Mótmæli Stúdentar komu saman við háskólann í Teheran og mótmæltu klerkastjórninni í Íran.
Mótmæli Stúdentar komu saman við háskólann í Teheran og mótmæltu klerkastjórninni í Íran. — AFP
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Utanríkisráðherrar Bretlands, Frakklands og Þýskalands tilkynntu í gær að þeir hygðust vísa brotum Írana á kjarnorkusamkomulaginu frá 2015 í sérstakt úrlausnarferli, þar sem Íran hefði ítrekað gerst brotlegt við ákvæði þess. Lýstu þeir því jafnframt yfir að ríkin þrjú hefðu þrátt fyrir allt áfram trú á gildi samkomulagsins við Íran og að þau vildu varðveita það ef kostur væri á.

Brot Írana þýddu hins vegar að ríkin hefðu engan valkost annan en að vísa deilunni áfram, en samkomulagið gerir ráð fyrir að hægt sé að vísa deilum um framkvæmd samningsins til sameiginlegrar nefndar. Ef ekki tekst að finna lausn þar fer deilan á endanum til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, sem gæti þá ákveðið að beita Írana refsiaðgerðum.

Í yfirlýsingu ráðherranna eru samningsbrot Írana tíunduð, en þeir hafa gengið lengra í auðgun úrans á síðustu mánuðum, og segir þar að aðgerðir Írana geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir takmörkun á útbreiðslu kjarnorkuvopna.

Stjórnvöld í Íran fordæmdu aðgerð Evrópuríkjanna þriggja í gær og sögðu að ef þau vildu „misnota“ deiluúrræði samkomulagsins yrðu þau einnig að „taka afleiðingunum“.

Opinn fyrir „samningi Trumps“

Í yfirlýsingu ríkjanna þriggja var sérstaklega tekið fram að vonir þeirra stæðu til að hægt yrði að sannfæra Írana um að fylgja samkomulaginu á ný. Þá lýstu ríkin því yfir að þau myndu ekki taka þátt í tilraunum Donalds Trump Bandaríkjaforseta til þess að beita Írana „hámarksþrýstingi“.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, lýsti því hins vegar yfir í gær að hann væri opinn fyrir því að vinna að nýju samkomulagi sem byggði á hugmyndum Trumps. „Ef það þarf að henda samkomulaginu ættum við að fá nýtt í staðinn og fáum þá Trump-samkomulag í staðinn,“ sagði Johnson og bætti við að núgildandi samkomulag væri gallað frá sjónarhóli Bandaríkjamanna.

Josep Borrell, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, sagði hins vegar að það skipti nú öllu máli að bjarga samkomulaginu frá 2015.

Enn mótmælt í Íran

Stjórnvöld í Íran tilkynntu í gær að búið væri að handtaka nokkra af þeim sem bæru ábyrgð á því að úkraínsk farþegaflugvél var skotin niður í misgripum á miðvikudaginn í síðustu viku. Ekki kom fram í tilkynningu yfirvalda hverjir eða hversu margir hefðu verið handteknir. Þá voru haldin mótmæli fjórða daginn í röð vegna mistakanna, en háskólastúdentar virðast vera í miklum meirihluta mótmælenda.

Um 200 grímuklæddir stúdentar söfnuðust saman við háskólann í höfuðborginni Teheran og hrópuðu vígorð gegn klerkastjórninni. Gegnt þeim stóð annar hópur mótmælenda, hliðhollur stjórnvöldum, sem formælti Bretlandi, en Rob Macaire, sendiherra Bretlands í Íran, var handtekinn um helgina fyrir meinta þátttöku í mótmælum. Brenndu þeir mótmælendur pappaspjald með útprentaðri mynd af Macaire. Lögreglumenn héldu mótmælendahópunum tveimur í sundur.

Talsmaður íranska dómskerfisins lýsti því yfir í gær að Macaire væri að þeirra áliti „persona non grata“ í Íran, sem er fyrsta skrefið að því að vísa sendiherranum úr landi. Utanríkisráðuneyti landsins mun hins vegar taka lokaákvörðunina um brottvísun Macaire.

Þá þvertóku stjórnvöld í Íran fyrir að lögreglumenn hefðu skotið á mótmælendur í Teheran á mánudaginn, en sjónarvottar sögðu að gúmmíkúlum hefði verið beitt til þess að dreifa mannfjöldanum. Sérfræðingar í málefnum Írans sögðu við AFP-fréttastofuna að lögreglan þyrfti að gæta sín að enginn létist í átökum við hana, þar sem það gæti orðið kveikjan að enn fjölmennari mótmælum.