Bíldudalur Unnið að pökkun á laxi hjá Arnarlaxi.
Bíldudalur Unnið að pökkun á laxi hjá Arnarlaxi. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Verð hlutabréfa fiskeldisfyrirtækisins Arnarlax hefur nærri tvöfaldast frá því viðskipti hófust með bréfin á NOTC-hlutabréfamarkaði kauphallarinnar í Osló um miðjan nóvember.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Verð hlutabréfa fiskeldisfyrirtækisins Arnarlax hefur nærri tvöfaldast frá því viðskipti hófust með bréfin á NOTC-hlutabréfamarkaði kauphallarinnar í Osló um miðjan nóvember. Hækkun hlutabréfanna á þátt í því að greiningarfyrirtæki hækkar mat á hlutabréfum norska fiskeldisrisans SalMar, sem á meirihluta hlutabréfa í Arnarlaxi.

SalMar greiddi 55,80 norskar krónur fyrir hluti í Arnarlaxi í yfirtökutilboði sem fyrirtækið gerði í byrjun ársins. Samkvæmt því var heildarverðmæti hlutabréfa félagsins rúmir 20 milljarðar íslenskra króna. Norsk greiningarfyrirtæki höfðu trú á hlutabréfum Arnarlax og mæltu með kaupum. Töldu þeir að verðmæti hvers hlutar væri um 100 krónur norskar.

Viðskipti hófust 15. nóvember og síðan hefur leiðin aðeins legið upp á við. Í gær var verðið komið í 110 krónur norskar, eða tvöfalt það verð sem Salmar notaði í yfirtökutilboðinu.

Heildarverðmælti hlutafjár er komið yfir 40 milljarða íslenskra króna og slagar upp í verðmæti hlutabréfa Icelandair sem í gær stóð í 45 milljörðum.

Hluthafahópurinn stækkar

„Við erum í sjálfu sér ekkert að velta þessu fyrir okkur, frá degi til dags. En vissulega er ánægjulegt að sjá hvað mikill áhugi er á félaginu,“ segir Kjartan Ólafsson, stjórnarformaður Arnarlax. Hann segir einnig jákvætt að hluthafahópurinn hafi stækkað verulega og eru hluthafnar nú að nálgast 90. Meðal þeirra eru fjárfestar í löndum Skandinavíu og einhverjir á Íslandi.

Þá var tilkynnt um kaup Björns Hembre, forstjóra Arnarlax, á 2.900 hlutum, um miðjan desember þegar verðið var 80 krónur norskar á hlut. Fjárfesti hann því fyrir rúmar 3 milljónir íslenskra kr. Fyrir liggur að SalMar sem á rúm 59% hlutafjár hefur haldið sínum hlut, samkvæmt hluthafalista sem birtur var í byrjun vikunnar, sömuleiðis allir eða flestir af öðrum helstu hluthöfum félagsins. Viðskiptin hafa því verið á milli minni hluthafa.

Hefur áhrif á móðurfélagið

Í greiningu norska bankans DNB á SalMar er verðmat fyrirtækisins hækkað og mælt með kaupum á bréfum fyrirtækisins, þrátt fyrir að framleiðsla hafi verið aðeins undir spám á síðasta ári. Fram kemur að ástæðan fyrir minni framleiðslu er að slátrun úr einhverjum stöðvum var frestað fram yfir áramót vegna óveðurs.

Skýringar á hækkuðu verðmati eru jákvæð teikn í rekstri og sérstaklega nefnt að verðmæti hlutarins í Arnarlaxi hafi aukist.