Svanhildur Árný Sigurjónsdóttir fæddist 5. maí 1927 á Sæbóli í Haukadal við Dýrafjörð. Hún lést 30. desember 2019 á Hjúkrunarheimilinu Skjóli í Reykjavík.
Foreldrar hennar voru Sigurjón Guðmundsson, f. 24. maí 1885, d. 7 des. 1963, og Kristjana Sigríður Guðmundsdóttir, f. 11. ágúst 1901, d. 26. apríl 1981. Fósturforeldrar Svanhildar voru Magnús Jón Samúelsson, f. 13. september 1869, d. 26. júní 1931, og Halldóra Gestsdóttir, f. 19. mars 1884, d. 6. júlí 1972.
Systkini Svanhildar eru Snjáfríður, f. 1922, Kristmundur, f. 1923, d. 1989, Guðmunda Erla, f. 1928, d. 2008, og Kristín, f. 1932, d. 2016. Samfeðra systkin eru Árni Sigurður, f. 1911, d. 1982, Guðmundur, f. 1913, d. 2000, Sigurjón, f. 1915, d. 1979, og Svanhildur, f. 1917, d. 1922. Uppeldissystkin Svanhildar voru Guðmunda, f. 1922, d. 2016, Ingibjörg, f. 1918, d. 1993, og Gestur, f. 1924, d. 2015.
Svanhildur giftist Sigurði Sigurjónssyni framreiðslumanni, f. 18. október 1928, d. 25. janúar 1967. Þau skildu. Börn þeirra eru: Halldór, f. 1945; Páll, f. 1948; Daði, f. 1949, d. 2000; og Sigurður, f. 1954, d. 1988. Barn Svanhildar og Kristmundar Antons Jónassonar er Edda, f. 1963.
Útförin fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 15. janúar 2020, klukkan 13.
Að eiga vinkonu sem er um 30 árum eldri er ekki sjálfgefið. Þannig var Svana frænka mín og vinkona. Við höfðum átt ýmis samskipti sl. 15 ár, fórum til dæmis í ferðalög um landið með mömmu sem var uppeldissystir hennar og var þá aldeilis glatt á hjalla hjá okkur. Við fórum vestur á firði á þeirra æskuslóðir og það var dásamlegt að heyra þær tala um Keldudalinn kæra og bernskudagana þar. Taugin vestur var alltaf sterk. Svana var í senn alþýðukona og heimsborgari.
Hún hafði lifað tímana tvenna og reynt margt. Hún var fyrsta konan sem lærði að vera þjónn eða framreiðslumaður á Íslandi og vann lengi í Þjóðleikhúskjallaranum. Hún kynntist því mörgum úr leikhúslífinu og passaði án efa vel inn í umgjörðina þar.
Hún var fíngerð og lágvaxin og sagði kímin að hún hefði reykt óbeint í vinnunni því öskubakkinn á barborðinu var á hæð við hana. Hún hafði yndi af náttúru landsins og ferðalögum.
Til að geta ferðast um óbyggðir landsins réð hún sig á eldhúsbíl hjá Guðmundi Jónassyni nokkur sumur og þannig komst hún inn að perlum hálendisins eins og Öskju, Herðubreiðarlindum og Kverkfjöllum. Þessum öræfaáhuga deildum við Svana og fylgdu margar skemmtilegar sögur úr þessum ferðum í spjalli okkar. Hún var ljóðelsk og var líka ótrúlega flink að setja saman vísur, sýndi hún mér tvisvar gamanvísur sem hún hafði sett saman á smellinn hátt um samferðafólk sitt á fjöllum og um starfsfólkið í Múlabæ en þar dvaldi hún í dagvist fram á síðasta ár. Hún var smekkleg og smart, flink prjónakona og prjónaði dásamlega fínlega dúka í massavís enda með ótrúlega nettar hendur svo það hentaði henni vel. Hún unni líka ballett og óperum og fórum við nokkrum sinnum saman í Hörpu á þannig sýningar, síðast fórum við saman á Svanavatnið í lok nóvember. Dásamaði hún mikið þetta fallega hús og hvað við eigum stórkostlega sinfóníuhljómsveit.
Ekki spillti þegar hún sagði sögur frá óperunum á þeim tíma sem hún vann í Leikhúskjallaranum. Húmor og glettni einkenndi Svönu og sagði hún oft skemmtilega frá. Hún var fordómalaus og framsýn í hugsun og breytti viðhorfi sínu til samtímamála eftir því sem hún kynnti sér þau betur, studdi t.d. baráttu samkynhneigðra heilshugar og tók þátt í starfi Amnesty International um tíma. Alþýðukonan Svana elskaði mat eins og slátur, svið, reykta síld og harðfisk. Við fengum okkur stundum þetta góðgæti og hámuðum í okkur harðfiskinn góða frá Halldóri frænda í Breiðadal. Hana langaði einmitt í sviðapartí til mín eins og hún orðaði það þegar fæturnir voru orðnir of veikburða til að ferðast þar sem voru tröppur, það partí bíður betri tíma.
Hún hafði áhuga á að fylgjast með börnum mínum og barnabarni og náði hún að koma í heimsókn til mín sl. sumar og hitta þau.
Ég kveð skemmtilega og fjölfróða frænku mína með söknuði og geymi hjá mér það sem ekki var ætlast til að bera á torg og held hinu á lofti. Nú sveiflast hún um grænar grundir Keldudalsins með uppeldissystkinum sínum, gætir kinda í hjásetu eins og í bernsku og snæðir rúgbrauð með rauðmaga og nartar í sviðakjamma.
Margrét Ívarsdóttir.