Guðmundur býst við mikilli eftirspurn eftir þjálfun í flugherminum þegar kyrrsetningu MAX-véla verður aflétt.
Guðmundur býst við mikilli eftirspurn eftir þjálfun í flugherminum þegar kyrrsetningu MAX-véla verður aflétt. — Morgunblaðið/Golli
Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Flughermir TRU Flight Training Iceland verður notaður fyrir Boeing 737-800-leiguvélar Icelandair.

Einn af þremur flughermum fyrirtækisins TRU Flight Training Iceland hefur staðið óhreyfður í sex mánuði eða frá þeim tíma þegar þjálfun á Boeing 737 MAX-vélar stöðvaðist um allan heim. Þetta staðfestir Guðmundur Örn Gunnarsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, sem er dótturfélag Icelandair Group. Hermirinn var keyptur til landsins í tengslum við kaup Icelandair Group á 16 þotum af fyrrnefndri gerð.

TRU Flight Training Iceland varði um milljarði króna við uppsetningu flughermisins.

Nýtist einnig vegna leiguflugvélanna í vor

Nú stefnir hins vegar í að hann verði tekinn í notkun að nýju í aðdraganda þess að Icelandair tekur í notkun leiguvélar af gerðinni Boeing 737-800. Þeim er ætlað að fylla í skarðið sem MAX-vélarnar skildu eftir en þær hafa verið kyrrsettar frá því í mars í fyrra. Ekki liggur enn fyrir hvenær þeim verður heimilt að fljúga að nýju en Icelandair gaf það út í desember að það búist við því að kyrrsetningunni verði aflétt í síðasta lagi í maí næstkomandi.

Guðmundur segir í samtali við Morgunblaðið að gera megi ráð fyrir því að þjálfun í herminum hefjist einhvern tíma í febrúarmánuði.

„Það er gert ráð fyrir að vélarnar verði afhentar í mars og þá er líklegt að þjálfunin verði farin af stað. Við getum bæði þjálfað á MAX og eldri týpur 737-vélanna á þessum hermi.“ Hann segist einnig búast við því að mikil eftirspurn verði eftir þjálfun í herminum þegar kyrrsetningunni verður aflétt.

„Við erum búin að gera marga samninga við fyrirtæki sem vilja þjálfa sína flugmenn á MAX-vélarnar hjá okkur. Svo er mikil þörf fyrir þjálfun flugmanna hjá Icelandair enda félagið með margar vélar af þessu tagi tilbúnar til notkunar.“

Umtalsverð áhrif

Spurður út í hvaða áhrif stöðvun MAX-hermisins hafi haft á fyrirtækið segir Guðmundur að þau séu vissulega umtalsverð en að reksturinn hafi gengið vel þrátt fyrir það. Því ráði mikil eftirsókn í hina hermana tvo sem fyrirtækið rekur en þeir eru notaðir til þjálfunar á 757- og 767-þotum frá sama framleiðanda.

„Nýtingin á hinum hermunum hefur verið með miklum ágætum og hlutdeild erlendra aðila hefur aukist mikið. Samtals hafa hermarnir verið með 31% erlenda nýtingu en Icelandair hefur nýtt 69% tímans, þar af hefur 757-hermirinn verið nýttur 60% af erlendum flugfélögum. Það hlutfall var 25% árið 2018.“

Bendir Guðmundur Örn á að þessi þróun hafi ýmsar jákvæðar afleiðingar í för með sér fyrir íslenska ferðaþjónustu, enda þurfi áhafnir sem hingað komi til þjálfunar að nýta sér hótelþjónustu og þá njóti veitingahús einnig góðs af umsvifunum.

„Mér reiknast svo til að þessi umsvif hafi tryggt 3.000 til 3.500 hótelnætur á síðasta ári.“

Uppfærsla skipti sköpum

Forsvarsmenn TRU Flight Iceland líta björtum augum fram á nýárið og vonir standa til að MAX-hermirinn verði kominn í fulla notkun innan fárra mánaða. Þá hefur fyrirtækið einnig styrkt stöðu sína í samkeppni við fyrirtæki sem bjóða upp á þjálfun á 757- og 767-vélar. Það kemur til af því að hermarnir eru með nýjum uppfærslum sem brátt verður gerð ófrjávíkjanleg krafa um.

„Þessar kröfur eru nú þegar gerðar í Bandaríkjunum og þær munu taka gildi innan átta mánaða í Evrópu einnig. Þær áttu raunar að taka gildi í Evrópu í desember en það var veittur frestur fram á þetta ár. Þessi uppfærsla gerir mögulegt að þjálfa viðbrögð við aðstæðum sem nauðsynlegt er að flugmenn kunni skil á. Þetta eru kröfur sem settar hafa verið eftir slys þar sem Airbus A330 þota Air France fórst á leiðinni milli Rio de Janeiro og Parísar í júní 2009,“ segir Guðmundur Örn og bendir á að flestir keppinautar TRU Flight Iceland séu að keyra á gömlum hermum og að þeir eigi eftir að uppfæra búnaðinn.