Secret Solstice Jafnan er mikil stemning á tónlistarhátíðinni í Laugardal.
Secret Solstice Jafnan er mikil stemning á tónlistarhátíðinni í Laugardal. — Morgunblaði/Arnþór Birkisson
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Borgarráð hefur samþykkt drög að samningi við Lifandi viðburði (LV) um tónleikahald í Laugardal í júní 2020, sólstöðuhátíðina Secret Solstice. LV skal tryggja að gestafjöldi fari ekki yfir 20 þúsund manns.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Borgarráð hefur samþykkt drög að samningi við Lifandi viðburði (LV) um tónleikahald í Laugardal í júní 2020, sólstöðuhátíðina Secret Solstice. LV skal tryggja að gestafjöldi fari ekki yfir 20 þúsund manns.

Þessi hátíð hefur verið haldin í Laugardal nokkur undanfarin ár við mismikla hrifningu íbúa í nágrenninu. Það var almennt viðhorf að hún hefði gengið með besta móti sumarið 2019.

Samkvæmt samningnum fær LV aðstöðu í Laugardalnum dagana 26.-28. júní í sumar að uppfylltum skilyrðum sem fram koma í samningnum. Um er að ræða Þróttarvöllinn og nágrenni og svæði við Þvottalaugar fyrir barnastarf og svið. Tónleikar hefjast klukkan 15 á föstudeginum en klukkan 13 laugardag og sunnudag. Þeim skal ljúka klukkan 23:30 öll kvöldin. Hljóðprufur mega ekki hefjast fyrr en klukkan 10 dag hvern.

Samkvæmt samkomulaginu skal reynt að takmarka sem mest umferð um grassvæði í dalnum og lagður verði dúkur þar sem ágangur tónleikagesta verður mikill.

Aldurstakmark er 18 ár nema í fylgd með forráðamanni. Vegna áfengiskaupa þarf að framvísa skilríkjum og kaupa armband sem veitir gestum heimild til að kaupa áfengi.

Reykjavíkurborg mun styrkja hátíðina um átta milljónir króna. Er það gert á þeim forsendum að hún höfði meira til fjölskyldufólks en verið hefur.

Við afgreiðslu málsins í borgarráði á fimmtudaginn lagði Kolbrún Baldursdóttir, áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins, fram bókun þar sem hún vildi bíða með afgreiðslu málsins þar til fyrir lægi niðurstaða viðhorfskönnunar meðal íbúa. „Allir voru sammála um að betur gekk 2019 en 2018 enda mun meiri fyrirbyggjandi vinna viðhöfð. Engu að síður komu upp 40 fíkniefnamál og umsögn barst frá Þrótti að tónleikahald á grassvæðinu undanfarin ár hefði skemmt völlinn og var sagt að svæðið væri í raun ekki hæft undir keppni í knattspyrnu í kjölfar hátíðarinnar,“ bókaði Kolbrún m.a.

Fulltrúar meirihlutaflokkanna í borgarráði bókuðu að verið væri að vinna úr viðhorfskönnun sem fór fram í nóvember sl. Samningsdrögin gerðu ráð fyrir umfangsmiklu samstarfi tónleikahaldara og borgarinnar. „Solstice-hátíðin gekk afar vel á síðasta ári og mun ganga enn betur eftir því sem samtal, upplýsingagjöf og samstarf eykst.“

Talið er að um tólf þúsund manns hafi verið á Secret Solstice-hátíðinni í fyrrasumar. Í viðtölum við stjórnarmenn í Íbúasamtökum Laugardals í fjölmiðlum kom fram að fólk var fremur ánægt með hátíðina það árið. Var m.a. vísað í facebookhópinn „Langholtshverfi – 104“ þar sem rúmlega hundrað athugasemdir voru settar við færslu þar sem spurt var um upplifun íbúa. „Þar voru allir bara rosa kátir og ánægðir nema einn,“ var haft eftir stjórnarmanni í samtökunum.

Fái ókeypis vatnssopa

Sú nýlunda verður á hátíðinni í ár að tónleikagestir fá aðgang að endurgjaldslausu vatni. Er það í samræmi við samþykkt borgarráðs í fyrrahaust. Ekki er búið að útfæra með hvaða hætti þetta verður gert.

Gott aðgengi að endurgjaldslausu vatni á tónlistarhátíðum er talið mikilvægt vegna skaðaminnkunarsjónarmiða. Það tryggi öryggi gesta, standi vörð um þeirra líkamlegu og andlegu heilsu og stuðli að jákvæðri útkomu viðburða fyrir gesti og umhverfi.