Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson: Finna má í fjósi þann. Flón má kalla þennan mann. Aftan í bílnum hangir hann. Húsviðbygging vera kann.

Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson:

Finna má í fjósi þann.

Flón má kalla þennan mann.

Aftan í bílnum hangir hann.

Húsviðbygging vera kann.

Þessi er lausn Guðrúnar Bjarnadóttur:

Hún setti kálf í krók í fjósi,

en kálfur var hún sjálf,

þó timbri í kálfi æki að Ósi.

Þar á að reisa kálf.

Eysteinn Pétursson svarar:

Vera í fjósi kálfur kann.

Kálf má nefna heimskan mann.

Kálfi má aftan í krækja bíl.

Kálf við hús má byggja í stíl.

Helgi R. Einarsson leysir gátuna þannig:

Á 13.-num þar og hér

þjóta um grundir álfar,

en nú fyrir augu okkar ber

allra handa kálfar.

Húsdýr er KÁLFUR og kerra,

kofi, frekar en höllin.

Frónbúum finnst þó verra:

Þeir finnast við Austurvöllinn.

Helgi lét limruna „Rím“ fylgja sinni lausn:

Þumbaðist við og þorði,

þorði rímar við borði.

Enginn veit hvurt,

en b-ið fauk burt

og borði orðinn að orði!

Sjálfur skýrir Guðmundur gátuna þannig:

Í fjósi kálfi kýrin bar.

Kálfur nefnist drengflónið.

Kálfur er heiti kerrunnar.

Kálfur er bygging húsið við.

Þá er limra:

Er sveinkarnar flykkjast til fjalla,

fráleitt við syrgjum þá kalla,

en verri bjálfar

og vandræðakálfar

þyrpast á þingsins palla.

Síðan er ný gáta eftir Guðmund:

Úti á sænum glitrar gári,

góðum degi fagna ber,

nýja gátu á nýju ári

núna sendi ég frá mér:

Flytja manni ljúfust lög.

Lög í vegg ég hugsa' um.

Sárum valda sviða mjög.

Svo eru þeir á buxum.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is