Formaður Leikstjórinn Spike Lee á kvikmyndahátíðinni í Cannes árið 2018.
Formaður Leikstjórinn Spike Lee á kvikmyndahátíðinni í Cannes árið 2018. — AFP
Bandaríski kvikmyndaleikstjórinn Spike Lee verður formaður aðaldómnefndar kvikmyndahátíðarinnar í Cannes í ár og jafnframt fyrsti þeldökki maðurinn til að gegna því starfi.
Bandaríski kvikmyndaleikstjórinn Spike Lee verður formaður aðaldómnefndar kvikmyndahátíðarinnar í Cannes í ár og jafnframt fyrsti þeldökki maðurinn til að gegna því starfi. Lee mun afhenda Gullpálmann, aðalverðlaun hátíðarinnar fyrir bestu kvikmynd, undir lok hennar, 23. maí en tilkynnt verður um aðra dómnefndarmenn um miðjan apríl. Lee frumsýndi síðast í Cannes kvikmyndina BlacKkKlansman árið 2018 sem hlaut Grand Prix-verðlaunin og hann hlaut sín fyrstu Óskarsverðlaun fyrir sömu mynd í fyrra. Sjö kvikmyndir Lees hafa verið sýndar í Cannes og segir hann í yfirlýsingu að hann hafi verið hissa, glaður og stoltur yfir því að vera boðin staða formanns dómnefndar árið 2020. Hátíðin hefði haft mikil áhrif á leikstjóraferil hans og frama. Fyrsta mynd Lees, She's Gotta Have It frá árinu 1986, hlaut Prix de la Jeunesse á hátíðinni og Do The Right Thing var í aðalkeppni hennar 1989, svo nokkrar séu nefndar af „jónum“ Lees, eins og hann kallar jafnan kvikmyndir sínar. Í niðurlagi yfirlýsingar sinnar segir Lee að honum sé heiður sýndur með því að vera fyrsti maðurinn af afrískum uppruna sem situr í sæti formanns dómnefndar.