Akranes, nýtt flutningaskip Smyril Line, kom í fyrsta skipti til heimahafnar sinnar, Þorlákshafnar, í gærmorgun. Skipið verður í siglingum á milli Þorlákshafnar og Hirtshals í Danmörku með viðkomu í Færeyjum. Það er 10 þúsund tonn og getur tekið 100 vöruflutningavagna í hverri ferð. Skipið siglir á 20 mílna hraða.
Fyrir rekur Smyril Line farþegaferjuna Norrænu og vöruflutningaferjuna Mykines. Síðarnefnda skipið er í föstum siglingum hingað til lands frá Rotterdam.
Þorlákshöfn þykir hentugur staður fyrir flutninga á milli Íslands og meginlands Evrópu þar sem um átta klukkustundir sparast með því að þurfa ekki að sigla fyrir Reykjanesið hvora leið. Sérstaklega hefur leiðin verið vinsæl fyrir flutning á ferskum fiski héðan, farið er á miðnætti á föstudögum og dreifing getur hafist á fiskinum um alla Evrópu á þriðjudagsmorgni. Með siglingum til Hirtshals styttist flutningatími á milli Skandinavíu og Íslands, sem minnkar lagerhald og fjárbindingu innflytjenda. Fram kom í samtali við Lindu Björk Gunnlaugsdóttur, framkvæmdastjóra Smyril Line, hér í blaðinu í desember að mikilvægt væri að áframhaldandi þróun yrði á höfninni í Þorlákshöfn. Hana þyrfti að stækka.