Nína Þórdís Þórisdóttir fæddist 12. janúar 1936 í Reykjavík. Hún lést 15. desember 2019 á Vífilsstöðum.

Foreldrar hennar voru Jón Þórir Tryggvason loftskeytamaður, fæddur 26. mars 1903 á Seyðisfirði, dáinn 6. júlí 1954, og Sigþrúður Helgadóttir húsfreyja, fædd 12. nóvember 1915 í Reykjavík, dáin 26. maí 1978.

Eiginmaður Nínu var Ketill Þorsteins Pétursson trésmiður, fæddur 15. ágúst 1933, dáinn 29. maí 1998. Þau gengu í hjónaband 1. desember 1963. Nína starfaði sem flugfreyja hjá Flugfélagi Íslands og síðar sem skrifstofumaður hjá Domust Medica og Fiskistofu.

Systkini Nínu voru Friðrik Þórisson, fæddur 23. september 1934, dáinn 17. nóvember 2003, Tryggvi Þórisson, fæddur 29. júní 1951, Ingimar Haukur Ingimarsson, fæddur 6. september 1943, og Guðmundur Snorri Ingimarsson, fæddur 22. febrúar 1948, dáinn 14. ágúst 2019.

Börn Nínu og Ketils eru Inga Sigþrúður Ketilsdóttir, fædd 28. maí 1964, og Kristín Elfa Ketilsdóttir, fædd 9. júní 1971.

Útförin fór fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

Í hjarta mínu er hátíð.

Hver hugsun og tilfinning mín

verða að örsmáum englum,

sem allir fljúga til þín.

Þeir ætla að syngja þér söngva

og segja þér, hvað þú ert góð –

og eigir sál mína alla

og alt mitt hjartablóð.

(Davíð Stefánsson)

Elsku mamma mín, ég kveð þig með ást og söknuði. Takk fyrir allt sem þú kenndir mér og allar minningarnar sem þú skilur eftir. Hvíl í friði.

Þín

Kristín.

Nú hefur hún Nína mín kvatt okkur. Nína, sem ég hef þekkt alla mína ævi. Nína, sem alla tíð var mér sem önnur móðir. Nína, sem tók þátt í uppeldi mínu. Nína, sem alltaf sýndi mér óendanlega umhyggju og kærleika. Nína, sem átti, og mun alla tíð eiga, svo stóran stað í hjarta mínu.

Lífsgöngu hennar lauk hinn 15. desember síðastliðinn. Andlátið kom manni kannski ekki beint í opna skjöldu. Síðustu misseri hefur líkamlegri heilsu hennar smám saman verið að hraka. Samt sem áður er maður ætíð óviðbúinn lokakallinu. Tómleiki hellist yfir og það er alltaf eitthvað sem er ósagt og ógert.

Í hjarta mínu mun ég ávallt geyma allar góðu minningarnar sem tengjast Nínu; æskuna, jólin á Dalbrautinni, heimsóknirnar, símtölin og kaffihúsahittingana.

Með miklum söknuði kveð ég elsku Nínu mína, en jafnframt með innilegu og djúpu þakklæti fyrir að vera svo gæfusöm að hafa átt hana að og hafa notið þeirra forréttinda að alast upp sem hluti af stórfjölskyldunni á Dalbrautinni.

Fyrir það er ég óendanlega þakklát.

Hafðu þökk fyrir allt. Hvíl í friði.

Elsku Inga Sigga og Kristín, við Geir sendum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Birna Jóhannesdóttir (Bidda).

Þú fæddist á sunnudegi og þú fórst frá okkur á sunnudegi, afmælið þitt í ár er sunnudaginn 12. janúar 2020.

Það er svo margt að segja, ég sakna þess að halda í hlýju höndina þína, heyra þig hlæja, tala við þig.

Ég hef elskað þig frá því ég man eftir mér, ég hef elskað þig af öllu hjarta allt mitt líf og á milli okkar er sterk taug sem getur ekki slitnað, þú ert besti vinur minn, þú ert mamma, fallega blíða mamma mín.

Ég hef reynt að endurgjalda þér ástina og umhyggjuna sem þú baðaðir mig í allt mitt líf, en ég var ekki hjá þér þegar þú fórst að morgni sunnudagsins 15. desember síðastliðins og það hryggir mig svo ósegjanlega.

Mínar fyrstu minningar eru allar tengdar þér, alveg frá fyrstu tíð var ég límd við þig og vildi hvergi annars staðar vera en með þér og pabba.

Þetta segir kannski eitthvað um hvernig foreldar þið pabbi voruð; þau albestu sem hugsast gat, þið vöktuð yfir okkur systrum og vernduðuð, þið skilduð okkur aldrei við ykkur, við vorum hvert öðru allt.

Við fórum saman í ferðalög og stundum eitthvað í dagsferðir og síðar vorum við mikið í sumarbústaðnum ykkar á meðan pabbi var á lífi en við fundum okkur ekki þar eftir að hann lést, það var ekki það sama.

Við tókum því upp á því að ferðast saman, alveg sérstaklega síðustu ár, og við nutum þess mjög.

Við höfum séð margt, gert margt og átt fjölmargar góðar stundir, þessar minningar eru dýrmætar, tíminn okkar saman er hinn raunverulegi auður.

Hér hvílast þeir, sem þreyttir göngu luku

í þagnar brag.

Ég minnist tveggja handa, er hár mitt struku

einn horfinn dag.

Ó, guðir, þér, sem okkur örlög vefið

svo undarleg.

Það misstu allir allt, sem þeim var gefið,

og einnig ég.

Og ég sem drykklangt drúpi höfði yfir

dauðans ró,

hvort er ég heldur hann, sem eftir lifir,

eða hinn, sem dó?

(Steinn Steinarr)

Tíminn læknar segir fólk, tíminn læknar ekki hjartasár, tíminn læknar ekki neitt, þú lærir bara að þrauka.

Elsku mamma mín, ég þakka þér fyrir allt, samveru, vináttu þína og ást.

Guð blessi þig og varðveiti.

Inga

Sigþrúður.