Samningar við ósannindamenn eru almennt lítils virði

Viðurkenning íranskra stjórnvalda um helgina, um að þau bæru í réttri raun ábyrgð á því að farþegavél Ukrainian International Airlines var skotin niður í síðustu viku, hefur vakið réttláta reiði innan Írans. Einkar vandræðalegt var að horfa upp á klerkastjórnina hafna ítrekað ábyrgð sinni á verknaðinum, þrátt fyrir að snemma kæmu fram mjög sterkar vísbendingar, þeirra á meðal myndbandsupptökur og ljósmyndir, sem sýndu að farþegavélin hefði verið skotin niður.

Enginn efaðist um að þarna hefði einungis verið um hræðilegt slys að ræða en ekki illan ásetning. Þetta hlyti að hafa verið misgjörð sem stafaði af mannlegum mistökum en ekki vilja til að valda ógn og ófriði eins og iðulega þegar írönsk stjórnvöld eiga í hlut. Engu að síður ákvað klerkastjórnin að varpa af sér ábyrgð, og ætlaði raunar í fyrstu að reyna að koma í veg fyrir að flugritar vélarinnar yrðu rannsakaðir. Nú er augljóst orðið hvers vegna klerkastjórnin reyndi að þvælast fyrir rannsókn.

Svo virðist sem stjórnvöld í Teheran hafi séð að sér þegar ljóst var orðið að rannsókn Úkraínumanna á tildrögum slyssins hlyti að leiða fram sannleikann. Var þá af tvennu illu skárra að viðurkenna mistökin og reyna að lágmarka þann skaða sem framferðið dagana á undan hafði valdið því litla sem eftir var af orðspori Íransstjórnar.

Atvikið, og þá fyrst og fremst ósannindin, hefur veikt stöðu Írana í deilum þeirra við Bandaríkjastjórn til mikilla muna, sér í lagi þar sem mótmælin sem sprottið hafa upp vegna ósanninda stjórnvalda hafa alla burði til þess að verða jafnfjölmenn og fjöldamótmælin sem kviknuðu í nóvember síðastliðnum. Þá ákváðu stjórnvöld að beita mikilli hörku til að leysa mótmælin upp og hefur verið áætlað að hundruð manna og jafnvel meira hafi látist í þeim aðförum. Klerkastjórnin hafnar því, en hafi einhver trúað henni áður gerir það enginn nú.

Harkan hefur að því er virðist verið minni að þessu sinni, en næg samt. Stjórnvöld þverneita reyndar nú að hafa beitt gúmmíkúlum til þess að dreifa mannfjölda sem safnaðist saman á mánudagskvöld til að minnast fórnarlamba flugslyssins og mótmæla ósannindum stjórnvalda. Spurning er hvorum sé betur treystandi til að fara rétt með; fólkinu sem segist hafa orðið fyrir gúmmíkúlnahríð eða stjórnvöldum sem vildu ekki einu sinni viðurkenna ábyrgð sína á hinum hræðilega atburði vikuna áður. Varla leikur nokkur vafi á því.

Þá verður að líta til þess að stjórnvöld í Íran létu sig jafnvel hafa það, sem teljast verður afar óvenjulegt og gróft brot á samningum ríkja, að handtaka sendiherra Breta og saka hann um að hafa ýtt undir mótmælin. Sú framganga sýnir vel hve alvarlegt ástandið er orðið í landinu og hve varasamt er að treysta stjórnvöldum.

Sannleikurinn er jafnan einn versti óvinur einræðisríkja, og því gera þau allt til að forðast að hann komi í ljós. En slíkt hefur afleiðingar. Mótmælin nú eru einungis ein birtingarmynd þess, að risavaxin gjá hefur myndast milli valdhafanna og almennings.

Allt þetta þarf að hafa í huga, þegar horft er til rótarinnar að þeim árekstrum sem nú eru á milli Bandaríkjanna og Írans, kjarnorkusamkomulagsins frá 2015. Samkomulagið hefur hangið á bláþræði síðan Trump Bandaríkjaforseti ákvað árið 2018 að draga Bandaríkin úr því, ekki síst þar sem viðbrögð Írans hafa til þessa verið þau að brjóta samkomulagið enn frekar en áður.

Bent hefur verið á ýmsa galla á því samkomulagi, meðal annars að í því eru Írönum einungis settar hömlur á framleiðslu úrans til ársins 2030, og eftir þann tíma yrði að treysta á eftirlit alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar, sem aftur veltur á samstarfsvilja yfirvalda á hverjum stað.

Samkomulagið, sem og þróun kjarnorkumála Írans eftir að gildistíma þess lýkur, veltur því á að hægt sé að treysta Íran til að standa við orð sín. Miðað við þau undanbrögð sem stjórnvöld í Teheran hafa beitt í máli farþegaþotunnar er ekki ástæða til að treysta nokkru sem þau hafa að segja. Vilji þau láta taka sig alvarlega og stíga aftur inn í samfélag siðaðra ríkja verða þau að sýna iðrun og yfirbót. Þau verða að láta af því að vera uppspretta ólgu og ófriðar í Mið-Austurlöndum og vinna með trúverðugum hætti að friði og stöðugleika á svæðinu. Íran á sér merkilega sögu og íbúar landsins hafa alla burði til að komast út úr þeim ógöngum sem klerkastjórnin hefur leitt þá í. Það gerist þó ekki nema með raunverulegri stefnubreytingu stjórnvalda.