[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Loftslagsumræðan fer iðulega út um víðan völl þegar fólk segir „mér finnst það ekki“ frammi fyrir niðurstöðum vísinda.

Loftslagsumræðan fer iðulega út um víðan völl þegar fólk segir „mér finnst það ekki“ frammi fyrir niðurstöðum vísinda. Líku gegnir um þjóðmenningarmálin þegar fólk lýsir skoðunum sem eiga sér enga stoð nema í hugmyndafræði um þjóðerni og þjóðríki, sem varð áhrifamikil á 19. öld. Lengi vel héldum við að hér hefði búið einsleit þjóð og því hefði hugmyndin um eina þjóð í einu ríki gengið upp hjá okkur. Smám saman komu þó sprungur í þjóðarímyndina sem hafði verið sniðin að sjálfsmynd betur megandi karla; gelíska upprunanum og þrælahaldi til forna hafði verið sópað undir teppið, konur gleymst í heilu lagi, sömuleiðis fólk við sjávarsíðuna, verkafólk, börn – og yfirleitt öll sem voru öðruvísi. Sem á við um flest.

Undir lok síðustu aldar fór Ísland inn á evrópska efnahagssvæðið sem tryggði Íslendingum og öðrum þjóðum um leið frjálsa för í menntunar- og atvinnuleit. Fleiri tungumál tóku að heyrast á vörum þeirra sem hér störfuðu, og í skólum áttu æ fleiri börn annað mál en íslensku að móðurmáli. Þessar aðstæður kölluðu á nýja kennsluhætti og lyftu undir þróun hugmynda í menntunarfræðum. Um líkt leyti rann upp fyrir stjórnvöldum að íslensk börn eru og hafa alltaf verið alls konar og alla vega og því var ákveðið að allt skólastarf skyldi stefna að hinni fögru hugmynd um skóla án aðgreiningar.

Hermína Gunnþórsdóttir, prófessor á Akureyri, hefur rannsakað innleiðingu þessarar nýju stefnu og dregið fram að í skólunum er við rótgrónar hugmyndir um menntun og skólastarf að etja; ekki síst sjálft tungumálið sem stendur í vegi fyrir breytingum. Okkur skorti orðfæri til að ræða um kennslu og lærdóm sem byggist á því að hvert og eitt okkar fái kennslu og læri í skólanum á sínum forsendum miðað við sína styrkleika – fremur en að öllum sé ætlað að fara á svipuðum hraða í gegnum samræmt námsefni og falla út úr skólakerfinu að öðrum kosti. Það kemur fram í rannsóknum Hermínu að mörgum þykir hin nýja sýn endurspegla óskhyggju um hinn fullkomnasta heim allra heima, hugmyndir sem ekki sé hægt að raungera, hvorki í skólanum né í veröldinni utan skólans.

Hugmyndirnar endurspegla þó viðleitni sem á erindi út í þjóðfélagið þar sem er vaxandi þörf fyrir sömu hugsun vegna þess augljósa fjölmenningarsamfélags sem við búum nú í, með fólki af ólíkum trúar- og landfræðilegum uppruna, en kemur líka til móts við fjölbreytileikann sem hefur alltaf verið í mannlegu samfélagi en verið haldið niðri vegna hugmynda um einsleitni og tilhneigingar til að láta okkur öll falla að staðalmyndum. Mikilvægt í máli Hermínu er að fjölmenningin er ekki stefna heldur veruleiki okkar mannanna. Það er því ekki hægt að vera á móti fjölmenningu frekar en veðrinu. Þannig er menningarsamfélagið og hefur alltaf verið þótt það sé ekki nema á síðustu áratugum sem það kemur aftur fram í tungumálunum hér á landi.

Gísli Sigurðsson gislisi@hi.is