Samninganefnd Eflingar gagnvart Reykjavíkurborg hefur samþykkt tillögu um vinnustöðvun sem áætlað er að hefjist í febrúar.

Samninganefnd Eflingar gagnvart Reykjavíkurborg hefur samþykkt tillögu um vinnustöðvun sem áætlað er að hefjist í febrúar. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir í samtali við Morgunblaðið að viðmót Reykjavíkurborgar hafi verið með þeim hætti að ákveðið hafi verið að fara þessa leið. Borgin hafi í raun sýnt starfsfólki sínu á lægstu laununum vanvirðingu með framkomu sinni.

Samninganefndin hefði því verið mjög samhent og samstíga þegar hún komst að þessari niðurstöðu.„Það er einróma niðurstaða okkar að við gætum ekki lengur dregið það að hefja undirbúning aðgerða,“ segir Sólveig. Hefur nefndin óskað eftir fundi hjá ríkissáttasemjara næstkomandi fimmtudag.

Sólveig segir að nefndin muni tilkynna strax eftir helgi hvenær kosningin hefjist. „Ég er algjörlega fullviss um að yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem taki þátt í atkvæðagreiðslunni muni samþykkja að farið verði í aðgerðir,“ segir Sólveig.

Harpa Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Reykjavíkurborgar, sagði í samtali við Morgunblaðið að samþykkt Eflingar hefði ekki enn verið kynnt fyrir nefndinni og vildi ekki tjá sig fyrr en það yrði gert. Bjóst hún við að í kjölfarið yrði farið yfir stöðuna og komist að því hvað bæri þar i milli.

rosa@mbl.is