hefði verið sá síðasti sem var bjargað og hann hefði þurft að bíða í meira en ellefu klukkustundir úti í óveðrinu. Gonsalves gróf sig í fönn ásamt samferðamönnum. Þegar björgunarsveitirnar fundu hópinn þurfti fólkið að haldast í hendur og mynda keðju til að ganga 50 metra að farartækjum björgunarmanna. „Þetta var það líkamlega erfiðasta sem ég hef nokkru sinni upplifað,“ skrifaði Gonsalves.

Fyrirtæki í ferðaþjónustu bera mikla ábyrgð. Margir þeirra erlendu ferðamanna, sem hingað koma, hafa aldrei verið úti í ósnortinni náttúru. Alla sína ævi hafa þeir verið í manngerðu umhverfi. Þeir hafa engar forsendur til að meta aðstæður. Þegar þeir kaupa ferð ætlast þeir til að séð sé um þá frá upphafi til loka. Það hvarflar ekki að þeim að þeir geti verið að leggja sig í hættu.

Fyrirtæki í ferðaþjónustu þurfa ekki bara að gá til veðurs. Dauðsföll ferðamanna við köfun í Silfru í Þingvallavatni vöktu óhug og sýndu nauðsyn eftirlits og strangra reglna þegar boðið er upp á áhættuferðir. Öryggi er mikilvægara en aurar.

Athyglisvert var að sjá í Morgunblaðinu á fimmtudag að hvorki Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra né Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtakaferða þjónustunnar, eru þeirrar hyggju að herða þurfi kröfur til fyrirtækja í ferðaþjónustu um öryggi. Reglur gagnast hins vegar lítið ef ekki er farið eftir þeim. Aukið eftirlit með þeim, sem veita ferðaþjónustu, gæti orðið þungt í vöfum og kostnaðarsamt. Vonandi er ástandið ekki þannig að grípa þurfi til úrræða vegna fárra sem eru íþyngjandi fyrir alla. Þess vegna þurfa viðurlög við því að fara ekki eftir reglum um öryggi að vera ströng og afdráttarlaus.

Hér er orðspor ferðaþjónustu á Íslandi vitaskuld í húfi en mikilvægast er að tefla ekki mannslífum í hættu; lífi ferðamanna, lífi leiðsögumanna, lífi ökumanna og lífi björgunarmanna.