Seltjarnarnes Tekið á móti viðurkenningu um jafnlaunavottun.
Seltjarnarnes Tekið á móti viðurkenningu um jafnlaunavottun.
Seltjarnarnesbær fékk nýverið staðfestingu á vottuðu jafnlaunakerfi hjá Jafnréttisstofu og tók við viðurkenningu þess efnis nú í byrjun janúar frá faggiltum vottunaraðila, iCert ehf.

Seltjarnarnesbær fékk nýverið staðfestingu á vottuðu jafnlaunakerfi hjá Jafnréttisstofu og tók við viðurkenningu þess efnis nú í byrjun janúar frá faggiltum vottunaraðila, iCert ehf.

Lögum samkvæmt bar fyrirtækjum og stofnunum með 250 eða fleiri starfsmenn skylda til að hafa öðlast vottun á jafnlaunakerfi fyrir 31. desember 2019. Seltjarnarnesbær er með fyrstu sveitarfélögum til að öðlast þessa vottun, segir í tilkynningu.

Samhliða vinnu við innleiðingu jafnlaunakerfisins aflaði Seltjarnarnesbær jafnlaunaúttektar frá PwC á Íslandi þar sem framkvæmd var nákvæm greining á stöðu launamála eftir kyni. „Niðurstaða þeirrar úttektar var að óútskýrður kynbundinn launamunur hjá Seltjarnarnesbæ mælist nú 1,1% konum í vil.

Með innleiðingu jafnlaunastaðalsins hefur Seltjarnarnesbær komið sér upp gæðastjórnunarkerfi sem á að tryggja jafnan rétt, jöfn laun og sömu réttindi og kjör fyrir sömu eða jafn verðmæt störf óháð kyni. Enn fremur að málsmeðferð og ákvörðun í launamálum byggist ávallt á málefnalegum sjónarmiðum og geti þannig fyrirbyggt beina og óbeina launamismunun kynjanna,“ segir m.a. í tilkynningu frá Seltjarnarnesbæ.

Starfshópurinn sem stýrði innleiðingunni fyrir hönd bæjarins var skipaður þeim Öldu Gunnarsdóttur, stjórnsýslu- og launafulltrúa, Hervöru Pálsdóttur verkefnastjóra, Róberti Bernhard Gíslasyni, verkefnastjóra gæðakerfis, og Stefáni Bjarnasyni mannauðsstjóra.