Fréttaskýring
Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
Þetta er búinn að vera krefjandi tími og sveitarfélögin hér eiga hrós skilið. Þau hafa staðið sig mjög vel í því sem að þeim snýr. Við þurfum hins vegar að fá fleiri með okkur í lið til að bregðast við þessum aðstæðum – þar með talið ríkið,“ segir Berglind Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum (SSS).
Aukinnar óþolinmæði gætir nú meðal sveitarstjórnarmanna á Suðurnesjum með það afskiptaleysi sem þeir telja sig mæta af hálfu ríkisvaldsins. Fordæmalausri fólksfjölgun á svæðinu undanfarin ár hafi ekki verið mætt með auknum fjárveitingum ríkisins til að styðja við innviði samfélagsins. Er þar einkum og sér í lagi horft til heilbrigðismála en einnig samgangna og menntamála, svo dæmi séu tekin. Sveitarstjórnarmenn sem Morgunblaðið hefur rætt við telja sig finna fyrir skilningi en fögur fyrirheit skili litlu þegar þeim fylgi engir fjármunir.
„Við höfum undanfarin þrjú ár heimsótt öll fagráðuneytin sem þessar ríkisstofnanir lúta, farið fyrir fjárlaganefnd Alþingis, hitt Bjarna Benediktsson og hans fólk og kynnt okkar samantekt á þessum málum. Það virðist ekki skila miklu og maður er óneitanlega orðinn pirraður. Við sitjum bara uppi með snjóbolta sem stækkar og stækkar,“ segir Berglind.
Íbúum hefur fjölgað um 30%
Í nýrri samantekt og greiningu SSS kemur fram að frá árinu 2013 til október 2019 hefur íbúum á Suðurnesjum fjölgað um 30,8%. Alls nemur fjölgunin um 6.500 manns en til samanburðar er nefnt að íbúar á Vestfjörðum voru ríflega sjö þúsund í október og Eyjamenn voru 4.330.
„Án þess að ætlast til þess að teknir séu fjármunir frá öðrum er staðreyndin samt sú að þetta er alltaf sama kakan. Önnur landsvæði hafa verið að glíma við fólksfækkun en fá þó alltaf hækkun framlaga,“ segir Berglind og nefnir ýmislegt sem að auki skapi Suðurnesjum sérstöðu. Til að mynda að samsetning íbúa sé frábrugðin því sem víðast hvar þekkist, hlutfall erlendra íbúa sé mjög hátt, hlutfall fólks á aldrinum 21-45 sé hærra en annars staðar á landinu og karlar séu fleiri en konur. Þessu þurfi að gefa gaum. Þá bendir hún á að atvinnuleysi hafi aukist mun meira á Suðurnesjum en á landinu öllu undanfarin misseri.
Vantar fé til heilsugæslu
Stærsta gagnrýnin snýr eins og áður segir að framlögum til heilbrigðismála. Segir Berglind að lýðheilsuvísar Embættis landlæknis sýni að hvergi á landinu sé meiri þörf fyrir heilsugæsluþjónustu en á Suðurnesjum. Þar sem fjárveitingar til heilsugæslu hafi ekki verið auknar samfara fólksfjölgun sé staðan þó sú núna að Suðurnes fái lægsta framlag á hvern íbúa til heilsugæslu. Á sama tíma hafi farþegum á Keflavíkurflugvelli fjölgað mikið, sem leitt hafi af sér aukin umsvif. Þannig sé bráðamóttaka HSS nú orðin sú þriðja stærsta á landinu. Komur þangað árið 2018 voru litlu færri en á bráðamóttökuna á Akureyri.
Berglind segir að barátta síðustu þriggja ára fyrir auknum fjárveitingum hafi engu skilað í fjárlögum þessa árs. Hún segir að í kjölfar frumvarps Oddnýjar Harðardóttur hafi nefnd verið skipuð til að gera úttekt á stöðu Suðurnesja. Sú nefnd sé nú að störfum. „Þar á að greina samfélagsleg áhrif fólksfjölgunar á svæðinu og samsetningu íbúa hér. Við bindum helst vonir við að þegar sú nefnd hefur skilað af sér verði tekið tillit til þessa í næstu fjárlagagerð.“
60 tungumál í einum skóla
„Það hefur orðið gífurleg breyting á samfélaginu okkar. Árið 1998 bjuggu hér 300 manns sem voru af erlendu bergi brotnir. Árið 2019 voru þeir orðnir 4.900,“ segir Berglind Kristinsdóttir hjá SSS.„Við höfum dæmi þess að um sextíu tungumál hafi verið töluð hér í einum grunnskóla. Þetta eru aðstæður sem þekkjast ekki annars staðar á Íslandi. Ég leyfi mér reyndar að fullyrða að þetta sé ekki bara einstakt á landsvísu, þetta sé einstakt á heimsvísu,“ segir Berglind sem minnir á að Suðurnes hafi alltaf verið vertíðarsamfélag. „Svæðið heldur alltaf sínum sérkennum meðan þeir sem koma hingað og sækja vinnu, þeir þróast og breytast.“