Nýi Magni Mjög öflugur bátur.
Nýi Magni Mjög öflugur bátur. — Ljósmynd/Damen Shipyards
Hin tíðu óveður við landið hafa haft ýmsar afleiðingar. Þar á meðal hefur heimkomu hins nýja dráttarbáts Magna verið frestað og bíður hann af sér veðrið í Rotterdam í Hollandi. Hinn nýi dráttarbátur var smíðaður í Víetnam.

Hin tíðu óveður við landið hafa haft ýmsar afleiðingar. Þar á meðal hefur heimkomu hins nýja dráttarbáts Magna verið frestað og bíður hann af sér veðrið í Rotterdam í Hollandi.

Hinn nýi dráttarbátur var smíðaður í Víetnam. Magni lagði af stað til Íslands 19. október og kom til Rotterdam tveimur mánuðum seinna, eða 18. desember. Hann hafði þá lagt að baki tæplega 10.000 sjómílna siglingu. Gekk siglingin vel að öllu leyti.

Áætlað var að Magni myndi leggja í hann til Íslands strax eftir áramótin og yrði þá í Reykjavík fyrir miðjan janúar.

Af því hefur ekki getað orðið vegna ótíðarinnar, að sögn Gísla Jóhanns Hallssonar, yfirhafnsögumanns Faxaflóahafna. Áhöfn á vegum skipasmíðastöðvarinnar Damen Shipyards í Hollandi siglir bátnum heim. „Hollendingarnir töluðu um það í gær að það væri allavega vika í brottför,“ segir Gísli Jóhann.

Það hefði komið sér vel ef nýi Magni hefði verið til staðar á dögunum þegar flutningaskipið Francisca losnaði frá bryggju í Hafnarfirði og rak stjórnlaust að landfyllingu. Magni „gamli“ var fenginn til að draga skipið aftur að bryggjunni.

„Verkefnið í Hafnarfirði var í sjálfu sér átakalítið, það þurfti ekki svo mikið afl. Það var siglingin sem var erfið til Hafnarfjarðar, vont sjólag og mikil alda, og því var varðskipið Týr fengið til að reyna að skýla Magna á leiðinni. Nýi Magni hefði að öllum líkindum farið betur í þessu sjólagi, enda stærra skip,“ segir Gísli Jóhann. sisi@mbl.is