Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Umboðsmaður skuldara fékk færri umsóknir um aðstoð vegna fjárhagsvanda á nýliðnu ári en á árunum á undan. 1.127 umsóknir bárust á árinu, sem er 270 umsóknum færra en á árinu 2018.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Umboðsmaður skuldara fékk færri umsóknir um aðstoð vegna fjárhagsvanda á nýliðnu ári en á árunum á undan. 1.127 umsóknir bárust á árinu, sem er 270 umsóknum færra en á árinu 2018. Kemur þetta fram á minnisblaði sem birt er á vef umboðsmanns skuldara.

Sara Jasonardóttir, verkefnisstjóri fræðslu- og kynningarmála hjá umboðsmanni skuldara, segir að umsóknum um greiðsluaðlögum hafi aftur á móti lítið fækkað. Ekki er hægt að sjá þróun einstakra verkþátta embættisins vegna þess að flokkun umsókna var breytt síðastliðið haust. Fólk sækir nú um aðstoð vegna fjárhagsvanda og metur síðan í samráði við starfsfólk hvaða úrræði henti best. Sara segir að þetta sé gert til gera kerfið skilvirkara.

36% umsækjenda í yngsta hópi

Aldurshópur umsækjenda hefur breyst mjög á undanförnum árum og um leið ástæður fjárhagsörðugleika. Þannig hefur fólki í yngsta hópnum, 18-29 ára, fjölgað mjög og var orðinn 36% allra umsækjenda í nóvember. Á árinu 2018 voru rúmlega 27% umsókna frá fólki á þessum aldri.

„Við sjáum ennþá töluvert mikla fjölgun í þessum aldursflokki. Skyndilánin eru það eina sem við getum skýrt það með,“ segir Sara. Umboðsmaður skilgreinir lán sem tekin eru á vefsíðum eða með notkun forrita í farsímum sem skyndilán. Þar á meðal eru lán smálánafyrirtækja, Netgíró, Pei og fleiri lánamöguleikar.

Umboðsmaður skuldara hefur getað aðstoðað marga úr þessum hópi með ráðgjöf og samningum um greiðslur. Stundum er eina ráðið að fresta greiðslum og athuga hvort ekki rætist úr hjá fólki.

Aftur á móti hefur umsóknum um fjárhagsvanda vegna húsnæðisskulda fækkað mjög. Sara segir að ekki séu mörg slík mál í gangi.

16 þurftu ekkert að borga

Um áramót voru 46 umsóknir um greiðsluaðlögun í vinnslu hjá embættinu. Eftir var að taka afstöðu til þess hvort samþykkja eigi umsókn eða synja. Þá var um áramót 41 mál í virkri vinnslu hjá umsjónarmönnum embættisins.

Af þeim málum sem lokið var hjá umsjónarmönnum á árinu náðust samningar í 77 málum. Fimm lauk með nauðasamningi. Að meðaltali gáfu kröfuhafar eftir 70% krafna í þessum samningum sem að meðaltali eru til rúmlega 16 mánaða. Samið var um eftirgjöf allra krafna í 16 málum.