Vestlendingar Fulltrúar björgunarsveitanna á Vesturlandi, Magnús Magnússon ritstjóri Skessuhorns lengst til hægri.
Vestlendingar Fulltrúar björgunarsveitanna á Vesturlandi, Magnús Magnússon ritstjóri Skessuhorns lengst til hægri. — Ljósmynd/Sumarliði Ásgeirsson
Björgunarsveitarfólk er Vestlendingar ársins 2019 skv. vali sem Skessuhorn – fréttaveita Vesturlands stóð að nú í 21. skipti. Leitað var tilnefninga íbúa á Vesturlandi og var niðurstaðan afgerandi.

Björgunarsveitarfólk er Vestlendingar ársins 2019 skv. vali sem Skessuhorn fréttaveita Vesturlands stóð að nú í 21. skipti. Leitað var tilnefninga íbúa á Vesturlandi og var niðurstaðan afgerandi. Magnús Magnússon, ritstjóri Skessuhorns, afhenti fulltrúum allra níu björgunarsveitanna á Vesturlandi blóm og viðurkenningarskjal við athöfn í Landnámssetri Íslands á dögunum. Því fylgdu þau orð að björgunarsveitarfólk hefði á liðnu ári sýnt hve mikilvægt starf þess er fyrir samfélagið allt. Hinn sanni björgunarsveitarmaður sé ávallt reiðubúinn til aðstoðar og leitar, að nóttu sem degi, leggi á sig ómældan fjölda vinnustunda við æfingar, fjáraflanir, leit og björgun á sjó og landi.

Samkvæmt tölfræði sem Slysavarnafélagið Landsbjörg heldur utan um eru á fimmta hundrað virkir björgunarsveitarmenn á Vesturlandi. 469 björgunarsveitarmenn, af svæði 4 og 5, mættu í samtals 5.709 útköll frá 1. janúar 2014 til loka árs 2019. Það gerir að meðaltali 12,2 útköll á hvern mann.

Rólegt framan af ári

Framan af árinu 2019 var fremur rólegt hjá björgunarsveitarmönnum á Vesturlandi en það átti eftir að breytast. Undir lok árs fór stór hópur af Vesturlandi til dæmis til leitar- og björgunarstarfa á Norðurlandi í kjölfar óveðursins sem þar gekk yfir. Milli jóla og nýárs hófst svo leit að manni sem saknað er í Hnappadal.