Khalifa Haftar
Khalifa Haftar
AFP. Moskva.

AFP. Moskva. | Stríðsherrann Khalifa Haftar yfirgaf í gærmorgun viðræður, sem fram fóru í Moskvu, án þess að undirrita samkomulag um varanlegt vopnahlé milli sín og Fayez al-Sarrajs, forsætisráðherra ríkisstjórnarinnar í Trípólí, sem nýtur viðurkenningar Sameinuðu þjóðanna. Haftar ræður nú yfir megninu af Líbíu eftir nær samfelldar sóknaraðgerðir undanfarna níu mánuði.

Rússar, sem hafa stutt við bakið á Haftar, sögðu að hann hefði þó samþykkt eftir viðræðurnar að hann myndi heiðra núgildandi vopnahlé, sem samþykkt var í flýti um helgina, en það þykir standa höllum fæti.

Þá tilkynntu stjórnvöld í Þýskalandi að þau hefðu boðið bæði Haftar og Farraj til viðræðna í Berlín næstkomandi sunnudag ásamt ellefu öðrum ríkjum, þar á meðal Bandaríkjunum, Rússlandi, Tyrklandi og Kína.

Ákvörðun Haftars um að yfirgefa viðræðurnar í Moskvu þótti nokkurt áfall, en vonir höfðu staðið til að hægt yrði að binda enda á stríðsrekstur síðustu ára með samkomulagi. Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, hét því að hann myndi áfram reyna að miðla málum milli stríðandi fylkinga, þó að viðræðurnar nú hefðu runnið út í sandinn.

Hótar Haftar „kennslustund“

Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti, sem stutt hefur við bakið á Farraj og stjórnvöldum í Trípólí, brást hins vegar reiður við tíðindum gærdagsins. Sagði Erdogan að Tyrkir myndu ekki hika við að veita „uppreisnarseggnum Haftar verðskuldaða kennslustund“, ef hann léti ekki af árásum sínum á „bræður“ Tyrkja í Líbíu. Tyrknesk stjórnvöld samþykktu í upphafi janúar að senda herlið til stuðnings Trípólí-stjórninni, en tyrknesku hermennirnir eiga einungis að sinna ráðgjöf og þjálfun.

Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands, sagði í gær að þau ríki sem tækju þátt í ráðstefnunni í Berlín yrðu beðin að íhuga friðarsamkomulag sem gæti tryggt að hvorugur aðilinn í borgarastríði Líbýu gæti haldið átökum áfram. Þar á meðal myndu öll ríki á ráðstefnunni samþykkja að hætta að veita deiluaðilum hernaðaraðstoð, sem aftur gæti ýtt undir varanlegt vopnahlé.