Tryggvi Felixson
Tryggvi Felixson
Eftir Tryggva Felixson: "Stjórn Landverndar styður stofnun hálendisþjóðgarðs sem framfaraskref fyrir þjóðina og náttúruvernd en telur að lagfæra þurfi framlagða tillögu."

Áhugafólk um náttúruvernd fagnaði þegar ríkisstjórnin setti sér markmið um að stofna þjóðgarð á miðhálendi Íslands. Undirbúningur hefur gengið hratt og vel. Nú eru komin fram drög að frumvarpi um þetta framfaramál. Stjórn Landverndar styður heilshugar stofnun hálendisþjóðgarðs og telur að það yrði afar jákvætt skref fyrir íslenska þjóð og verndun íslenskrar náttúru. En það þarf að gera nokkrar lagfæringar á þeirri tillögu að frumvarpi sem fram er komin.

Rétt er að benda á að reynslan af þjóðgörðum á Íslandi hefur almennt verið góð og rannsóknir benda til að þeir hafi jákvæð áhrif á nærliggjandi sveitarfélög og þjóðarhag. Þau sveitarfélög sem hafa reynslu af samstarfi við þjóðgarð virðast almennt jákvæð gagnvart slíkri starfsemi, enda hefur þess verið gætt að hafa samráð og samvinnu þegar teknar eru stefnumarkandi ákvarðanir. Aldrei er þó hægt að gera öllum til hæfis í friðlýsingarmálum frekar en öðrum þjóðþrifamálum. Allir þurfa að sýna sveigjanleika til að skapa viðunandi sátt.

Að mati stjórnar Landverndar eiga markmið þjóðgarðs fyrst og fremst að vera verndun landslags, víðerna, náttúru- og menningarminja og endurheimt raskaðra vistkerfa. En einnig nýting þessa verðmæta náttúruarfs með sjálfbærum hætti. „Sjálfbærni“ ber að hafa að leiðarljósi við hefðbundna nýtingu, eins og veiðar og sauðfjárbeit, innan þjóðgarðs á miðhálendinu. Þá þarf að gæta varfærni við vegabætur og við gerð mannvirkja fyrir ferðamenn innan þjóðgarðs á hálendinu svo þær spilli ekki landslagsheildum og sannri hálendisupplifun.

Varhugavert er, svo ekki sé sterkar til orða tekið, að heimila stórframkvæmdir eins og orkuvinnslu innan þjóðgarðs á hálendi Íslands, enda yrði það ekki í samræmi við alþjóðleg viðmið og samþykktir Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna (IUCN), sem jafnan hefur verið litið til við friðlýsingar á Íslandi. Manngerð stórkarlaleg virkjunarsvæði við eða á hálendinu ber að skilgreina sem jaðarsvæði sem lúta sérstökum reglum svo starfsemi þar spilli ekki sjálfum þjóðgarðinum.

Við skipan í stjórn hálendisþjóðgarðs er heillavænlegra að hafa fagþekkingu stjórnarmanna að leiðarljósi fremur en hagsmunatengsl þeirra. Þá þarf að gæta jafnræðis meðal landsmanna við skipan í stjórn svo hálendisþjóðgarður standi undir nafni sem sameiginlegur garður þjóðarinnar.

Varðandi mörk þjóðgarðsins ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að hann nái til ríkisjarða sem ná inn á hálendið, en ekki einungis þjóðlendna eins og fram kemur í drögum að frumvarpi. Með þeirri viðbót yrðu Hraunin, einstakt svæði á austanverðu hálendinu, innan marka þjóðgarðsins.

Stjórn Landverndar styður því stofnun hálendisþjóðgarðs en mun beita sér fyrir því að framangreind sjónarmið nái fram að ganga nú þegar málið er komið til umfjöllunar á pólitískum vettvangi.

Höfundur er formaður Landverndar.

Höf.: Tryggva Felixson