Slys Ökumenn sem urðu fyrir ruslagámi í gær voru fluttir á gjörgæslu.
Slys Ökumenn sem urðu fyrir ruslagámi í gær voru fluttir á gjörgæslu. — Morgunblaðið/Eggert
Tveir voru fluttir á gjörgæslu eftir alvarlegt umferðarslys á Vesturlandsvegi á tólfta tímanum í gær þar sem stór ruslagámur losnaði aftan úr vöruflutningabifreið og lenti á vörubíl og lítilli fólksflutningabifreið.

Tveir voru fluttir á gjörgæslu eftir alvarlegt umferðarslys á Vesturlandsvegi á tólfta tímanum í gær þar sem stór ruslagámur losnaði aftan úr vöruflutningabifreið og lenti á vörubíl og lítilli fólksflutningabifreið.

Annar þeirra slösuðu var sagður með alvarlega höfuðáverka en áverkar hins voru annars konar og ekki talin jafn alvarleg.

Ökumennirnir tveir voru enn á gjörgæslu samkvæmt upplýsingum mbl.is á tíunda tímanum í gær.

Haft var eftir Valgarði Valgarðssyni, aðalvarðstjóra lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í gærkvöldi að ekki væri hægt að staðfesta hvort líðan ökumannanna væri stöðug.

Hvasst var í Kollafirði í gær og líkur á því að vindur hafi svipt gámnum af stað þegar vörubílarnir tveir mættust. Valgarður staðfesti í gær að rannsakað yrði hvað olli því að gámurinn losnaði.

Tók það um það bil tvo klukkutíma að hreinsa veginn, enda gert í vonskuveðri og höfðu langar bílaraðir myndast á Vesturlandsvegi beggja vegna við slysstað. rosa@mbl.is

Betur fór en á horfðist

• Læknir var fyrstur á vettvang Rósa Margrét Tryggvadóttir

rosa@mbl.is

„Þegar rúta er á toppnum og tæplega 50 manns í bílnum gerir maður ráð fyrir hinu versta. Það segir sig sjálft. Maður hafði mestar áhyggjur af því að einhver væri undir bílnum,“ segir Hilmar Hilmarsson, varðstjóri lögreglunnar á Norðurlandi vestra, en hann var einn af þeim fyrstu á vettvang alvarlegs rútuslyss skammt utan við Blönduós í gær.

„Það var algjör tilviljun að í fyrsta bílnum sem kom á vettvang voru læknir og hjúkrunarfræðingur. Þau fóru beint í bráðaflokka og huguðu að fólkinu,“ segir hann. Hann segir að mikil ringulreið og stress hafi verið á vettvangi en að allir hafi sinnt störfum sínum vel.

Telur hann mestar líkur á að orsök slyssins megi rekja til veðurs, en mikið rok, snarpar vindhviður og mikil hálka var á vettvangi.

Hefði getað farið verr

Vilhjálmur Karl Stefánsson rannsóknarlögreglumaður, sem einnig var á vettvangi, tekur undir með Hilmari. Aðstæður hafi litið mjög illa út og betur hafi farið en á horfðist.

„Það hefði getað farið verr. Það fer frekari rannsókn fram á morgun [í dag]. Þá kemur rannsóknarnefnd samgönguslysa og það verða teknar betri myndir í björtu,“ sagði Vilhjálmur í samtali við Morgunblaðið seint í gærkvöldi.