Enn einu sinni mætast Íslendingar og Danir á stórmóti karlalandsliða í handbolta þegar flautað verður til leiks í Malmö í dag klukkan 17.15 að íslenskum tíma.
Enn einu sinni mætast Íslendingar og Danir á stórmóti karlalandsliða í handbolta þegar flautað verður til leiks í Malmö í dag klukkan 17.15 að íslenskum tíma. Ekki auðveld byrjun fyrir okkar menn en ekkert verra svo sem að mæta Dönum í fyrsta leik fyrst liðið dróst gegn heims- og ólympíumeisturum á annað borð.

Um tíma fannst manni eins og þessi lið gerðu furðu oft jafntefli. Íslenska liðið var búið að ofdekra mann með þeim hætti að manni þótti þau úrslit ekkert spes. Í dag myndi maður þiggja jafntefli fyrir hönd íslenska liðsins, þar sem Danir eru orðnir óþarflega góðir.

Liðin gerðu jafntefli á EM í Sviss 2006 og aftur á Ólympíuleikunum í Peking tveimur árum síðar. Í millitíðinni mættust þau í 8-liða úrslitum á HM 2007. Þá var einnig jafnt eftir venjulegan leiktíma en eftir tvær framlengingar höfðu Danir betur. Á þessum árum og fram til 2010 má finna fimm vináttulandsleiki þessara liða þar sem jafntefli varð niðurstaðan. Við þetta má auðvitað bæta því að Danir náðu jafntefli á ótrúlegan hátt gegn Íslendingum í B-keppninni í Austurríki 1992.

Tíðni jafntefla í leikjum liðanna er undarlega há en kannski verða leikir oft jafnir þegar taug er á milli þjóða og leikmanna. Síðustu árin hafa liðin mæst á stórmótum af og til. Þá hafa Danir haft betur og unnið nokkuð örugga sigra. Því þarf að breyta.

Ég á þó ekki von á því að sú verði raunin í dag enda er íslenska liðið enn í uppbyggingarferli. En ég væri forvitinn að vita hvernig leikur á milli þessara þjóða myndi fara eftir tvö til þrjú ár. Ef ég hefði aðgang að gömlum gráum DeLorean myndi ég kanna málið.