Ég hef aldrei fyrr hitt á viðmælanda sem kominn er á steypirinn og á þráðbeinni leið á fæðingardeildina.

Riiiiiiiiing.

Morgunblaðið. Orri Páll.

Ha! Morgunblaðið? Orri Páll?

Já.

Nú, ég hélt að ég væri að hringja á fæðingardeildina.

Nei. Við tökum ekki á móti börnum hér. Ég var hins vegar að spá í að taka við þig viðtal.

Viltu taka viðtal við mig?

Já.

Nei, það gengur því miður ekki. Ég er á leiðinni upp á fæðingardeild að eiga barn.

Nú, jæja. Það er ekkert annað. Þá er líklega rétt að bíða með viðtalið.

Já, ætli það ekki. Ég er svolítið annars hugar núna. Þú skilur.

Já, mikil ósköp. Það er alveg eðlileg forgangsröð; að þú eigir barnið fyrst og við tölum saman við annað tækifæri.

Já. Það er líklega best. Þér er velkomið að taka hús á mér á morgun, ef það hentar.

Tja, það liggur kannski ekki alveg svo mikið á þessu. En takk fyrir og gangi þér vel!

Já. Takk sömuleiðis!

Á löngum ferli hérna á blaðinu hef ég lent í ýmsu en engu í líkingu við símtalið sem lýst er hér að framan og átti sér stað fyrir rúmri viku. Ég hef aldrei fyrr hitt á viðmælanda sem kominn er á steypirinn og á þráðbeinni leið á fæðingardeildina. Í fyrra sótti ég reyndar að manni meðan hann var í sundi en það er allt annað og ómerkilegra. Með fullri virðingu fyrir þeirri göfugu íþrótt sundinu.

Þetta er í raun ennþá kyndugra fyrir þær sakir að eins og línurnar hér að ofan gefa til kynna þá hringdi konan í mig – en ekki öfugt. Ég hafði að vísu reynt að ná í hana svona fimmtán mínútum áður en enginn svarað í símann. Ég gef mér að konan hafi verið búin að vera í sambandi við fæðingardeildina fyrr um daginn og óvart valið númerið mitt þegar hún ætlaði að hringja þangað til að stimpla sig inn.

Enda þótt konan væri ekki alveg með hugann við blaðaviðtal þá gaf hún sér góðan tíma til að útskýra stöðuna fyrir mér. Það datt hvorki né draup af henni og hló hún dátt að þessum undarlega misskilningi – og við bæði.

Það er sem ég segi; engir tveir dagar eru eins í þessu ágæta starfi.