Samstarfsaðili Juneyao Air leitar nú samstarfsaðila svo félagið geti selt til evrópskra áfangastaða frá Helsinki.
Samstarfsaðili Juneyao Air leitar nú samstarfsaðila svo félagið geti selt til evrópskra áfangastaða frá Helsinki. — Ljósmynd/Tang Xiaozhang
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Gunnlaugur Snær Ólafsson gso@mbl.is Á miðvikudag tilkynnti kínverska flugfélagið Juneyao Air formlega að það myndi í marsmánuði hefja sölu til áfangastaða í Evrópu.

Baksvið

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Á miðvikudag tilkynnti kínverska flugfélagið Juneyao Air formlega að það myndi í marsmánuði hefja sölu til áfangastaða í Evrópu. Félagið sjálft mun hins vegar aðeins fljúga til Helsinki á meðan samstarfsaðilar munu fljúga með farþega félagsins þaðan, segir í umfjöllun Reuters. Þá hafa fulltrúar Icelandair og Juneyao Air átt í viðræðum um mögulegt samstarf sem myndi fela í sér flutning á farþegum, sem flogið hafa með Juneyao frá Sjanghæ til Helsinki, áfram til Keflavíkur. Engar ákvarðanir hafa þó verið teknar að svo stöddu, samkvæmt svari Icelandair við fyrirspurn Morgunblaðsins.

Sagt var frá því í Fréttablaðinu í október að Juneyao Air hygðist hefja beint flug til Íslands með viðkomu í Helsinki. Juneyao telur hins vegar ekki fært að sjá um þann hluta flugsins sjálft og leitar nú til flugfélaga innan Evrópu um samstarf, sérstaklega innan þeirra landa sem félagið hyggst selja flug til. „Við vitum að við þurfum á samstarfi að halda. Við þurfum alþjóðlega samstarfsaðila,“ hefur Reuters eftir Zhao Hongliang, forstjóra Juneyao.

Fjölgun farþega

Icelandair hefur í áraraðir flogið í áætlunarflugi milli Helsinki og Keflavíkur auk þess sem Finnair hefur þjónustað þessa leið. Í heild flugu 227 þúsund farþegar frá Helsinki til Keflavíkur í fyrra sem er 10,4% fjölgun borið saman við árið 2018, samkvæmt tölum Finavia, sem rekur flugvöllinn í Helsinki. Frá árinu 2013 hefur farþegum frá höfuðborg Finnlands fjölgað um tæplega 168 þúsund eða 281%. Ekki er ljóst hver hlutdeild Icelandair er og kveðst flugfélagið ekki gefa upp hver markaðshlutdeild þess sé á einstökum mörkuðum.

Farþegar frá Helsinki til Kína voru um 659 þúsund á síðasta ári sem er 18,1% fjölgun frá 2018, en finnski flugvöllurinn hefur orðið miðstöð fyrir flug frá Evrópu til Asíu vegna hagstæðra samninga Finnlands og Rússlands um flug um rússneska lofthelgi. Meðal annars flugu tæplega 837 þúsund farþegar frá Helsinki til Japans árið 2019 og 419 þúsund til Taílands.

Aukin umsvif þrátt fyrir tap

Juneyao hefur aukið umsvif sín frá árinu 2018 þegar félagið fékk fyrstu Boeing 787-þotuna afhenta. Félagið hóf í júní í fyrra flug milli Helsinki og Sjanghæ. Eru nýju fyrirætlanir félagsins hluti af miklum stækkunaráformum í Asíu og Evrópu og er fyrsti áfanginn að selja flug frá Sjanghæ til Manchester, Dublin og Keflavíkur með millilendingu í Helsinki.

Fyrirætlanir kínverska flugfélagsins koma í skugga tapreksturs kínverskra flugfélaga á lengri leggjum og nam tap þeirra 3,2 milljörðum bandaríkjadala, jafnvirði 395 milljarða íslenskra króna, árið 2018. „Við myndum ekki hefja nýtt alþjóðlegt flug í blindni, frekar byggja á yfirvegun og mati, og taka ákvarðanir á grundvelli getu okkar og markaðsaðstæðna,“ segir Hongliang.