Umhugsunarefni fyrir Sjálfstæðisflokkinn

Sú var tíðin að verkaskiptingin á vettvangi íslenzkra stjórnmála var mjög skýr. Sjálfstæðisflokkur sá um hagsmuni atvinnulífsins, Framsóknarflokkur um fyrirtæki samvinnuhreyfingarinnar og Alþýðuflokkur og Kommúnistaflokkur Íslands/Sameiningarflokkur alþýðu – Sósíalistaflokkur/Alþýðubandalag töldust málsvarar verkalýðshreyfingarinnar.

Á dögum kalda stríðsins varð hins vegar sú breyting á, að Sjálfstæðisflokkurinn lagði stóraukna áherzlu á starf innan verkalýðshreyfingarinnar og var á Viðreisnarárunum kominn í þá stöðu, að sjálfstæðismenn voru annar stærsti hópurinn á þingum Alþýðusambands Íslands.

Nú er þetta allt gjörbreytt og tími til kominn að horfast í augu við það og þá jafnframt að horfa til þeirra tækifæra, sem kunna að felast í þeim breytingum.

Samfylking og VG, sem eru arftakar fyrrnefndra vinstriflokka, hafa gjörbreytt sínum áherzlum. Hvorugur flokkanna leggur áherzlu á hin gömlu tengsl við verkalýðshreyfinguna og geta ekki lengur talizt sérstakir málsvarar hennar á hinum pólitíska vettvangi. Að einhverju leyti hefur þetta gerzt vegna breytinga í innra starfi flokkanna, þar sem félagar úr verkalýðshreyfingunni hafa dregið sig í hlé en háskólaborgurum hefur fjölgað, og hins vegar vegna nýrra áherzlna.

Samfylkingin einblínir nú á eitt markmið; að koma Íslandi inn í Evrópusambandið, og VG leggur í sínum málflutningi alla áherzlu á loftslagsmálin.

Þetta þýðir, að hinar vinnandi stéttir, sem er kannski nútímalegri skilgreining á þeim hópum sem um er að ræða en orðið verkalýður, eiga sér ekki lengur neina sérstaka málsvara á hinum pólitíska vettvangi. Þetta finnur Ragnar Þór, formaður VR, og hefur þess vegna hreyft hugmyndum um aukin pólitísk afskipti launþegafélaganna.

Áþekkar breytingar hafa orðið í öðrum löndum. Í nýafstöðnum þingkosningum í Bretlandi vakti framgangur Íhaldsflokksins í fyrrverandi vígi Verkamannaflokksins í kjördæmum í norðausturhluta Englands sérstaka athygli.

Það er ljóst að tilviljun ein réð því ekki. Íhaldsflokkurinn lagði sérstaka áherzlu á að ná til fyrrverandi kjósenda Verkamannaflokksins, sem voru búnir að gefast upp á honum. Hið sama hefur gerzt hjá fleiri flokkum jafnaðarmanna í Evrópu. Þar hefur tilhneiging fyrrverandi kjósenda slíkra flokka verið að snúast til fylgis við svokallaða „pópúlíska“ flokka á hægri kantinum.

Eftir þennan kosningasigur leggja talsmenn Íhaldsflokksins nú mikla áherzlu á að flokkurinn verði að sýna þessum sömu kjósendum í norðausturhéruðum Englands að flokkurinn kunni að meta stuðning þeirra með því að standa við kosningaloforðin.

Flokkur fólksins hér hefur gerzt málsvari þeirra, sem minna mega sín, svo sem öryrkja og þeirra hópa aldraðra, sem minnst hafa úr að spila.

En – „hinar vinnandi stéttir“ virðast munaðarlausar í pólitískum skilningi um þessar mundir.

Á sama tíma stendur flokkurinn, sem fyrir rúmri hálfri öld var orðinn annar stærsti verkalýðsflokkur landsins, frammi fyrir því að hafa misst um helming af fylgi sínu, þ.e. Sjálfstæðisflokkurinn, og þarf á því að halda að finna sér nýjan farveg.

Á viðreisnarárunum voru sjálfstæðisfélög, sem einbeittu sér sérstaklega að starfi innan verkalýðssamtakanna, mjög virk. Það hefur dregið verulega úr þeirri virkni og sjaldgæft að fundahöld eða samþykktir þeirra sjálfstæðisfélaga veki sérstaka athygli. Raunar má hið sama segja um ungliðastarfsemi innan flokksins, sem fyrr á tíð var mjög öflug og skilaði sér í sterku fylgi flokksins meðal yngstu kjósendanna.

Í gamla daga gerðu pólitískir andstæðingar lítið úr kjörorði Sjálfstæðisflokksins – stétt með stétt.

En kannski eru rökin fyrir því skýrari nú en nokkru sinni fyrr. Það liggur í augum uppi, að hagsmunir einkarekinna fyrirtækja og starfsmanna þeirra fara saman. Um leið og harðnar á dalnum neyðast einkarekin fyrirtæki til að segja upp fólki en hið sama á ekki við um hið opinbera, sem hefur komizt upp með að fara sínu fram í skjóli skattpeninganna. Að vísu vekja uppsagnir hjá Seðlabanka Íslands athygli nú.

Í ljósi þess að þingkosningar verða á næsta ári, sem í tilviki Sjálfstæðisflokksins snúast að óbreyttu um það hvorum megin 20% fylgis flokkurinn verður, er ekki fráleitt að halda því fram, að sá veruleiki að bæði Samfylking og VG hafa misst tengsl við þá kjósendahópa, sem teljast til vinnandi stétta, ætti að verða til þess að Sjálfstæðisflokkurinn einbeiti sér að því að endurheimta fyrri stöðu sína, sem „verkalýðsflokkur“.

Eitt af því, sem mun auðvelda flokknum það, er eindregin andstaða við aðild að Evrópusambandinu. Hinar vinnandi stéttir hafa fyrir löngu áttað sig á því að slík aðild er þeim ekki til framdráttar. Að vísu veldur afstaða þingmanna Sjálfstæðisflokksins til orkupakka 3 þeim kjósendahópum eins og öðrum vonbrigðum, en vonandi stendur það til bóta.

Fyrsta skrefið í átt til þess að Sjálfstæðisflokkurinn höfði til þessa kjósendahóps sérstaklega er að stórauka félagsstarf þeirra sjálfstæðisfélaga, sem frá fyrri tíð hafa fjallað um og rætt um hagsmunamál launþega sérstaklega. Þau félög þurfa að verða sýnilegri og umræður á þeirra vegum opnari.

Næsta skref er svo að hefja markvissan málflutning um hagsmunamál þessara kjósendahópa, eins og brezki Íhaldsflokkurinn gerði með góðum árangri í kosningunum þar fyrir skömmu.

Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is